Tíu ár með Bjarna hafa kostað lágtekjufjölskyldur næstum 5 milljónir

Á þeim tíu árum sem Bjarni Benediktsson hefur skatthlutfall láglaunafólks á 6. taxta Starfsgreinasambandsins, pars með tvö börn að kaupa litla íbúð, hækkað úr 0,68% í 7,34%. Þetta er meira en tíföld skattahækkun. Ef láglaunafjölskyldan hefði greitt sama hlutfall launa sinna í skatt, óbreytt hlutfall staðgreiðslu, barnabóta og vaxtabóta, hefði 4,3 m.kr. meira setið eftir hjá fjölskyldunni en raun varð á. Og ef við miðum við heildarlaun, fyrir frádrátt launatengdra gjalda, er tap fólksins á fjármálatíð Bjarna tæplega 5,0 m.kr.

Ástæða aukinna skatta á láglaunafólksins er skattastefnan. Í fyrsta lagi hefur barna- og vaxtabótakerfið verið látið hrörna með því að tekjumörkin innan kerfisins hafa ekki verið látin fylgja verðlagi og enn síður launum. Þegar láglaunafólkið fær launahækkanir með harðri verkalýðsbaráttu þá nær ríkið auknu fé af fólkinu með skerðingum. Það sama gildir um staðgreiðsluna. Persónuafslátturinn heldur varla í við verðlag og alls ekki laun.
Á tímabilinu hafa laun fólksins hækkað um 44% að núvirði eða um 253 þús. kr. Fyrir þessa hækkun var nettóskatturinn 3.904 kr. á mánuði en 60.662 kr. á eftir. Nettóskatturinn var 0,68% en fór í 7,34% á eftir. Það merkir að skattprósentan á launahækkunina, ávinning láglaunafólksins af baráttunni sinni, var 22,44%. Það er hærra skatthlutfall en auðugasta fólkið á Íslandi borgar í fjármagnstekjuskatt.

Þetta sýnir helstu einkenni skattkerfis nýfrjálshyggjuáranna. Skattbyrði láglaunafólks og fólks með meðaltekjur hækkar hægt og bítandi, með því að viðmiðunarmörk kerfisins hrörna í verðbólgunni. Svar nýfrjálshyggjufólksins er að þetta sé gott. Það sé eðlilegt að fólk borgi hærri skatta þegar það hækkar í launum. Hærra skatthlutfall sé merki um bætt kjör og almenna velsæld. Nýfrjálshyggjufólkið notar hins vegar þessi rök ekki á hátekjufólk. Þar er skatthlutfallið flatt, haggast ekki þótt fólk tvöfaldi eða margfaldi tekjur sínar. Skattstiginn er ekki brattur nema allra neðst, þar vex skatthlutfallið hratt á meðan það hreyfist ekkert efst.

Hér er tekið dæmi af lágtekjufólki á vinnumarkaði. Skerðingarnar eru enn miskunnarlausari gagnvart eftirlaunafólki og þeim sem reyna að lifa af örorkulífeyri.

Þegar Bjarni tók við var hér auðlegðarskattur sem lagðist á eignar allra auðugasta fólksins. Sá skattur hafði verið settur á tímabundið en Bjarni kaus að framlengja hann ekki. Það sama átti við um orkuskattinn, sem var sérstakt gjald á stóriðjuna sem hafði hagnast mikið á lækkun á gengi krónunnar og hefur síðan hagnast gríðarlega vegna hækkunar á álverði vegna stríðsins í Úkraínu. Bjarni lækkaði líka sérstakan bankaskatt. Og veiðigjöld útgerðarinnar hafa líka lækkað í tíð Bjarna. Allt eru þetta skattar á auðugasta fólks landsins og stærstu fyrirtæki. Þrátt fyrir bættan hag þessa fólks og fyrirtækja hafa skattarnir lækkað. Öfugt við það sem gerist þegar hagur láglaunafólks batnar lítillega. Þá hækkar Bjarni skattana. Rökin fyrir að lækka skatta á ríka fólkinu eru að peningarnir séu betur komnir í höndum þess. Rökin fyrir hækkun skatta á hinum fátæku er líklega öfug, að fé þess sé betur komið í höndum Bjarna en að fólkið eigi fyrir mat út mánuðinn.

Árið áður en Bjarni tók við sem fjármálaráðherra voru vaxtabætur um 0,8% af landsframleiðslu. Þetta var framlag samtryggingar ríkissjóðs til að ýta undir fasteignakaup almennings. Í fyrra jafngiltu vaxtabætur um 0,1% af landsframleiðslu. Á framleiðslu síðasta árs jafngildir þetta árlegu falli úr 30 milljörðum króna niður í 3,8 milljarða króna. Það er því rangt sem haldið er fram að erlendir kröfuhafar hafi fjármagnað skuldaniðurfærslu Bjarna og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hún var fjármögnuð með stórkostlegri lækkun vaxtabóta. Þegar upp var staðið dró aðgerðin úr möguleikum almennings til að eignast íbúðir, dró úr eignamyndun meðal fólks með miðlungstekjur og lægri tekjur.

Fjármálatíð Bjarna hefur þannig einkennst af stórkostlegum fjárflutningum frá láglaunafólki til þeirra sem hafa það gott. Og einkum til þeirra sem eru auðug, eins og á við um Bjarna og fjölskyldu hans. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Bjarni er ekki jafnaðarmaður og stefnir ekki að auknum jöfnuði. Bjarni er ójafnaðarmaður sem telur að aukinn ójöfnuður sé eftirsóknarverður, góður og sanngjarn.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí