Samkvæmt könnun Prósents eru 74% landsmanna mjög eða frekar ánægð með störf Guðna Th. Jóhannessonar forseta. Aðeins 8% landsmanna sögðust frekar eða mjög óánægð með Guðna. Ef við leggjum þetta saman þá er nettóstaðan plús 66%.
Staðan er ekki svona góð hjá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. 29% landsmanna segjast mjög eða frekar ánægð með hennar störf en 52% eru frekar eða mjög óánægð. Nettóstaða Katrínar er þá mínus 23%.
Í könnun Gallup frá upphafi cóvid, í maí 2020, sögðust 59% þátttakenda ánægð með Katrínu, 30 prósentustigum fleiri en í dag. Og þá sögðust 19% óánægð með Katrínu, 33 prósentustigum færri en í dag. Það hefur því orðið mikil breyting á afstöðu almennings til Katrínar á aðeins þremur árum.
Í öllu samhengi er þetta vond staða fyrir Katrínu. Til samanburðar var botninn hjá Richard M. Nixon sá að 24% Bandaríkjamanna voru ánægðir með hann en 66% óánægð, nettóstaða mínus 42%. Þetta var þegar Nixon sagði af sér sem forseti, steig upp í þyrluna og flaug burt frá Hvíta húsinu. Katrín er ekki komin þangað, en staða hennar er allt önnur og verri en fyrir fáeinum misserum.
22% landsmanna eru mjög eða frekar ánægðir með Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóra en 55% frekar eða mjög óánægðir. Nettóstaðan er mínus 33%. Hann er nær þyrlu Nixon en Katrín.