Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, birtir á Facebook mikinn reiðipistil þar sem hann gagnrýnir harðlega ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra að stöðva hvalveiðar. Athygli vekur að pistillinn vekur einna mesta lukku meðal harðra hægrimanna, flestra í Sjálfstæðisflokknum, en einnig Framsóknarfólks. Þá má því vel ætla að ákvörðun Svandísar hafi veikt ríkisstjórnarsamstarfið enn frekar, sem stendur fyrir völtum fótum. Í það minnsta fer þessi ákvörðun afar illa í grasrót flokkanna sem eru í ríkisstjórn með Vinstri grænum.
Vilhjálmur segir að Svandís hafi í raun rekið alla starfsmenn Hvals. „Að hugsa sér að matvælaráðherra virðist ætla að komast upp með að svipta yfir 150 manns lífsviðurværi sínu fyrirvaralaust með því að banna veiðar og vinnslu á hvalaafurðum. Á mannamáli er matvælaráðherra að reka alla starfsmenn Hvals fyrirvaralaust úr starfi! Ég hef lagst yfir tölur er lúta að tekjum þeirra sem starfa við veiðar og vinnslu hvalaafurða og má klárlega áætla miðað við gögn að verið sé að hafa um 1,2 milljarða tekjur af starfsmönnum Hvals. Starfsmönnum sem voru búnir að ráða sig til vinnu hjá Hval og fjölmargir mættir til starfa,“ skrifar Vilhjálmur.
Þess má geta að Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, er launaþjófur en árið 2020 var fyrirtæki hans dæmt til að greiða nokkrum starfsmönnum vangreidd laun. Þá var það Vilhjálmur sem var áberandi í baráttu starfsmanna fyrir því að fá launin. En nú skrifar Vilhjálmur: „Já, 1,2 milljarða atvinnutekjur hafðar af starfsmönnum vegna gerræðislegrar ákvörðunar matvælaráðherra en rétt er að geta þess að þessir 1,2 milljarðar eru fyrir utan öll afleiddu störfin sem veiðar og vinnsla hvalaafurða skapa. Hvar eru oddvitar norðvesturkjördæmis? Hvar eru sveitarstjórnarmenn? En sveitarfélögin missa uppundir 200 milljónir af útsvarstekjum fyrir utan margvíslegar tekjur vegna afleiddra starfa.Er það boðlegt að einn ráðherra geti tekið ákvörðun um að svipta yfir 150 fjölskyldur möguleika á góðum tekjum? Hvar er meðalhófið í þessari ákvörðun? ,“ spyr Vilhjálmur.
Hann heldur áfram og kallar eftir viðbrögðum frá Framsóknarflokknum. „Hvar eru t.d. þingmenn Framsóknarflokksins? Er málið þannig að flokkurinn ætli að láta það átölulaust að sjálfbær nýting á auðlindum hafsins sé fótum troðin af einum ráðherra?Hvar eru oddvitar kjördæmisins í ljósi þess að við Akurnesingar þurfum enn og aftur að verða fyrir blóðtöku vegna aðgerðaleysis stjórnmálamanna þegar kemur að atvinnuöryggi bæjarbúa?,“ skrifar Vilhjálmur.
Líkt og fyrr segir þá eru margir sem taka undir með honum í athugasemdum, áberandi margir úr grassrót ríkisstjórnarflokkana. Framsóknarkonan Ragna Ívarsdóttir skrifar athugsemd og merkir sérstaklega þingmenn Framsóknarflokksins á svæðinu. Hún skrifar: „Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Halla Signý Kristjánsdóttir. Nú væri gott að heyra frá ykkur, þögn í þessu stóra máli er ekki samþykkt.“ Þorsteinn Sæmundsson sat síðast á þingi fyrir Miðflokkinn en þar áður fyrir Framsóknarflokkinn. Áður en hann setist á þing var hann kaupfélagsstjóri svo tengsl hans við Framsókn eru mikil. Hann skrifar einfaldlega: „Rándýr populismi.“
Svo eru það Sjálfstæðismennirnir. Baldur Hermannsson, sem er helst þekktur fyrir þættina Þjóð í hlekkjum hugarfars, skrifar: „Ríkið ætti að bæta starfsmönnum tekjutapið.“ Svavar Guðmundsson sjávarútvegsfræðingur skrifar svo: „Að láta þetta Fagráð í dýraverndunar málum gefa sitt álit er líkt og að gefa drykkjumanni brennivín.“ Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands og Sjálfstæðismaður ef marka má málflutning hans, tekur einnig undir: „Tek undir hvert orð Villi. Þvílíkt og annað eins gerræði.“