Fyrirtækin losa en heimilin borga

Á árinu 2021 greiddu heimilin á landinu um 38,0 milljarða króna í mengunarskatta á núvirði. Á sama tíma greiddu fyrirtækin mun minna, eða 25,7 milljarða króna á núvirði. Jafnvel þótt við tökum erlenda aðila með, þá er hlutur heimilanna 60% á móti 40% sem hægt er tengja fyrirtækjarekstri. Þetta er í engu samhengi við hvert rekja má mengun og losun gróðurhúsalofttegunda, en talið er að heimilin losi um 11% á móti 89% sem koma frá fyrirtækjunum.

Hvað merkir þetta? Annað hvort er lagður á heimilin skattur upp á um 31,8 milljarða króna sem með réttu ætti að leggjast á fyrirtækin. Ef skatturinn á heimilin er í takt við losun þeirra, þá er skatturinn á fyrirtækin allt of lágur. Það þarf að innheimta 315 milljarð króna af fyrirtækjunum árlega en ekki tæplega 26.

Þetta er gríðarleg skekkja. Ef við tökum fyrra dæmið, um að heimilin séu að borga skattana fyrir fyrirtækin, þá borguðu heimilin 343 milljarða króna frá 2012 til 2021 af mengunarsköttum sem með réttu hefði átt að leggjast á fyrirtækin. Þetta er svo há upphæð að hún myndi mælast sem kjaraskerðing almennings.

Stefna íslenskra stjórnvalda virðist ganga út frá þeirri kenningu að almenningur sé skaðvaldurinn og beri ábyrgð á menguninni með neyslu sinni. Þetta er trúarsetning nýfrjálshyggjunnar sem heldur því fram að almenningur sé alvaldur í ímynduðu frjálsu markaðshagkerfi og fyrirtækin aðlagi sig að kröfum hans og óskum. Fjármagns- og fyrritækjaeigendur séu auðmjúkir þjónar einstaklinganna. Allir sem lifa innan síðkapítalismans, þar sem fákeppni og einokun æ færri auðhringja drottnar yfir samfélaginu, vita að þessi kenning er firra. Og hættuleg. Aðgerðir stjórnvalda gegn loftlagsvá og eyðingu náttúrugæða beinist fyrst og fremst gegn almenningi og heimilunum, eins og þau séu gerendur en ekki þolendur mengunar fyrirtækjanna. Á sama tíma komast fyrirtækin upp með að losa og menga og litlu sem engu breyta við sína framleiðslu. Kostnaðurinn af mengun fyrirtækja leggst á samfélagið og náttúruna án þess að mengunarvaldarnir séu látnir bera nokkra ábyrgð á gjörðum sínum. Mengunarskattar íslenskra stjórnvalda eru því ekki bara óréttlátir heldur hættulegir. Þeir hengja bakara fyrir smið, almenning fyrir syndir fjármagns- og fyrirtækjaeigenda.

Hér má sjá mengunarskatta 2012 til 2021 samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, færðir á verðlag dagsins. Athugið að mengunarskattar voru árið 2021 nánast þeir sömu að raunvirði og 2012. Það kemur kannski fólki á óvart, að aukin meðvitund almennings um loftlagsvá og mengun og æ fleiri orð stjórnmálafólks skuli ekki hafa hækkað skattlagninguna.

Fyrir utan mengunarskatta er ábyrgðinni af endurvinnslu velt yfir á heimilin. Þau eiga að bera kostnaðinn með sköttum og gjöldum og sinna einnig flokkunarstarfi á heimilum sínum til að draga úr skaðanum af framleiðslu fyrirtækjanna. Í þessu umhverfi hafa fyrirtækin ekki dregið úr skaðsemi umbúða og annarrar framleiðslu, heldur þvert á móti aukið á vandann með flóknari umbúðum sem erfiðara er að endurnýta, eins og komið hefur fram í fernu-hneyksli Sorpu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí