Á morgun mun alríkiskosningadómstóll (TSE – Tribunal Superior Eleitoral) Brasilíu byrja réttarhöld yfir fyrrverandi forseta landsins, Jair Bolsonaro, fyrir valdníðslu. Ef hann er sakfelldur mun hann ekki geta boðið fram í nein embætti í átta ár.
Lögsóknin beinist að herferð Bolsonaro gegn kosningakerfinu og ýmsum stofnunum sem varði í tvö ár upp að kosningum 2022. Hann hélt því ákaft fram að kosningakerfið væri spillt og að svindl yrði stundað til að tryggja mótframbjóðenda hans og núverandi forseta, Lula da Silva, kosningarnar.
Saksóknararnir taka fram að fyrrverandi forsetinn kallaði til fundar erlenda erindreka 18. Júlí 2022, þar sem hann fór fram á það að þeir tækju undir með honum í gagnrýni sinni á kosningakerfið. Fundinum var streymt í ríkissjónvarpi landsins, að tilskipun fyrrverandi forsetans, þar sem hann reyndi að sannfæra erindrekana og þjóðina um það að embættismenn kosningakerfisins myndu svindla í gegnum kosningavélarnar. Þær vélar hafa verið notaðar í Brasilíu síðan 1996 og aldrei hafa komið upp alvarlegir gallar á því.
Bolsonaro sagður hafa hvatt til ofbeldis
Bolsonaro er sakaður um valdníðslu og að hafa misbeitt ríkismiðlinum. Nokkrum dögum áður en Lula tók við embætti fór Bolsonaro úr landi og til Flórída án þess að viðurkenna sigur Lula. Þaðan hvatti hann stuðningsfólk sitt til að berjast gegn löglega kjörnum forsetanum. Þann 8. janúar 2023 fóru þúsundir stuðningsmanna hans og gerðu árásir á helstu stofnanir Brasilíu.
Bolsonaro á yfir höfði sér nokkrar málsóknir. Meðal annars fyrir það að draga úr réttmæti opinberra stofnana án sannana og fyrir það að hvetja til ofbeldis þann 8. janúar, nokkrum dögum eftir að Lula da Silva hafði tekið við sem forseti.