Háskólabíó syrgt

Nýlega var tilkynnt um að hætt verði rekstri kvikmyndahúss í Háskólabíó. Þar með líkur um 60 ára gamalli sögu kvikmyndasýninga í þessu húsi, sem á sér stóran hug í hjarta margra af viðbrögðunum að dæma.

Kvikmyndahús eiga auðvitað undir miklu höggi að sækja í dag. Háskólabíó er ekki eina sögufræga kvikmyndahús landsins sem hættir rekstri. Má þar til dæmis nefna Borgarbíó á Akureyri, sem var eitt elsta kvikmyndahús landsins, og hætti einnig rekstri á síðasta ári.

Margir hafa deilt tilfinningum sínum um þessi tíðindi síðustu daga á samfélagsmiðlum. Hér er tekið saman nokkur dæmi: 

Hér er til dæmis Egill Helgason:

Upphafið að ást minni á kvikmyndum var Háskólabíó. Þessi stórfenglega bygging reis upp úr melunum innan um skólana sem ég gekk í: Hagaborg, Melaskóla, Hagaskóla. Ég hef varla verið nema svona sjö ára þegar ég fór að venja komur mínar í Háskólabíó. Best fannst mér að fara einn á fimmsýningar og eiga næstum allan salinn. Það voru alls konar myndir í boði og ekki allar frábærar (Carry On!) – en ég man líka eftir aukamyndunum sem voru á undan sjálfri bíósýningunni. Þær komu frá Bretlandi og sýndu yfirleitt drottningarmóðurina opna blómasýningar. Ég er náttúrlega að tala um stóra salinn í Háskólabíói – hann er alltaf jafn tilkomumikill með sínu risastóra tjaldi. Seinna var reist nýbygging við Háskólabíó. Hún er eiginlega ekki verðug þess að standa við hlið gamla hússins og bíósalirnir sem þar eru bjóða ekki upp á mikil þægindi eða sýningargæði. Því er skilanlegt að hætt sé að sýna bíó þarna vesturfrá, aðsóknin hefur jú minnkað mikið.  En hið gamla Háskólabíó lifir í minningunni sem glæsilegasti kvikmyndasalur landsins og þótt víðar væri leitað. Ævintýrahöll – og einhver magnaðasta bygging á Íslandi.  

Illugi Jökulsson, rithöfundur:

Í fyrsta sinn sem ég fór í bíó fór ég í Háskólabíó. Ég fór með afa Kristjóni og hef ábyggilega verið mjög ungur. Við afi sáum svarthvíta grínmynd á þrjúbíó og ég man tvö atriði úr myndinni — annars vegar komu tugir manna út úr einum bíl og ég velti því fyrir mér í mörg ár hvort þeir hefðu allir verið inni í bílnum eða hvernig þetta hefði annars verið gert. Ég man að ég spurði afa en hann vildi ekki upplýsa mig um þetta. Kannski hefur hann verið farinn að dotta yfir myndinni.

Hitt atriðið snerist um að brjóstmynd af einhverjum kalli reyndist skyndilega vera úr svo mjúkum leir að einhver gat breytt andlitsdráttunum, og gerði það snarlega, en ekki man ég af hverju. Ég sé bæði þessi atriði ennþá fyrir mér, örstuttar, svarthvítar höktandi myndir, nánast eins og gömul súper 8 þótt þetta hafi verið risatjaldið í Háskólabíói.

— Síðan á ég ótal ógleymanlegar minningar úr Háskólabíói, alveg óteljandi reyndar, en allra eftirminnilegastar eru „mánudagsmyndirnar“ en í mörg ár sýndi bíóið listrænar og „öðruvísi“ myndir á mánudögum og þar sá maður fullt af skrýtnum myndum og sannkölluð listaverk inn á milli. Mánudagsmyndirnar gerðu mig að þroskaðri og hæfari bíógesti en ella, og mér finnst það tómur drulluaumingjaskapur hjá bíóstjórum nútímans að geta ekki sýnt okkur stöku sinnum eitthvað annað en ofurhetjuflóðið sem virðist nú einrátt í kvikmyndahúsunum.

Ofurhetjurnar munu ekki bjarga bíóhúsunum, heldur fólk sem hefur lært að horfa á allskonar myndir og verður háð því eins og ég var í mörg ár sitjandi alltaf aftarlega vinstra megin í Háskólabíói. Farvel Háskólabíó og allar þær minningar sem ég þaðan á um galdra, spennu, ótta, ofboð, sorg og fegurð.

Ásgrímur Sverrisson, kvikmyndagerðamaður og fræðingur:

Jæja. Hverjar eru þínar minningar? Fyrsta bíóminningin mín úr Háskólabíói er frá 1974. Ég var tíu ára og fór með yngri bræður mína í strætó úr Hafnarfirði að sjá endursýnda The Sound of Music. Okkur þótti þetta nokkuð sport að fara einir í slíka langferð og myndin var stórfengleg.

Síðan ótalmargt – dettur nú í hug King Kong ca 1978 og röð langleiðina að Suðurgötu, íslensku myndirnar á fyrstu Kvikmyndahátíð Listahátíðar sama ár – Bóndi eftir Þorstein Jónsson, Ern eftir aldri og 240 fiskar fyrir kú eftir Magnús Jónsson, Gegnum gras yfir sand eftir Þorstein Úlfar Björnsson.  Grease og Superman ca. ári síðar og svo Brennu-Njáls saga eftir Friðrik Þór 1980.

Cinema Paradiso 1990 með Gísla Snæ og um okkur hríslaðist hinn sæli harmur, Fargo 1996, Crouching Tiger, Hidden Dragon 2000, Dancer in the Dark 2000 – fátt í salnum og í lokasenunni þegar aftakan fer fram mátti heyra ekkasog hér og þar í þögninni rétt áður en…  Þá reiddist ég Lars von Trier, vegna þess að kjarninn í bíóupplifuninni er ekki aðeins hin sameiginlega altarisganga með fólkinu sem horfir með þér – eins og í kirkju – heldur um leið þitt prívatsamband við kvikmyndina/guð.

Teiknimyndin Sinbad: Legend of the Seven Seas 2003 með Erna Sóley, þá 3ja ára (hún vann síðar í miðasölunni og sjoppunni um tíma).

Fjöldi frumsýninga íslenskra kvikmynda (sá stóri er enn besti frumsýningarsalurinn) – þar á meðal mín eigin mynd, Reykjavík, 2016. Sýndi líka þarna útskriftarmyndina mína frá National Film and TV  School, Ferðina að miðju jarðar, 1994. Og þarna kynnti ég á svið og stýrði Q&A með leikstjórunum Niels Arden Oplev og Atom Egoyan.

Frumsýningar íslenskra kvikmynda verða áfram í stóra salnum held ég og sem betur fer, nú tíðkast stundum að frumsýna í mörgum sölum í öðrum bíóum og það er ekki góð stemmning, þetta snýst um sameiginlega upplifun.

En lengi hefur verið ljóst í hvað stefndi, af einhverjum ástæðum hefur aðsóknin í Háskólabíó verið dræm. En góðu fréttirnar eru þær að bíóaðsókn er að ná sér upp og komin fast að 90% miðað við 2019, eftir að hafa farið niður í um 40% í faraldrinum. Og hlutur íslenskra mynda er sem stendur hærri en nokkru sinni fyrr, eða rúm 20% af heildaraðsókninni í ár.

Ég minnist líka sýningarmannanna í bíóinu, þeirra herramanna Friðjóns Guðmundssonar og Guðjóns Baldurssonar – og auðvitað bíóstjórans Friðberts Pálssonar.

Sérkapítuli er svo tíminn í kringum 1985 þegar Kári Eiríksson réði ríkjum í myndbandadeildinni á tíma Friðberts og sagði vídeómógúlum um land allt að keyra toppinn af þessu og hafa svo samband um hæl. Eitt sinn var ég í heimsókn hjá honum í kjallara bíósins um hádegisbil þegar hann dregur mig upp í stóra sal þar sem verið var að prufukeyra Nostalgiu Tarkovskys – að meistaranum sjálfum viðstöddum, Vigdísi forseta, Thor Vilhjálms og fleirum. Þau sátu öll á fremsta bekk þegar myndin byrjaði, við Kári settumst í sætaröð við anddyrið. Aðrir voru ekki í salnum. Myndin hófst og það var þoka. Lengi. Mjög lengi. Líklega hátt í tíu mínútur. Svo kom Volkswagen inn í rammann og staðnæmdist. Fólk steig út úr bílnum og gekk inn í þokuna. Við Kári litum hvor á annan, stóðum upp og gengum út. Sá myndina nokkrum árum síðar. Algert pípandi masterpís.

Ásgeir H. Ingólfsson, menningarblaðamaður:

Það er ömurlegt að Háskólabíó sé að hætta en gaman að sjá minningar úr Háskólabíó, verst er hins vegar allt hjalið um að allt streymi að einum ósi, þetta sé bara hinn óstöðvandi straumur tímans sem ekkert fái við ráðið. Það er eintómt kjaftæði, það er vel hægt að reka bíó á borð við Háskólabíó með myndarbrag, vandinn er bara að íslensku keðjubíóin hafa verið svo skelfilega óheppin með kúltúrsnauða bisnessmenn síðustu árin að það er rannsóknarefni hvar þessir strumpar fundust allir.

Jú, vissulega eiga bíóhúsin undir högg að sækja sums staðar, en þau blómstra líka víða. Hérna í Prag hefur bíóhúsum í miðbænum fjölgað á síðustu árum og um helgina var ég í Poznan þar sem er ekki þverfótað fyrir gullfallegum bíóhúsum.

Þetta er bara spurning um að hafa trú á bíóinu, þykja vænt um bíóið og muna að kúltúrinn í kringum bíóið á að vera skemmtilegur og hlýlegur og alvarlegur og lifandi, eins og Bíó Paradís hefur sýnt fram á með stæl. Þið munið kannski þegar Regnboginn hætti og menn töldu fullreynt að fá Íslendinga til að horfa á listrænt bíó? En svo var bara látið reyna á þetta, settur smá metnaður í prójektið – og hvað haldið þið? Þetta virkar. Auðvitað virkar þetta. Það er bara andlega steindautt fólk sem fílar ekki að fara í gott bíó – en hins vegar er jafn skiljanlegt að fólk nenni ekki í plast- og steypklumpa síðkapítalismans sem snúast bara um innantóma sölumennsku.

Auðvitað er landslagið gerbreytt, með streymi og því öllu saman – en það þýðir fyrst og fremst eitt: bíóin eiga ekki séns ef þau halda að þetta snúist bara um stóra skjái og einhver blætiskennd mynd- og hljóðgæði. Þau eiga bara séns ef þau fatta að þetta snýst um að húsnæðið sé passlega notalegt, að það bjóði upp á að hitta fólk fyrir og eftir sýningu, sé samkomuhús jafnt sem bíóhús. Ef bíóhús er bara afgreiðslukassi til að horfa á nýjustu mynd og hypja þig aftur heim, þá er auðvitað alveg eins gott að horfa á myndina heima.

Sigríður Pétursdóttir, kvikmyndafræðingur:

Miður mín yfir fréttunum af Háskólabíói 😢 Margar mínar bestu minningar eru þaðan. Frumsýningar á íslenskum myndum áratugum saman, kvikmyndahátíðir, og ótal kvikmyndir sem áttu eftir að verða sígildar 📽️

Besta minningin er þó fyrsta bíóferðin hans Alexanders míns. Við sáum Steinaldarmennina 1994 og eins og sjá má var hann í skýjunum 🥰

Hilmar Þór Björnsson vitnar í Sigurð Páls:

Nú á að loka Háskólabíoi, “drottningu kvikmymdahúsanna”

Þegar fréttir bárust um að nú ætti að loka Háskólabíoi mundi ég eftir ræðu sem hið kunna skáld Sigurður Pálsson hélt við skólaslit MR þann 26. mai árið 2017 þegar 50 ár voru liðin frá því að hann lauk námi við skólanum. Ég birti hana í heild sinni í bloggi mínu fjórum dögum síðar með leyfi höfundar.

Og nú birti ég þann hluta ræðunnar þar sem fjallar einmitt um Háskólabió á einstaklega minnistæðan hátt.

+++

„Það eru fimmtíu og fimm ár frá því að ég kom í fyrsta skipti inn í þennan sal, ég gleymi því ekki. Ég var nýkominn til Reykjavíkur, sat í landsprófsdeild Hagaskóla hér í nágrenninu, kom hingað minnir mig á kynningu sem Sinfóníuhljómsveitin var með fyrir skólafólk. En þessi salur, ég hafði hreinlega aldrei séð annað eins, hafði aldrei komið í rými þar sem var svona hátt til lofts. Og vítt til veggja. Og hlutföllin rétt og blátt klæði á sætunum, undarlegur og nútímalegur gúmmidúkur á gólfinu. Þessi frumskynjun á salnum í Háskólabíói tók sér bólfestu einhvers staðar innst í huganum og hefur ekki vikið þaðan síðan.

Stóri salurinn í Háskólabíói þar sem við erum núna, hann getur kennt okkur ýmislegt. Þetta hús er ekki lítilla sanda, lítilla sæva. Maður finnur að arkítektarnir höfðu ekki asklok fyrir himin. Hugsið ykkur þennan sal, þessa byggingu þegar hún var ekki annað en teikning á blaði. Og hugsum okkur enn lengra aftur á bak, þegar þessi bygging var ekki annað en hugmynd í höfði arkítektanna. Þá var mikils virði að hlusta á innri röddina, hún leiðbeinir. Hún predikar ekki, hún kennir. Þessi bygging er stór í sniðum af því að hún er stór í hugsun.

Þórarinn Þórarinsson:

Hneit þar! Háskólabíó að hætta að vera bíó!!!

Hvaða öfugsnúna sturlun er þetta eiginlega? Blóðið sem rennur um æðar mínar er í flokki 107 þannig að sú tilkomumikla bygging sem hýsir Háskólabíó hefur eðlilega verið kvikmyndahús lífs míns og þar var grunnurinn að bíóuppeldi mínu lagður og í því kvikmyndahúsi líður mér enn alltaf best. Það er að segja þangað til um mánaðamótin.

Minningarnar úr Háskólabíói eru margar og ljúfar og tengjast margar tíðum bíóferðum með afa þar sem við röltum af Hofsvallagötunni yfir í Háskólabíó og mér fannst auðvitað nánast yfirnáttúrlegt að þegar maður fór með afa í bíó þurfti aldrei að borga. Hann lyfti bara hattinum og dyravörðurinn kinkaði ábúðarfullur kolli og við skunduðum inn.

Afi var vitaskuld þekktur fimmbíókall og skrapp stundum í bíó bara til þess að slappa af og átti það til, sérstaklega á meðan hann var á þingi, að fara út í hléi og klára myndina síðar í betra tómi.

Þá er auðvitað ógleymanlegt þegar ég fór, tæplega átta ára, á kvöldsýningu á Grease með mömmu (pabbi nennti ekki að sjá myndina) bara til þess að sjá treilerinn úr Superman.

Síðar það sama ár varð fallegasta Háskólabíó minningin mín til þegar pabbi og mamma skiptust á að hlýja sér í bílnum og standa í kuldanum í miðasölubiðröðinni á Superman sem náði lengst út á Suðurgötu.

Finn enn í hjartanu þegar ég rifja þetta upp hversu sterkt ég fann hvað foreldrum mínum þótti vænt um mig og tóku bíóuppeldishlutverk sitt alvarlega með því að leggja þetta á sig fyrir mig fyrstu sýningarhelgina.

Við systkinin lærðum líka að varast dverginn og fengum albínóafóbíu þegar ma og pa fóru með okkur á Foul Play fyrir margt löngu og síðan sá maður auðvitað Ránið á týndu örkinni, eina allra bestu kvikmynd sem gerð hefur verið, þrisvar sinnum með stuttu millibili í Háskólabíói.

Mörgum árum síðar upplifði ég svo eitthvert stórkostlegasta móment mitt sem foreldri og nörd þegar við, stelpan sem ég sá Footloose með í Háskólabíói í 80´s-inu, fórum með frumburðinn okkar sex ára að sjá Star Wars Special Edition í stóra salnum. Þá fékk ég bæði gæsahúð og fór að gráta undir opening crawlinu þegar ég fékk að vera barn við hliðina á barninu mínu.

Og svona mætti lengi telja. Háskólabíó er bíóhöll minninga minna og þar sáum við strákarnir Terminator, Robocop, The Untouchables og Shirley Valentine að ógleymdri Fatal Attraction á ellefu sýningu sem dróst töluvert fram á nóttina vegna þess að rafmagnið fór í miðri mynd þannig að í minningunni standa kanínan í pastapottinum og biðin eftir rafmagninu frammi í anddyrinu upp úr í minningunni.

Ég elska Háskólabíó og er harmi sleginn.

Háskólabíó mun lifa í Íslandssögunni

Að lokum má nefna að Háskólabíó mun ekki einungis lifa í hjörtum Íslendinga kvikmyndanna vegna. Það mun auðvitað lifa á spjöldum Íslandssögunnar vegna margra merkilegra atburða sem þar áttu sér stað. Má þar nefna þegar handritin komu heim frá Danmörku, þá voru þau afhent í sal Háskólabíó. Háskólabíó var einnig heimili Sinfóníuhljómsveitarinnar áratugum saman. Haldnir hafa verið þar tónleikar af alls konar goðsögnum í tónlist, til dæmis ekki minni manni en Louis Armstrong. SÁÁ var stofnað í Háskólabíó. Þjóðfundurinn eftir hrunið, þar sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði ekki „þið eruð ekki þjóðin“, o.fl.

Svo ekki sé gleymt neðangreindum atburði líka.

Háskólabíó, almennt talið vera versta bíó landsins samkvæmt könnunum, mun allavega, þegar allt kemur til alls, lifa áfram í hjörtum landsmanna.

.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí