Íbúar í Reykjanesbæ virðast ætla að fjölmenna við hús Jakub Polkowski á föstudaginn. Þá hyggst Ásdís Ármannsdóttir, sýslumaður á Suðurnesjum, bera hann út. RÚV greindi frá því í kvöldfréttum í gær að hús hans, sem er metið á 57 milljónir króna, hafi verið selt á nauðungaruppboði á þrjár milljónir vegna vanskila á húsnæðisgjöldum. Jakub er nú allslaus og líkt og fyrr segir hyggst Ásdís bera hann út á föstudaginn.
Mikil reiði er meðal almennings vegna málsins og eru langflestir sammála um að þessi framganga Ásdísar í málinu sé níðingsleg. Innan Facebook-hóps íbúa í Reykjanesbæ hafa margir tekið vel í að mótmæla þessum gjörningi. Þar skrifar Ólafur nokkur:
„Hvernig væri að bæjarbúar sýndu stuðning í verki og mættu á föstudagsmorgun klukkan 9 þegar útburðurinn verður skv. sýslumanni. Þetta væri það minnsta sem hægt væri að geta og öll að taka myndir af þessum verknaði. Útburðurinn verður kl 9 á föstudaginn, takið frá stund til að sýna þeim stuðning.“
Hann bætir svo við í athugasemd: „Takið eftir!!! Útburðurinn var klukkan 9 á föstudagsmorgun. Ég fór til þeirra og þau eru öll í miklu ójafnvægi og skilja ekki hvernig stóð á því að enginn benti þeim á hvernig staðan væri fyrir uppboð. Það eru margir í pólska samfélaginu tilbúnir að greiða skuldina og hjálpa þeim. Mætum sem flest til að sýna þeim stuðning og koma í veg fyrir útburð. Það er lögfræðingur að reyna að aðstoða hvernig sem það er hægt. En hreinlegast væri ef sá sem fékk húsið á nauðungarsölunni taki sig saman í andlitinu og hætti við kaupin. Munið að mæta og sýnum þeim stuðning gegn þessu óréttlæti.“
Líkt og fyrr segir þá taka margir undir með Ólafi og stefna á að mæta á föstudaginn. „Það ætti bara að bera sýslumanninn út úr húsi,“ skrifar einn maður. Annar maður hugsar það sama og skrifar: „Ef sýslumaður hefur ekki sóma í sér eða af sér þá er spurning um að bara bera hana út.“
Aðrir skora á útgerðarmanninn sem keypti húsið að sjá að sér, og hætta við kaupin. „Ég veit ekki hvort útgerðarmaðurinn sem keypti eign öryrkjans í Keflavík les þetta eða ekki. En ef einhver þekkir til hans viltu koma því til hans að ég skora á hann að afhenda eignina aftur til öryrkjans og ég mun safna fjármagni til að borga honum það sem hann fékk á henni. Þessi maður keypti eignina löglega og ekkert við hann að sakast, en ég biðla til samfélagslegrar skyldu hans að standa með þeim sem minna mega sín,“ skrifar Gaui M. Þorsteinsson en færslu hans hefur verið deilt tæplega 800 sinnum.