Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður ákallar íslensk stjórnvöld á Facebook og biður þau um að koma Julian Assange til bjargar. Assange hefur verið lokaður inni í Belmarsh fangelsinu í London um nokkurra ára skeið. Þar áður var hann í stofufangelsi í sendiráði Ekvador. Frá árinu 2012 hefur blaðamaðurinn ekki getað um frjálst höfuð strokið.
Illugi segir að það skjóti skökku við að íslensk stjórnvöld berjist fyrir mannréttindum í löndum fjarri okkur, meðan mannréttindabrot í nágrannalöndum eru hundsuð. „Er nú ekki kominn tími til að íslensk stjórnvöld taki á sig rögg og veiti þessum manni liðsinni til að koma í veg fyrir að hann hverfi inn í öryggisfangelsi í Bandaríkjunum fyrir að hafa átt þátt í að upplýsa um glæpsamlegt athæfi Bandaríkjahers í Írak? ,“ spyr Illugi.
„Margt má segja um Assange en við eigum að hafa afdráttarlausa skoðun á því þegar dæma á mann í fangelsi fyrir að stunda blaðamennsku og veita okkur nauðsynlegar upplýsingar. Meðan við berjumst fyrir mannréttindum í öðrum plássum getum við ekki látið afskiptalaus í okkar nágrannahúsum þau mannréttindabrot sem Assange hefur þegar sætt og mun greinilega sæta áfram. Getiði eitthvað? Gerið þá eitthvað.“
Þó að stjórnvöld hafi ekki enn svarað Illuga þá er einn þingmaður, Helga Vala Helgadóttir, svarar kallinu. „Hann verður að óska eftir ríkisborgararétti – Alþingi getur ekki ætt af stað með slíkt án þess að beiðni komi um það,“ skrifar hún í athugasemd.