„Ég veit um einn Íslending sem lenti í þessari kvörn, að vera tekinn á grundvelli hryðjuverkalaga afsíðis við landganginn á flugvelli í London og þvingaður til að láta af hendi öll tæki sín og tól, þvingaður til að gefa upp lykilorð að þessum græjum ella ætti viðkomandi yfir höfði sér fangelsi. Viðkomandi vildi ekki að þetta kæmi fram, þannig að hræðslan og óttastjórnunin gagnvart þeim sem fara út fyrir ramma hins „löglega og leyfða“ er til staðar í þessum löndum í kringum okkur.“
Þetta segir Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, í viðtali við Rauða borðið. Kristinn segir að það nýja og uggvænlega þróun í ýmsum Vestrænum löndum að takmarka tjáningarfrelsi með svipuðum aðferðum og þeim sem þessi ónefndi íslenski maður varð fyrir í London. Þetta sé réttlætt með því að vísa í nýjasta stríðið hverju sinni: Stríðið gegn COVID, Stríðið gegn hryðjuverkum, Stríðið í Úkraínu og svo mætti lengi telja.
„Sannleikurinn er orðinn óvinur, ef hann er ekki hinn hentugi sannleikur. Það verður að búa til hinn hentuga veruleika, og veruleikatúlkun,“ segir Kristinn.
Viðtalið við hann má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan.