Við lauslega athugun á Netinu má ætla að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hafi keypt fyrir lögregluna um 400 skammbyssur, 400 hríðskotabyssur og mikinn fjölda skotfæra eftir fund Evrópuráðsins í Hörpu. Lögreglan og ráðuneytið neita að gefa upp hversu mikið var keypt, aðeins að 185 m.kr. hafi verið varið til vopnakaupa. Þetta er líklega veigamesta umbreyting löggæslunnar á Íslandi frá upphafi.
Lögreglan gefur engar eða villandi upplýsingar
Eins og vitað er, keypti ríkislögreglustjóri nýlega skotvopn fyrir 185 milljónir króna, í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins. Þar er aðallega um að ræða Glock skammbyssur og MP5 hálfsjálfvirkar byssur, samkvæmt tilkynningu Ríkislögreglustjóra, sjá hér: Búnaður lögreglu á leiðtogafundi.
Athyglisvert er að sérstaklega er tekið fram að ekki sé um hríðskotabyssur að ræða. „Þar er helst um að ræða Glock-skammbyssur og MP5-byssur. Hér er ekki um að ræða hríðskotabyssur.“
Neðar í tilkynningunni, þá eru þessi kaup útskýrð aðeins nánar: „Keypt voru skotvopn og skotfæri vegna fundarins fyrir um 185 milljónir króna. Þar er helst um að ræða Glock G-17 9x19GEN5 NS 9mm skammbyssur og hálfsjálfvirkar 9mm MP5A5 og MP5KSF einskotsbyssur, þetta eru vopnin sem almennir lögreglumenn sáust með við öryggisgæslu á fundinum. Vekja má sérstaka athygli á því að MP vopnin falla í flokk hálfsjálfvirkra vopna en ekki sjálfvirkra, hér er því alls ekki um hríðskotabyssur að ræða enda hefur almenn lögregla ekkert við slík vopn að gera.“
Hér er aftur tekið fram að alls ekki sé um hríðskota byssur að ræða. Lögreglunni er greinilega mikið í mun að sannfæra okkur um að hún var ekki að kaupa neinar hríðskotabyssur, og myndi aldrei koma nálægt slíku. Við skulum skoða þetta nánar.
Hálfsjálfvirkar byssur er það sem kallað er semi-automatic á ensku. Það á sem sagt við um Glock skammbyssurnar. MP5 byssurnar eru hins vegar það sem kallað er sub-machine gun á ensku. Til aðgreiningar frá machine gun. Og hver er munurinn?
Hvað er hríðskotabyssa?
Hríðskotabyssan var fundin upp 1884 af Hiram Maxim sem var amerískur-enskur uppfinningamaður. Þótt að ýmsar útgáfur af byssum sem gátu skotið á miklum hraða væru til áður, eins og þær sem nefndust gatling gun og voru notaðar í ameríska borgarastríðinu, þá var það sem greindi uppfinningu Maxims frá öðrum gerðum er að byssan hönnuð á þann hátt að sá kraftur sem myndast við skotið er notað til að setja næstu kúlu í hylkið. Það er það sem átt við með sjálfvirkri byssu: krafturinn sem leysist úr læðingi við hvert skot er notaður til að hlaða hana aftur, og svo koll af kolli.
Vélbyssa Maxim notaði bakslagið sem kemur þegar skotið er af byssu, til að hlaða byssuna sjálfkrafa, og virka margar hríðskotabyssur þannig ennþá í dag. Sv o sem 50 kalíbera vélbyssan sem Bandaríkjaher notaði í seinni heimsstyrjöldinni og gerir enn í dag.
Sumar hríðskotabyssur nota hins vegar það sem kallað er blowback mekanisma, þá er gas sem sleppur við skotið notað til að keyra ferlið áfram sjálfkrafa.
Allar byssurnar sem lögreglan keypti, MP5A5, MP5KSF vélbyssurnar og Glock skammbyssurnar nota þennan mekanisma. Þær eru því sjálfvirkar í þeim skilningi að þú getur skotið þar til skotin eru búin – þarft ekki að hlaða hvert skot í hylkið eftir hvert skot.
Glock skammbyssurnar eru þó kallaðar hálf-sjálfvirkar, þar sem að þú þarft að taka í gikkinn í hvert skipti til að hleypa kúlu af. Því væri vissulega hægt að kalla þær einskotsbyssur.
Þetta er hins vegar eitthvað sem á ekki við um MP5 byssur, sem gerir þær að því sem kallað er hríðskotabyssur.
Með öðrum orðum þá var lögreglan var að kaupa hríðskotabyssur. Það er engum blöðum um það að fletta. Að hún reyni að halda öðru fram er einfaldlega lygi.
Báðar MP5 byssurnar sem hún keypti skjóta 800 hundruð skotum á mínútu. Með orðum orðum: hríðskotabyssa. Það er sem lögreglan reyni að komast upp með að segja að þetta séu ekki hríðskotabyssur af því að MP5 byssur eru kallaðar „sub-machine gun“ á ensku.
En munurinn á því sem kallað er sub-machine gun, eins og byssurnar sem lögreglan var að kaupa, og öðrum machine guns liggur aðallega í því að þær fyrri eru mun léttari, auðveldari í notkun, og skjóta ekki eins mörgum skotum á mínútu og stærri og þyngri útgáfur af vélbyssum. Munurinn liggur ekki í því að önnur gerðin sé hríðskotabyssa og hin ekki.
Til gamans má geta þess að allar byssurnar sem lögreglan keypti, einnig Glock skammbyssurnar, nota sömu skotfærin: 9x19mm Parabellum. Svo líklega hefur hún fengið góðan díl á skotfærum.
Hvað keypti lögreglan eiginlega margar hríðskotabyssur?
Nú er engin leið að vita hvaða verð lögreglan greiddi fyrir þessar hríðskotabyssum. En almennt verð á þessari tegund af Glock skammbyssu, í stykkjatali, er 425-450 dollarar eða 60-64 þús. kr. Ef við gerum ráð fyrir hæsta verði, á núverandi gengi, þá getur lögreglan keypt 2890 Glock skammbyssur fyrir 185 milljónir íslenskar.
Að sama skapi kosta hríðskotabyssur eins og lögreglan keypti 587 dollara útí búð í stykkjatali eða um 82.500 kr. Lögreglan gæti því keypt 2242 hríðskotabyssur fyrir 185 m.kr.
Box af 50 9x19mm Parabellum skotum kostar um 12,50-15 dollara eða um 1.750-2.100 kr. Fyrir 185 m.kr. mætti kaupa 4,4 milljónir skota.
Ef reynum að búa til pakka fyrir lögregluna og reiknum með 5 þúsund skotum fyrir hverja skammbyssu og vélbyssu og að keypt hafi verið jafn margar skammbyssur og vélbyssur, þá má ætla að fyrir 185 m.kr. sé hægt að kaupa 326 skammbyssur, 326 vélbyssur og tæplega 3,3 milljónir skotfæra. Hér er miðað við hæsta verð þegar einstaklingur kaupir byssur og skotfæri á netinu. Ætla má að lögreglan hafi fengið góðan magnafslátt. Ef við reiknum með 20% afslætti þá getur verið að pakkinn hljóði upp á yfir 400 skammbyssur og yfir 400 hríðskotabyssur. Starfandi lögreglumenn á Íslandi eru ríflega 650 og aldrei fleiri en helmingur þeirra á vakt hverju sinni.
Hér er um áætlun að ræða byggða á lauslegri könnun á verði skotvopna og skotfæra á netinu. Nauðsynlegt er að reyna að áætla magnið með þessum hætti þar sem dómsmálaráðuneytið og lögreglan svara engu til um magn. Og Alþingi eða aðrir eftirlitsaðilar hafa ekki krafið lögreglu og ráðuneytið svara.
Veigamikil breyting
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra er því að vopna lögregluna fyrir einhver meiriháttar átök, sem ekki hefur komið fram hver eru. Þessi kaup eru svo umfangsmikil að hætt er við að þau breyti eðli lögreglunnar eins og Helen Ólafsdóttir benti á í grein á Samstöðinni, Vopnavæðing lögreglu er neikvæð þróun, en Helen hefur unnið við uppbyggingu lögreglu á átakasvæðum og er Öryggisráðgjafi hjá Sameinuðu Þjóðunum.
Í vetur óskaði umboðsmaður Alþingis eftir upplýsingum um aðdraganda þess að Jón Gunnarsson keypti rafbyssur fyrir lögregluna án þess að taka það mál fyrir á ríkisstjórnarfundi. Umboðsmaður velti því upp hvort slík kaup væru svo mikilvæg stjórnarmálefni að taka ætti þau upp á fundum ríkisstjórnar. Rafbyssukaupin virka hins vegar smá í samanburði við nýjustu vopnakaup Jóns. Svo virðist sem hann hafi vopnvætt allt lögreglulið landsins með skammbyssum og hríðskotabyssum.