„Leigubremsa sú sem nú er lögð til hefði komið leigjendum til góða fyrir 10-15 árum, en í dag gerir hún ekkert annað en að hægja örlítið á hrapinu svo að leigjendum gefist ráðrúm til að virða fyrir sér óumflýjanlegan dauðdaga,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson í grein á Samstöðinni.
„Áttum okkur líka á því leigubremsa nær ekki til hækkana á húsaleigu við endurnýjun samninga sem er mikið stærra vandamál en hækkanir á samingstíma, sem leigubremsunni er ætlað að mæta. Leigusölum verður áfram í sjálfsvald sett að hækka húsaleigu um tugi prósenta á hverju ári algjörlega óháð eigin kostnaði. Með leigubremsu er því lögð blessun yfir miskunnarleysi leigumarkaðarins sem leigendur hafa þurft að þola og þeim tjáð að ekkert réttlæti eða leiðréttingu sé að finna fyrir þá,“ skrifar Guðmundur Hrafn.
Og spyr svo: „Hvað hafa leigjendur eiginlega gert af sér?“
Í greininni fer Guðmundur yfir stöðu leigjenda á undanförnum árum: „Fjölskyldur sem stóðu á brún hyldýpis hið örlagaríka ár 2008 var skipulega ýtt framaf og í frjálst fall til glötunnar á leigumarkaði. Í fallinu baða leigjendur út örmum sínum og fálma eftir börnunum, framtíðinni og voninni, öskra eftir hjálp og leita allra leiða til að draga úr hraðanum því botninn leynist í myrkrinu og hann veit á skjótann dauða. Angistaróp leigjenda hafa verið undirspil fundanna í stjórnarráðinu í einn og hálfan áratug og á einhvern óskiljanlegan hátt hefur það einungis aukið á forherðingu stjórnvalda og skeytingarleysi gagnvart þeim.
Heimilin sem höfðu verið athvarf þeirra og súrefni voru grimmilega hrifsuð af þeim. Að þeirri aðför stóðu Íbúðalánasjóður og stjórnvöld sem ríktu á eftirhrunsárunum. Eftir stutta leit af afdrifum þeirra er ljóst að mikil átveisla hefur staðið yfir hjá Íbúðalánasjóði strax árið 2009 en botninn tók úr við ríkisstjórnarskiptin 2013 og náði hamagangurinn þá nýjum hæðum. Fjárfestar og vildarvinir stjórnvalda fengu óheftan aðgang að heimilum fólks á gjafverði með lánum frá ríkinu og íslenskur leigumarkaður eins og við þekkjum hann varð til.“
Lesa má grein Guðmundar Hrafns hér: Blessað sé miskunnarleysið á leigumarkaði