Björn Ingi Hrafnssson, ritstjóri Viljans, er með sterk tengsl innan Framsóknarflokksins. Hann segir ljóst að Framsóknarkonan Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, muni krefjast þess að stjórn og helstu stjórnendur Íslandsbanka taki poka sinn.
„Eftir lestur hinnar ótrúlegu „sáttarskýrslu“ Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans í gær, blandast varla nokkrum hugur um að stjórn Íslandsbanka og helstu stjórnendur munu þurfa að axla ábyrgð og víkja til þess að einhver friður komist á í samfélaginu,“ skrifar Björn Ingi í pistli sem hann birtir á Viljanum.
Hann segir Lilju hafa verið samkvæma sjálfum sér hvað varðar gagnrýni á framkvæmd bankasölunnar. „Sama við hvern var rætt í gær, úr stjórn eða stjórnarandstöðu, stóð þetta upp úr hverjum manni. Og viðskiptaráðherrann Lilja D. Alfreðsdóttir setti beinlínis fram kröfu um slíkt. Hún hefur enda verið samkvæm sjálfri sér í gagnrýni á framkvæmd bankasölunnar allan tímann; líka fyrir ári síðan og voru þá ekki allir innan ríkisstjórnarinnar ánægðir með málflutning hennar,“ segir Björn Ingi.
Hann segir enn fremur að ómenningin í bankanum sé enn við lýði. Það hafi tilkynning frá bankanum á fimmtudaginn sýnt svart á hvítu. „Á aðeins nokkrum dögum hefur líka afhjúpast að sú fyrirtækjamenning (eða ómenning) sem lýst er í skýrslunni er enn við lýði í bankanum. Það sýnir sig best í tilkynningunni sem send var til Kauphallar á fimmtudag, þar sem sáttin var fyrst tilkynnt án þess að fara út í efnisatriðin. Þar átti bersýnilega að reyna að stýra umræðunni; stjórnendur myndu halda áfram, læra ætti af mistökum og sáttin væri þrátt fyrir allt nokkurs konar traustsyfirlýsing við bankastjórnina. Þegar skýrslan var svo birt í gær, kom í ljós að fimmtudagstilkynningin var ekki aðeins villandi, heldur beinlínis röng í aðalatriðum og aðeins misheppnuð tilraun til af afvegaleiða umræður um kjarna máls, enn og aftur. Það er eins og fólk kunni hreinlega ekki að skammast sín,“ segir Björn Ingi og bætir við:
„Þess vegna kvað við breyttan tón í yfirlýsingu bankans í gærkvöldi; þar var framganga bankans hörmuð og staðfest að hluthafafundur verði haldinn innan skamms. En þá var frumkvæðið ekki lengur í höndum bankans; hann var að bregðast við kröfum um breytingar.“