Mengunarvaldarnir setja sjálfir reglurnar

Kerfið í kringum endurvinnslu á Íslandi, hið svokallaða hringrásarhagkerfi, er í stuttu máli þannig að þeir sem steypa mengandi vörum á markaðinn eða hvolfa yfir hann umbúðum sem þarf að endurnýta, ákvarða að mestu sjálfir hvaða gjald er lagt á fyrirtækin vegna endurvinnslunnar. Sá sem mótar reglurnar og framkvæmdina er Úrvinnslusjóður og meirihluta stjórnar sjóðsins skipa fulltrúar þeirra fyrirtækja sem framleiða, dreifa og selja vörunar og umbúðirnar sem þarf að endurnýta.

Hlutverk Úrvinnslusjóðs er að sjá um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess. Sjóðurinn á að koma upp skilvirku fyrirkomulagi á úrvinnslu úrgangs með hagrænum hvötum. Og hann semur við framkvæmdaaðila um úrvinnslu úrgangs á grundvelli verksamninga, t.d. Sorpu eða Gámafélagið, sem síðan semja um aðra um endurvinnslu úrgangs.

Í fréttum undanfarin ár hafa komið mörg mál sem afhjúpa að þetta kerfi er ekki að virka. Samningar hafa verið gerðir við fyrirtæki um endurvinnslu sem síðan endurvinna ekkert. Í einu tilfelli safnaðist sorpið upp í vöruskemmum í Svíþjóð. Í öðru tilfelli var fernum brennt í Hollandi, þótt því hafi verið lofað að þær yrðu endurnýttar. Og svo framvegis.

Allt ber þetta með sér að Úrvinnslusjóður semur við þá sem bjóða lægst verð og spyr einskis. Það virðist vera sem allskyns lukkuriddarar geti mætt og lofað endurvinnslu, hirt peninginn en gert síðan eitthvað allt annað við sorpið. Í krafti þess að Úrvinnslusjóður sé ekki að leita að besti lausninni heldur þeirri ódýrustu. Og að ekkert eftirlit sé byggt inn í kerfið.

Getur það verið?

Fjárhæð úrvinnslugjalds tekur mið af áætlun um kostnað við úrvinnslu úrgangs eins og ætla má af þeim samningum sem Úrvinnslusjóður gerir. Ferlið er þá þannig að Úrvinnslusjóður gerir samninga um endurvinnslu og ákvarðar svo gjald á innflutning eða framleiðslu til að fjármagna endurvinnsluna samkvæmt gerðum samningum. Því lægra verð sem Úrvinnslusjóður greiðir, t.d. einhverjum sem ætlar ekki að endurvinna neitt heldur aðeins að safna upp sorpi í vöruhúsi út í sveit í Svíþjóð, því lægra verður gjaldið sem lagt er á innflytendur og framleiðendur. Og ef úrvinnslusjóður myndi vakna upp og sjá að ekki dugar að ganga til samninga við þá sem bjóða lægst og aldrei kanna hvað verður í reynd um úrganginn: heldur verði sjóðurinn að tryggja að sorpið sé sannarlega endurunnið og hafa eftirlit til að fylgja því eftir, þá er líklegt að verðið hækki. Auðvitað. Þeir sem ætla að endurvinna þurfa meira fé en sá sem ætlar að brenna eða fela. Og þá þarf sjóðurinn að borga hærra verð og síðan að hækka gjaldið á innflutning og framleiðslu.

En þá kemur upp vandi. Þótt formaður stjórnar Úrvinnslusjóðs sé skipaður af umhverfisráðherra og tveir meðstjórnendur hans samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga þá eru fjórir stjórnarmanna og þar með meirihluti stjórnar skipaðir af þessum hagsmunasamtökum: Einn samkvæmt tilnefningu Samtaka iðnaðarins, einn samkvæmt tilnefningu SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, einn samkvæmt tilnefningu Félags atvinnurekenda og einn samkvæmt tilnefningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Það er því innbyggt inn í kerfið að fyrirtækin sem framleiða eða flytja inn vörur og umbúðir sem þarf að endurnýja, hafa mest með það að gera hversu há gjöldin eru og hversu vönduð endurvinnslan er. Og reynslan af þessu kerfi er ekki góð. Endurvinnsla á Íslandi er helsta uppspretta hneykslismála í landinu. Og það er ekkert eftirlit með henni. Nema frá Bjartmari Oddi Þey Alexanderssyni blaðamanni sem afhjúpað hefur þessi hneyksli öll. Einn og óstuddur.

Í stjórn Úrvinnslusjóðs sitja Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, skipaður af ráðherra. Sambandi íslenskra sveitarfélaga skipaði Líf Magneudóttur borgarfulltrúa Vg og Eygerði Margrétardóttur, sérfræðing í umhverfis- og úrgangsmálum hjá SÍS. Frá Samtökum verslunar og þjónustu kemur Benedikt S. Benediktsson lögfræðingur samtakanna. Frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi kemur Hildur Hauksdóttir, sérfræðingur samtakanna í umhverfismálum. Frá Félagi atvinnurekenda kemur Guðný Hjaltadóttir lögfræðingur félagsins. Og frá Samtökum iðnaðarins kemur Lárus M.K. Ólafsson, viðskiptastjóri á framleiðslusviði samtakanna.

Meirihluti stjórnar er þannig millistjórnendur úr hagsmunasamtökum þeirra fyrirtækja sem greiða eiga gjald fyrir endurvinnslu. Fyrirtækin greiða því minna sem Úrvinnslusjóður semur ódýrar um endurvinnsluna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí