Mikil samstaða meðal félagsfólks

Verkalýðsmál 1. jún 2023

BSRB stóð fyrir baráttufundi í Bæjarbíói í Hafnarfirði í gær vegna kjaradeilu bandalagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga. Mikil baráttu- og samstöðuandi sveif yfir vötnum á fundinum. Kröfur félagsfólks eru m.a. að SÍS sýni starfsfólki sínu réttlæti og greiði sömu laun fyrir sömu störf.

Til máls tóku Magdalena Anna Reimus, starfsmaður á leikskóla, Aníta Ósk Georgsdóttir, stuðningsfulltrúi í grunnskóla og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Fundarstjóri var Þórarin Eyfjörð, formaður Sameykis.

Af hverju er ekki hægt að semja við okkur sem eru á lægstu laununum?
Magdalena Anna tók fyrst til máls. Hún er pólsk að uppruna og sagði á tímum heimsfaraldursins hafi starfsfólk fengið að heyra frá yfirvöldum hve mikilvægt það væri sem starfaði í grunnþjónustunni. Eftir að faraldrinum lauk hafi fólk verið orðið mjög þreytt og bugað – tankurinn tómur.


Magdalena Anna Reimus.

Ofan á slíkt álag hafi svo sveitarfélagögin ákveðið að mismuna starfsfólki sínu í launum. „Ofan á álagið og eftir kvillana af covid tímunum er svo verið að mismuna okkur í launum og við þurfum að vera í verkfalli. […] Þetta er ekki flókið. Fyrsta skrefið er sömu laun fyrir sömu störf. Í samfélaginu eru verðhækkanir alls staðar,við þurfum að geta lifað og borgað af öllu því sem þarf að borga. Þeir „hátt settu“ í landinu hafa fengið launahækkanir. Af hverju er ekki hægt að semja við okkur sem erum á lægstu laununum?“ sagði Magdalena Anna.

Sár og reið að vera á lægri launum fyrir sama starf

Aníta Ósk sagði að að SÍS væri að mismuna starfsfólki sínu í launum sem ynnu svipuð eða sambærileg störf, oft á tíðum nákvmælega sömu störf hlið við hlið. Annar starfsmaðurinn væri á lægri launum en hinn og fengi minna útborgar. Það væri óásættanlegt að sumt starfsfólk þurfi að sætta sig við 25 prósent lægri laun en annað.


Aníta Ósk Georgsdóttir.

„Þannig er starfsfólki gert að horfa upp á það að vinnufélagi þeirra í nákvæmlega sömu vinnu fái launahækkun fjórum mánuðum fyrr. Þetta er starfsfólk í ómissandi störfum sem starfar í leikskólum, frístund, þjónustu fatlaða, grunnskólum og íþróttamiðstöðvum svo eitthvað sé nefnt. Það er mjög sárt að finna fyrir mismunun í starfi og það skapar slæman móral á vinnustaðnum. Maður er sár og reiður yfir því að manneskja í sama starfi og ég fær hærri laun. Þetta er bara alls ekki rétt né réttlátt,“ sagði Aníta Ósk.

„Án ykkar munu lífsgæðin skerðast“

Sonja Ýr sagði að þessi mismunun í launum snertir okkar besta fólk sem sinnir ómissandi störfum. Störfum sem í bókstaflegri merkingu halda nærsamfélagi okkar gangandi. Hún sagði að án starfskrafta þeirra sem nú eru í verkfalli komast foreldrar og aðstandendur ekki til vinnu, umhverfi allra yrði mun fátæklegra og lífsgæði myndu skerðast verulega ef ekki væri fyrir þessi störf sem félagsfólk BSRB sinnir.

„En kjarasamningsviðræður bera þess því miður stundum merki að snúast frekar um þær persónur sem sitja við borðið, í stað þess að einbeita sér að því hvað sé rétt að gera í ljósi þeirra risastóru hagsmuna sem samningarnir fjalla um. Sem er lífsviðurværi starfsfólks sveitarfélaganna. Það hvort að fólk nái endum saman og hvort launin endurspegli það verðmæti sem starfsfólkið skapar samfélaginu alla daga. Viðsemjendur okkar virðast stundum ekki skilja að ekki er um að ræða eintómar tölur í excel-skjali – heldur verið að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á lífsgæði og starfsánægju fólks.
Sú ákvörðun sveitarfélaga að fara í störukeppni við sitt eigið starfsfólk vegna sanngjarnra krafna þeirra, sýnir óbilgirni og þrjósku. Þar er ekki tekið tillit til þess að verkföll fela í sér miklu hærri fórnarkostnað fyrir samfélagið allt vegna skerðingar á grunnþjónustu.

Opinberir starfsmenn hafa í gegnum tíðina þurft að berjast af hörku fyrir kjörum sínum. Nú tökum við enn einn slaginn til að ná markmiðum okkar. Það er ekki staða sem við óskum okkur, en þegar það reynir á okkar sterkasta vopn, þá beitum við því. Í þeirri baráttu skiptir samstaðan og hugrekkið okkur öllu máli. Og því hef ég fundið fyrir sterkar en nokkru sinni fyrr. Ég finn líka vel fyrir því hér í þéttpökkuðum salnum, og veit að hún er líka á þeim fjölmörgum stöðum um landið allt þar sem félagar okkar hafa safnast saman eða eru að fylgjast með,“ sagði formaður BSRB að lokum.

Frétt af vef Sameykis.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí