Sameinuðu þjóðirnar hafa sett Rússland á svarta listann sinn vegna dráps á börnum í Úkraínu. Sendiherra Palestínu gagnrýnir þó að Ísrael sé ekki sett á sama lista þrátt fyrir að vera sekt um hið nákvæmlega sama.
Rússland var sett á listann vegna þess að mörg hundruðir barna hafa látist eða slasast alvarlega í stríðinu í Úkraínu. Alþjóðlegar hjálpastofnanir hafa þó ítrekað kallað eftir því að Ísrael sé sett á sama lista. Samkvæmt árlegri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um börn á stríðssvæðum voru 42 palestínsk börn drepin og 933 slösuðust alvarlega í árásum Ísrael í Palestínu á síðasta ári.
Á tímabilinu 2015-2022 hafa yfir 6.700 börn látist vegna árása Ísraela, samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Þrátt fyrir þetta þá hefur Ísrael aldrei verið sett á svarta listann.
Sendiherra Palestínu, Riyad Mansour, sagði ákvörðun aðalritara Sameinuðu þjóðanna Antonio Guterres um að setja Ísrael ekki á svarta listann vera stór mistök og gagnrýndi hana harðlega.
Mörg börn hafa látist í Úkraínu
Samkvæmt skýrslunni þá létust 477 börn í stríðinu í Úkraínu á síðasta ári. 136 af þeim létust beint vegna árása Rússa og hersveita þeim tengdum. Her Úkraínu ber beina ábyrgð á dauða 80 barna. Skýrslan gat ekki fullyrt með neinni vissu hvor aðilinn ber ábyrgð á dauða hinna 216 barnanna sem voru drepin. Börnin dóu að langmestu leyti vegna loftárása.
Skýrslan fordæmir einnig ofbeldi gagnvart börnum í Lýðveldinu Kongó, Sómalíu, Sýrlandi og Haítí.