Ný og harðorð skýrsla stærstu samtaka verkalýðsfélaga í Bretlandi (Trades Union Congress) sýnir svo ekki verður um villst hversu alvarlegar afleiðingar tíu ára niðurskurður breska íhaldsflokksins hafði fyrir getu heilbrigðiskerfisins til að takast á við Covid krísuna. Covid dró 226,989 manns til dauða í Bretland samkvæmt opinberum tölum. Samkvæmt skýrslunni, sem kynnt var í dag í samstarfi við baráttuhóp fjölskyldna sem fór illa útúr Covid, hefði krísan ekki þurft að vera svo mannskæð, ef ekki hefði verið fyrir þann mikla niðurskurð sem heilbrigðiskerfið þurfti að þola á áratugnum á undan – afleiðingar sem skýrslan lýsir sem tragískum.
Skýrslan dregur upp skýra mynd af því hvernig niðurskurðurinn hafði aðallega áhrif á fjórum sviðum: fjölda starfa hjá hinu opinbera, nauðsynleg tæki og tól sem heilbrigðisstarfsfólk þurfti, í velferðarkerfinu, ásamt öryggisráðstöfunum til verndar heilbrigðisstarfsfólks. Einnig er bent á hvernig hjúkrunarfræðingum fjölgaði um einungis 1% á tímabilinu 2010-2020, þrátt fyrir að þörfin hafi þrefaldast á sama tímabili. Til samanburðar er bent á tölur frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) sem sýna fram á að meðaltalið hjá 38 löndum þess er 10% fjölgun.
Skýrslan beinir einnig spjótum að launakjörum heilbrigðisstarfsfólks, en hjá meðalstarfsmanni breska heilbrigðiskerfisins (NHS) lækkaði raunvirði launa á tímabilinu um 3000 pund – sem hafði miklar og alvarlegar afleiðingar þegar kom að fjölgun starfsfólks. Í heild þá lækkuðu útgjöld ríkisins til heilbrigðiskerfins um 10%. Á sama tíma óx brottfall heilbrigðisstarfsfólks frá 22 prósentum árið 2012 uppí 31.8 prósent árið 2020 – og er það hlutfall mun hærra hjá þeim 24 prósenta starfsfólks sem ekki eru með fastan (e. zero-hour) starfssamning.
Það er þó ekki einungis heilbrigðiskerfið sem var veikt til muna á tímabilinu. Skýrslan ræðir einnig önnur svið samfélagsins, t.d. samgöngur, æðri menntun, húsnæðismál, umhverfismál, barnaumönnun, o.fl. sem einnig fóru illa útur niðurskurnarhnífnum. Niðurskurður í margs konar félagslegri aðstoð leiddi einnig til mikillar aukningar í fátækt, sem gerði þeim hópi mjög erfitt fyrir þegar kom að því að forðast vírusinn.
Skýrslan teiknar þannig upp mynd af mikilli veikingu undirstaðna samfélagsins á ólíkum sviðum sem hafði svo samhangandi áhrif, og gerði það að verkum að samfélagið var svona illa undir það búið að takast á við Covid. Kallar hún eftir því að þessar undirstöður verði byggðar upp að nýju, svo hægt verði að bregðast við framtíðarkrísum.
Niðurskurðar stjórnmálin
Í kjölfar fjármálakrísunnar haustið 2008 réðust flestar Evrópuþjóðir í miklan niðurskurð, í þeim tilgangi að stemma stigu við afleiðingum hennar. Bretland gekk einna lengst, og hefur verið mikið gagnrýnt af alþjóðastofnunum ásamt samtökum innanlands. En þessi niðurskurður á félagslega kerfinu hafði miklar
og alvarlegar afleiðingar – sem enn er verið að meta.