Umdeildur Jón út – nýliðinn Guðrún inn

Sagan af hinu margboðaða brottrekstri á Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra úr ríkisstjórn endaði loks á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í hádeginu. Bjarni Benediktsson formaður flokksins lagði til það sem hann hafði boðað við endurnýjun ríkisstjórnarinnar eftir kosningarnar haustið 2021, að Jón myndi aðeins sitja sem ráðherra í átján mánuði en Guðrún Hafsteinsdóttir þingmaður Sunnlendinga tæki við.

Bjarni hefur hins vegar hummað þetta fram af sér og það ýtti undir getsagnir um að eitthvað annað stæði til. Í hádeginu kom í ljós að svo var ekki, Bjarni virðist aðeins hafa verið að fresta hinu óumflýjanlega. Hann fann enga auðvelda leið út úr vandanum.

Jón Gunnarsson hefur verið umdeildur sem ráðherra, eins og Bjarni er sjálfur. Þeir hafa mælst viðlíka í könnunum, jafn fáir treysta þeim til starfa og jafnmargir treysta þeim ekki. Í nýjustu könnun Maskínu frá seinna hluta nóvember í fyrra treystu 21% Jóni og 23% Bjarna en 62% treystu ekki Bjarna og 59% Jóni. Þetta eru rosalegar tölur, að þrisvar sinnum fleiri treysti ráðherrum ekki en treysta þeim. Í flestum löndum myndi stjórnmálafólk í þessari stöðu ekki verið falin embætti og myndi segja af sér ef þeim hefði verið treyst til slíks.

Bjarni heldur stöðu sinni vegna þess að hans flokksfólk styður hann. Í könnuninni frá í nóvember sögðust 74% þeirra sem vildu kjósa Sjálfstæðisflokkinn treysta Bjarna á meðan hlutfall var aðeins 12% meðal kjósenda annarra flokka. Hjá Jóni var hlutfallið 53% hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins en 13% hjá kjósendum annarra flokka.

Því miður er ekki til yngri mæling en þetta, rúmlega hálfs árs gömul. Á þeim tíma hefur mátt merkja í umræðunni á samfélagsmiðlum meiri stuðning við Jón meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Jón hefur staðið fyrir breytingum í mörgum málum sem valda úlfúð, varðandi vopnaburð lögreglunnar, sölu á áfengi, réttindum flóttafólks og fleiru. Þetta eru mál sem magna upp andstöðu við ráðherra, en auka líka stuðning við þá.

Jón bitir þessa mynd af sér með aðstoðarmönnum sínum á Facebook, Ingvari Smára Birgissyni og Brynjari Níelssyni, í tilefni dagsins. Og þakkar fyrir sig:

„Það hefur ekki farið framhjá neinum að ýmislegt hefur gengið á hjá okkur í dómsmálaráðuneytinu,“ skrifar Jón. „Margir málaflokkar ráðuneytisins hafa staðið á tímamótum, þá sérstaklega útlendingamál og löggæsla, og hefur ýmsum framfaramálum verið ýmist lokið eða ýtt úr vör. Við höfum orðið varir við að þetta hefur verið erfiður tími fyrir þá sem eru ekki fylgjandi Sjálfstæðisflokknum í skoðunum. Auðvitað hefðum við kosið að geta fylgt eftir mikilvægum málum sem lagður hefur verið góður grunnur að, en svona er pólitíkin.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí