The Guardian afhjúpaði í gær að um 1500 starfsmenn hinna ýmsu samtaka, fyrirtækja og stofnana, sem gefa sig út fyrir að berjast fyrir umhverfismálum og gegn loftslagsbreytingum, séu í raun starfsmenn stórfyrirtækjanna sem framleiða jarðefniseldsneyti.
Um er að ræða starfsfólk í hinum ýmsu fyrirtækjum og samtökum, sem gefa sig út fyrir að berjast gegn loftslagsbreytingum og fyrir umhverfisvernd. Yfir 150 háskólar í Bandaríkjunum eru með starfsfólk á launaskrá, sem eru leynilega starfsfólk stórfyrirtækjanna sem um ræðir einnig, ásamt því að þessir „double-agents“, eins og þeim er lýst í frétt The Guardian, ná einnig til tæknirisanna eins og Google og Apple.
Gagnagrunnurinn yfir starfsfólkið sem um ræðir var tekinn saman og birtur opinberlega í gær, miðvikudag, af samtökum að nafni Fminus. En hann leiðir ýmislegt áhugavert í ljós.
Einhverjar stærstu borgir Bandaríkjanna, sem tekið hafa forystuna í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum með tilkynningum um róttækar aðgerðir, líkt og Chicago, Fíladelfía og Los Angeles, eru á sama tíma með á launaskrá talsmenn fyrirtækjanna sem þau segjast vera að berjast gegn. Samtök sem berjast fyrir umhverfisvernd, líkt og The Environmental Defense Fund og Natural Resources Defense Council Action Fund eru einnig með í vinnu hjá sér talsmenn, eða svokallaða lobbíista, sem vinna fyrir t.d. Exxon Mobil, BHP, og Calpine and Duke Energy, en þetta eru einhverjir stærstu framleiðendur jarðefniseldsneytis í heiminum.
Apple og Google eru með í vinnu hjá sér starfsfólk sem einnig vinnur fyrir Exxon og Koch industries – en það eru íhaldssöm áróðurssamtök Koch auðjöfrana. Tæknirisarnir hafa gefið út stórorðar yfirlýsingar um aðgerðir þeirra í umhverfismálum, en allar líkur eru á að þær yfirlýsingar hafi verið skrifaðar af starfsmönnum stórfyrirtækjana sem um ræðir.
Háskólar eins og ríkisháskólinn í Kaliforníu, háskólinn í Washington, John Hopkins háskólinn og háskólinn í Syracuse, sem allir hafa gefið stór loforð um að hætta samstarfi við stórfyrirtæki sem framleiða jarðefnaeldsneyti, eru á sama tíma með lobbíista þessara fyrirtækja á launaskrá hjá sér. Þeir eru einnig stórtækir í hinum ýmsu menningarstofnunum, en söfn frá Los Angeles til New York, ásamt meira að segja Sundance kvikmyndahátíðin í Utah, eru öll með lobbíista frá olíuframleiðslu fyrirtækjum í vinnu hjá sér.
Gagnagrunninn má sjá hér: Is your lobbyist failing on Climate?