Tilraunir Ron DeSantis fylkisstjóra Florida til að fá aftur vind í fallandi segl kosningabaráttu sinnar tekur á sig ýmsar skrítnar myndir. Ein birtist í auglýsingu stuðningsmanna hans þar sem Donald Trump var stillt upp sem stuðningsmanni hinsegin samfélagsins en DeSantis sem einskonar ímynda karlmennsku, andstæðri við allt sem var hinsegin eða kynsegin.
Herfræði DeSantis í forkosningum Repúblikana hefur verið að bjóða sig fram sem áframhald Trumpáranna, meira af Trumpisma en án Trumps. DeSantis hefur reynt egna upp menningarstríð að hætti Trump í þeirri von að kjósendur vilji einmitt það en séu búnir að fá nóg af Trump, öllum skandölunum, ákærunum, yfirvofandi fangelsisdómunum, ásökunum, hneykslum. DeSantis vill vera Trump en stjórntækur, eins og það kallast á Íslandi, eitthvað sem þorandi er að kjósa og fela stjórn landsins.
En þetta virðist hafa verið algjört feilskot. Það sem kjósendur Trump sjá við sinn mann er einmitt það að hann er ekki stjórntækur. Það er hluti af pakkanum. Fáir falla fyrir tilboði DeSantis sem hefur uppi allar skoðanir Trump en hegða sér innan allra settra reglna. Mögulega eru margir kjósendur Repúblikanaflokksins sem vilja ekki Trump. Hann nýtur nú stuðnings um helmings aðspurðra. En þeir sem vilja skoðanir hans og afstöðu vilja hann helst allra til að halda þeim á lofti.
Hugsanlega vill sá helmingur sem ekki segist styðja Trump eitthvað allt annað, aðra stefnu. En enginn frambjóðendanna hefur náð að róa á þau mið. Chris Christie, fyrrum fylkisstjóri New Jersey, hefur reynt fyrir sér með slíkt erindi en hann hefur aðeins um 2% fylgi í könnunum.
Þetta er þróun á fylgi frambjóðenda í forkosningum Repúblikana það sem af er ári eins og kannanir eru teknar saman af tölfræðivefnum fivethirtyeight:
Fyrstu kappræður frambjóðenda verða í næsta mánuði. Trump hefur ekki gefið upp hvort hann muni mæta. Ólíkt 2016 er hann ekki í dag sá sem sækir á heldur sá sem sótt er að. Vel má vera að hann meti það svo að hann hafi öllu að tapa en engu að vinna með því að mæta hinum frambjóðendunum.
En eins og staðan er í dag er Trump með yfirburðastöðu, nánast jafn öruggur með tilnefningu síns flokks eins og Joe Biden forseti er í Demókrataflokknum.