Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri Fyrirtækja og fjárfesta hjá Íslandsbanka, fylgir í fótspor Birnu Einarsdóttur, fyrrverandi bankastjóra Íslandsbanka, og tekur poka sinn. Í tilkynningu frá Íslandsbanka er hann sagður hafa „ákveðið að stíga til hliðar“. Líklega hefur honum ekki boðist annar valkostur þar sem hann var lykilmaður í bankasölunni, sem reyndist hneyksli og hefur verið hávær krafa um það hafi afleiðingar fyrir helstu gerendur. Birna sagði af sér í vikunni.
Ásmundur var sérstaklega gagnrýndur í skýrslu fjármálaeftirlits Seðlabankans. „Það eitt að framkvæmdastjóri Fyrirtækja og fjárfesta og forstöðumenn Fyrirtækjaráðgjafar og Verðbréfamiðlunar hafi ekki gert sérstakt áhættumat fyrir þetta verkefni getur varla talist sjálfstætt brot á verklagsreglum málsaðila eða þágildandi 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. fftl., þótt slíkt mat hefði getað gagnast enn frekar í undirbúningi verkefnisins og dregið úr áhættu,“ segir í skýrslunni.
Ásmundur óskaði þess í stað eftir fundi með Regluvörslu til að ræða mögulega þátttöku starfsmanna í útboðinu og tók sjálfur þátt í viðskiptunum. Þátttaka starfsmanna bankans átti að vera háð takmörkunum en fyrrnefndur regluvörður gat þrengt tímamörk eða bannað starfsmönnum að kaupa í bankanum. Líkt og fyrr segir setti Ásmundur sig sérstaklega í samband við regluvörð til að ræða kaup starfsmanna í bankanum. Fjármálaeftirlitið segir að þátttaka starfsmanna Íslandsbanka hafi skapað fjölmarga hagsmunaárekstra.
Hann er eiginmaður Önnu Lísu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra þingflokks Vinstri grænna, en líkt og Samstöðin greindi frá í vikunni þá keyptu þau bæði hluti í Íslandsbanka. Hún eftir að útboðinu lauk. Í tilkynningu Íslandsbanka til Fjármálaeftirlitsins um „viðskipti fjárhagslega tengds aðila“ var greint frá því að Anna Lísa væri fjárhagslega tengd fruminnherja, það er að segja eiginmanni hennar, Ásmundi.