Handfærasjómenn skildu eftir tugi kílóa af slori og þorskhausum við Alþingishúsið með skilaboðum sem mótmæla hækkandi kolefnisspori stórútgerðarinnar á meðan 700 smábátasjómönnum, sem stunda mun umhverfisvænni veiðar, er bannað að sækja sjóinn.

Í fésbókar þræði á hópnum „strandveiði og ufsa spjallið“ skrifar Magnús Guðbergsson, strandveiðimaður:
“Umhverfisvænni handfærasjómaður var handtekinn við Alþingishúsið þar sem hann var með gjörning, setti tugi kg á gangstétt af slori og þorskhausum og táknrænt skilti við á þessum tímum þar sem allt snýst um kolefnisspor, þar sem hann mótmælir áframhaldandi hækkandi kolefnisspori stórútgerðar á meðan 700 Umhverfisvænni smábátasjómenn og fyrirtæki þeirra voru stöðvuð af Matvælaráðherra þó svo að vitað sé að handfæraveiðar ógni ekki fiskistofnum né lífríki.
Það hefur verið blásið til sóknar og áframhaldandi mótmælum verður haldið áfram næstkomandi laugardag og hefjast kl 12 á hádegi. Þarna fara fram friðsöm mótmæli og með ívafi á skemmtiatriðum vonandi sjá sér allir fært að mæta og styðja við frjálsar strandveiðar sem eru fyrir alla þjóðina og komandi kynslóðir, og því tímabært að stöðva ránið sem gengur í erfðir í kauphallarbréfum á milli ættliða. Þjóðin á auðlindirnar. Og það er einfaldlega ekki í boði að nýta þær í braski fyrir örfáar fjölskyldur í landinu.
Vér mótmælum.
Við erum með málssóknarsjóð í Strandveiðifélaginu. Öllum frjálst að leggja inn. Við þurfum lögfræðiálit um hvaða leið er best að fara. Fyrir málssóknarsjóð félagsins eru bankaupplýsingar eftirfarandi: 586-14-1139
Kennitala Strandveiðifélagsins er 570522-0860.”
Mótmæla í hádeginu á laugardaginn
Landssamband strandveiðimanna ætlar ekki að taka stöðvuninni þegjandi og hafa boðað til mótmæla laugardaginn næsta klukkan 12 í Reykjavík. Þau munu ganga frá Hlemmi niður Laugarveginn og enda á Austurvelli þar sem KK mun taka nokkur lög þeim til stuðnings og Kristján Torfi og Trillukarlakórinn munu líka stíga á stokk.