Strandveiðar búnar og trillukarlar boða til mótmæla

Um 700 smábátum verður lagt á morgun, tveim mánuðum fyrr en áætlað var. Þann 6. júlí tilkynnti Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra að „ekki væri svigrúm til að bæta við veiðiheimildum til strandveiða“. Landssamband smábátaeigenda sendi frá sér áskorun í gær til Svandísar um að auka veiðiheimildir til strandveiða. Ráðherra Vinstri Grænna, frá þeim flokk sem hefur markaðssett sig sem flokk sem ætlaði að efla strandveiði og styrkja brotthættar byggðir landsins, hefur lúffað fyrir stórútgerðinni.

Landssamband strandveiðimanna ætlar ekki að taka stöðvuninni þegjandi og hafa boðað til mótmæla laugardaginn næsta klukkan 12 í Reykjavík. Þau munu ganga frá Hlemmi niður Laugarveginn og enda á Austurvelli þar sem KK mun taka nokkur lög þeim til stuðnings og Kristján Torfi og Trillukarlakórinn munu líka stíga á stokk.

Strandveiðar eru vistvænni veiðar en togaraveiðar

Óréttlátt kerfi

Landssamband strandveiðimanna og Landssamband smábátaeigenda hafa margsinnis bent á það hve lítil hlutdeild strandveiðimanna er í kvótakerfinu. Af heildarafla í íslenskri lögsögu eru ekki nema um 1 til 2% sótt í strandveiðum. Strandveiðifélagið bendir á það að þessar veiðar eru arðbærri, umhverfisvænni og félagslega réttlátari en veiðar á togurum. Í áskorun sinni til sjávarútvegsráðherra bendir Landssamband smábátaeigenda á það að strandveiðikerfið er eina kerfið þar sem einstaklingar geta reynt fyrir sér fiskveiðar í atvinnuskyni án þess að þurfa að kaupa eða leigja veiðiheimildir, sem eru bæði rándýrar og illfáanlegar. Þetta er því sagt mikið réttlætismál.

Þurfti að leita til mannréttindadómstólsins til þess að fá strandveiðar

Áður en strandveiðikerfinu var komið á í núverandi mynd þurftu smábátaeigendur að kaupa eða leigja kvóta af stærri aðilum sem höfðu fengið veiðiheimildum úthlutað. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hafði úrskurðað um það að kvótakerfinu hafði verið komið á með ranglátum hætti og framkvæmt á ósanngjarnan hátt og sumir sjómenn tóku málin í eigin hendur og réru út kvótalausir í mótmælaskyni.

Ásmundur Jóhannsson heitinn réri út frá Sandgerði án kvóta árið 2008 og sagði að kvótakerfið í heild sinni væri ólöglegt. Hann hótaði að fara með mál sitt alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu ef þyrfti: „Þetta er nátt­úr­lega brot á jafn­ræðis­reglu stjórn­ar­skrár­inn­ar, þetta er skerðing á at­vinnu­frelsi og þetta er senni­lega bara hreinn og klár þjófnaður“ sagði Ásmundur um kvótakerfið.

Ásmundur Jóhannsson er af mörgum talinn alþýðuhetja vegna baráttu hans við kvótkerfið. Hann dó árið 2010, strandveiðikerfinu var komið á ári fyrr.

Björgvin Guðmundsson, fyrrverandi borgarfulltrúi fyrir Alþýðuflokkinn, skrifaði grein á Vísi á þessum tíma þar sem hann hvatti landsmenn til að styðja mótmæli Ásmundar:

Búist er við að margir fylgi fordæmi sjómannsins frá Sandgerði og rói kvótalausir. Er búist við að hreyfing muni myndast og landsmenn rísi upp gegn hinu rangláta kerfi. Ég fagna því ef svo verður. Kvótakerfið var sett á með ranglátum hætti og framkvæmt á ósanngjarnan hátt samkvæmt úrskurði Mannréttindanefndar SÞ.

Kvótakerfið er mesta ranglæti Íslandssögunnar. Það er verið að úthluta tiltölulega fáum útvöldum fríum gæðum,sem þeir geta braskað með og selt fyrir milljarða króna. Margir hafa gengið út úr greininni með fullar hendur fjár enda þótt þeir hafi fengið gæðin frítt. Þetta eru mannréttindabrot. Það eiga allir þegnar að sitja við sama borð og það jafnrétti er stjórnarskrárvarið. Ég tel að þessi mismunun sé brot á stjórnarskránni.

Síðan þá var strandveiðikerfinu komið á árið 2009 en miklar hömlur eru settar á strandveiðifólk. Kerfið virkar þannig að að frá maí og fram út ágúst, má hver sjómaður róa 12 daga á mánuði, fyrir utan föstudaga, laugardaga, sunnudaga og rauða daga. Það má einungis landa tilteknu magni í hvert skipti og bátarnir mega bara hafa fjórar rúllur. Fleiri takmarkanir eru settar strandveiðifólki þannig að erfitt reynist að sjá fyrir sér með slíkum veiðum.

Í samtali við Samstöðina sagði Kjartan Sveinsson, formaður Landssambands strandveiðimanna, að kerfið hljómi eins og það sé sóknarmarkskerfi en sé í raun aflamarkskerfi, þar sem veiði er stoppuð af eftir að tilteknum aflarheimildum hefur verið náð. Aflaheimildirnar sem strandveiðikerfið fær eru ekki miklar og krafa landsambandanna beggja er að meiri aflaheimildum sé ráðstafað í kerfið.

Svandís stöðvar veiðar aftur

Tímabil strandveiða á að vera frá 1. maí til 31. ágúst en aflaheimildir kerfisins hafa iðulega klárast löngu áður en kemur að tímamörkunum. Þrátt fyrir ítrekuð kosningaloforð (og stefnu Vinstri Grænna), hefur sjávarútvegsráðherrann ekki úthlutað kerfinu auknar heimildir. Ráðherrann segist ekki hafa lagaheimild til þess en Landssamband smábátaeigenda bendir á í áskorun sinni til Svandísar að ákvæði um magn veiðiheimilda til byggðarkvóta séu ákveðnar í reglugerð.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí