Skattar á einstaklinga og fyrirtæki jukust mikið á nýfrjálshyggjuárunum, en aukin skattbyrði var fyrst og fremst lögð á lágtekju- og millitekjufólk. Tekjuhæsta tíundin greiddi í fyrra sama hlutfall tekna sinna í skatt og hún gerði fyrir 25 árum. Á síma tíma margfaldaðist skattprósenta lágtekjufólks og skatthlutfall millitekjufólks hækkaði umtalsvert.
Þessi þróun sést ágætlega á þessu súluriti þar sem bláa súlan er skatthlutfall tíundanna 1997 en sú rauða hlutfallið í fyrra. Þetta er nettó-skattur, það er skattlagning að frádregnum barna- og vaxtabótum.

Þarna sést að fyrir aldarfjórðungi greiddi fólk í tveimur neðstu tíundunum enga skatta, fékk þvert á móti greitt út úr skattkerfinu. Og þriðja tíundin borgaði sáralítið í skatt. Þetta hefur nú breyst, þessa þrjár neðstu tíundir borga nú miklu hærri skatta. Þriðja tíundin hefur farið úr 0,8% skatthlutfalli í 12,7%.
Skattahækkunin var mest hlutfallslega í þriðju tíund. Næst koma næstu þrjár tíundir þar fyrir ofan, fólk með lægri meðaltekjur og upp yfir meðallaun. Þetta er fólkið sem fjármagnaði aukin ríkisumsvif á nýfrjálshyggjutímanum. En ekki bara aukin umsvif heldur líka skattalækkanir til fyrirtækja, lækkun á tollum og annað sem gert var til að bæta stöðu fjármagns- og fyrirtækjaeigenda.
Við getum séð á þessu súluriti hvernig aukin skattheimta lítur út í krónum talið. Þetta er aukning eftir tíundum, meðaltalsaukning á mann miðað við ef skatthlutfallið hefði verið það sama og í fyrra:

Þarna sést að í upphæðum talið hefur millitekjufólk lagt mest til, en í raun meginþorri launafólks. Nema þau sem hafa mestu tekjurnar. Þau hafa ekkert lagt til. Annað fólk hefur borgað fyrir aukin umsvif hins opinbera og skattalækkanir fyrirtækja. Þau hin ríku láta enn eins og það sé enn árið 1997 á meðan aðrir bera fyrir þau byrðarnar.
Það má líka sýna breytinguna í töflu:
Tíund | Laun í fyrra | Skatthlutfall 1997 | Skatthlutfall 2022 | Breyting |
---|---|---|---|---|
1. tíund | 43.246 kr. | -1.506 kr. | 1.110 kr. | 2.616 kr. |
2. tíund | 190.529 kr. | -5.019 kr. | 10.944 kr. | 15.963 kr. |
3. tíund | 341.605 kr. | 2.882 kr. | 43.220 kr. | 40.338 kr. |
4. tíund | 458.212 kr. | 29.684 kr. | 74.862 kr. | 45.178 kr. |
5. tíund | 561.046 kr. | 43.626 kr. | 104.615 kr. | 60.988 kr. |
6. tíund | 700.399 kr. | 78.363 kr. | 142.374 kr. | 64.010 kr. |
7. tíund | 881.561 kr. | 130.524 kr. | 187.915 kr. | 57.391 kr. |
8. tíund | 1.144.294 kr. | 207.203 kr. | 255.285 kr. | 48.082 kr. |
9. tíund | 1.556.766 kr. | 349.989 kr. | 384.053 kr. | 34.064 kr. |
10. tíund | 3.015.586 kr. | 824.339 kr. | 824.014 kr. | -325 kr. |
Þarna sést að aukin skattheimta jafngildir rúmum 64 þúsund krónum á mánuði fyrir hvern einstakling í 6. tekjutíund. Þetta fer svo lækkandi eftir því sem tekjurnar eru minni, en hægt þar til hækkunin verður lítil í krónum talið hjá tveimur neðstu tíundunum þótt hún mælist hlutfallslega mikil. Þar hefur átt sér stað eðlisbreyting, skatturinn tekur í dag fé af fólki sem er með lægri tekjur en duga til framfærslu. Það var ekki gert á árum áður, þótti ósiðlegt. En nýfrjálshyggjan er breyttur siður, kannski helst af öllu.
Og hækkunin er líka minni fyrir ofan 6. tíund, lækkar hægt fyrst en svo hraðar þar til hún er engin hjá hinum tekjuhæstu.
Eins og sést af þessum dæmum voru skattabreytingar nýfrjálshyggjuáranna svo róttækar og byltingarkenndar að það þarf stórátak að vinda ofan af þeim, einskonar gagnbyltingu gegn byltingu hinna ríku sem tókst að snúa skattkerfinu á hvolf.
Og breytingin er í raun meiri en hér er sýnt. Hér er miðað við tíundir. Þau sem græddu mest á skattabreytingum nýfrjálshyggjuáranna voru hins vegar 1% hinna ríkustu. Og allra mest 0,1% hinna allra ríkustu. Til að sýna áhrifin af byltingu hinna ríku þyrftum við því að sýna þróun skatthlutfalls tekjuhundruðanna og tekjuþúsundanna.