Innviðaráðuneytið telur að markaðurinn sé ávallt sanngjarn

Breytingar á húsaleigulögum liggja nú fyrir í samráðsgátt stjórnvalda. Í þeim er leigusölum gert erfiðara fyrir með að gera leigusamninga til skamms tíma til að hækka leiguverð umfram verðlagsbreytingar, en þar hins vegar ekkert um leiguþak eða leigubremsu, sem ríkisstjórnin lofaði að setja á við gerð lífskjarasamningana 2019. Í greinargerð með frumvarpinu er leigjendum ekki boðin nein vernd gegn hækkunum á leigumarkaði heldur er gert ráð fyrir að þessar hækkanir verði viðmið við mat á hvort leiga sé sanngjörn. Ekkert tillit er tekið til markaðsbrests vegna ójafnrar stöðu leigjenda og leigusala eða mikillar umframeftirspurnar vegna lítils framboðs en sífellt vaxandi eftirspurnar. Ef leiga hækkar í takt við slíkan markaðinn þá er það sanngjarnt, að mati innviðaráðuneytis Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Þrátt fyrir gömul loforð um leigubremsu er hennar varla getið í greinargerðinni. Þar segir: „Verðstýring, s.s. í formi leiguþaks eða leigubremsu, sé til þess fallin að draga úr hvata til útleigu og/eða viðhalds á leiguhúsnæði og þar með framboði og gæðum íbúða á leigumarkaði. Fremur beri að skapa jákvæða hvata til hagkvæmrar uppbyggingar og útleigu íbúða. Einnig mætti gera leigutekjur einstaklinga sem ekki leigja út húsnæði í atvinnuskyni skattfrjálsar en slíkt myndi bæði auka framboð á húsnæði, m.a. með því að draga úr skammtímaleigu til ferðamanna, og lækka leiguverð.“

Þetta er í andstöðu við reynslu annarra þjóða sem margar hafa einmitt gripið til þess að herða leigubremsur á liðnum árum. Engin tilraun er gerð til að meta áhrif af leigubremsu eða leiguþaki í öðrum löndum heldur er hugmyndinni rutt út af borðinu með vísan til kenninga og hugmynda nýfrjálshyggjunnar um að óheftur markaður skili ætíð allra bestri niðurstöðu.

Og greining starfshópsins á þróun leigumarkaðarins er líka mjög villandi. Samstöðin birti í gær línurit sem sýnir þróun leiguverðs og almenns verðlags frá 2011:

Þarna sést greinilega hversu mikið leiga hefur hækkað frá 2011. Ef miðað er við markaðsverð á 75 fermetra íbúð á höfuðborgarsvæðinu má ætla að leigjendur borgi í dag um 85 þúsund krónur meira í leigu en 2011 en ef leiga hefði fylgt neysluvísitölunni. Þetta er sem sé hækkun umfram verðtryggingu flestra leigusamninga.

En nefnd Sigurðar Inga kýs að staldra við cóvidtímann þegar ferðamenn hurfu og hingaðkomu erlends verkafólks hætti. Við settum inn grænan kassa á línuritið til að marka þetta tímabil, sem er algjör undantekning frá augljósri þróun til linnulausrar hækkunar. Nefndin. notar hins vegar tímabilið sem sérstakt viðmið til að hafna leigubremsu, sem ríkisstjórnin hafði þó lofað. Eins og sést á grafinu þá má sjá að leiguverð hefur síðan haldið áfram að hækka umfram verðlag.

Um þetta stendur í greinargerðinni: „Ekki liggja fyrir nægjanlega heildstæðar upplýsingar um leigumarkaðinn, þ.m.t. um þróun leiguverðs, eins og nánar er fjallað um í næsta kafla. Með þeim breytingum sem lagðar eru til með frumvarpinu er gert ráð fyrir að úr því verði bætt m.a. í því skyni að áreiðanlegar upplýsingar liggi fyrir um markaðsleigu sem unnt verði að nota við mat á því hvort leigufjárhæð sé sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila, líkt og húsaleigulög gera ráð fyrir. Sé litið til þróunar leiguverðs samkvæmt vísitölu leiguverðs hefur leiguverð farið hækkandi undanfarna mánuði en á stórum hluta áranna 2019 og 2020 lækkaði leiguverð aftur á móti, m.a. vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Talið er að áhrif vaxtahækkana á almennan húsnæðiskostnað kunni að leiða til hækkandi leiguverðs auk þess sem aukin eftirspurn eftir leiguhúsnæði vegna hærri fjármagnskostnaðar, aukinnar skammtímaleigu íbúða til ferðamanna, fólksflutninga til landsins og fleiri þátta muni enn fremur setja þrýsting á hækkun leiguverðs á komandi misserum.“

Nefndin veit augljóslega sjálf að viðmiðun við árin 2019 og 2020 er óraunhæf og boðar miklar hækkanir á húsaleigu á næstunni vegna ýmissa þátta, sem draga mætti saman og kalla getuleysi stjórnvalda til að reka hér húsnæðisstefnu sem tryggir almenningi ódýrt og öruggt húsnæði. Og þegar sérstakar aðstæður myndast eins og ofþensla ferðaþjónustunnar þá skapast hér stórkostlegt neyðarástand.

En nefndin leggur ekki til neinar breytingar á stefnunni, aðeins auknar upplýsingar um hver markaðsleigan er hverju sinni og ítrekun á ákvæðum húsaleigulaga. Nefndin virðist telja að brotið sé gegn leigjendum vegna skorts á þekkingu þeirra á húsaleigulögum, ekki því að staða þeirra gagnvart leigusalanum er svo veik á brostnum markaði að leigusalinn kemst upp með að fara á svig við lögin. Leigjandinn þarf að velja um að halda húsnæðinu gegn hærri leigu eða fara í hart og enda á götunni.

Það má sjá af greinargerðinni að hugur nefndarinnar er allur hjá leigusölum. Nefndin reynir að gera sem minnst úr stjórnlausu okri sem þó einkennir markaðinn. Hafið línuritið hér að ofan í huga þegar þið lesið þennan part úr greinargerðinni: „Jafnframt hefur verið bent á að einstakir leigusalar kunni í einhverjum tilvikum að gera tímabundna leigusamninga til skamms tíma til að hækka leigufjárhæð umfram það sem sanngjarnt og eðlilegt getur talist við endurnýjun samningsins og nýti sér þannig erfiða stöðu leigjenda vegna framboðsskorts á leiguhúsnæði. Í samráði starfshóps um endurskoðun húsaleigulaga við hagaðila á leigumarkaði kom fram að slík dæmi væru fyrir hendi um bæði hagnaðardrifin leigufélög sem og einstaklinga sem leigja út íbúðir á almennum markaði. Í því sambandi kom fram það sjónarmið að enda þótt um jaðartilvik væri að ræða, þar sem telja verði að flestir leigusalar á markaði leitist við að bjóða sanngjarna og eðlilega leigufjárhæð, sé brýnt að koma í veg fyrir að unnt sé að hækka leigufjárhæð verulega og umfram það sem sanngjarnt og eðlilegt getur talist við endurnýjun eða framlengingu leigusamnings.“

Þarna er talað um okrið sem jaðartilvik og tiplað kringum leigusala eins og heilagar kýr. Þessi lýsing er þvert á reynslu stórs hluta leigjenda og það sem samtök þeirra, Leigjendasamtökin, hafa sýnt fram á undanfarin ár.

Tillögur innviðaráðherra til að mæta einu stærsta vanda samtímans, ástandinu á leigumarkað sem hefur verið afleitt allt frá Hruni , fer versnandi og mun fyrirsjáanlega versna mikið á næstu misserum, eru nánast engar aðrar en að ítreka óbreytta stefnu, óbreytt lög og óbreytta stöðu leigjenda. Ráðuneytið sér í raun ekkert að þar sem markaðurinn sjálfur er mælitækið. Og þar sem markaðurinn er í takt við markaðinn er allt gott og sanngjarnt, að mati ráðuneytis Sigurðar Inga.

Fyir skömmu gerði Maskína könnun fyrir Leigjendasamtökin og spurði um álit landsmanna á því hvernig Sigurður Ingi og ríkisstjórnin stæðu sig í húsnæðismálum. Samkvæmt könnuninni sögðu aðeins 5,3% landsmanna að ríkisstjórnin standi sig mjög eða frekar vel í uppbyggingu húsnæðismála. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fær aðeins skárri útkomu, 7,7%, sökum þess að Framsóknarfólk telur hann standa sig betur en ríkisstjórnin. Lesa má um könnununina hér: Aðeins 5% finnst ríkisstjórnin standa sig vel í húsnæðismálum.

Lesa má um tillögur ráðuneytisins í samráðsgátinni hér: Drög að frumvarpi til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994 (tillögur starfshóps um endurskoðun húsaleigulaga)

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí