Margir hafa velt því fyrir sér hvað verður eiginlega um okkur Íslending ef Golfstraumurinn hrynur, líkt og sumir vísindamenn spá að gæti gerst innan nokkra ára. Afleiðingarnr yrðu líklega þær að hér væri ekki lengur hægt að halda úti byggð, slíkur yrði kuldinn. Einn þeirra sem veltir þessu fyrir sér er fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason.
Hann skrifar á Facebook: „Við þetta yrðu Íslendingar væntanlega loftslagsflóttamenn. Fáir munu vilja búa við slíkt veðurfar. Hvert eigum við að fara? Til Tene? Hver vill taka á móti okkur? Norðurlönd? Verðum við þá innflytjendur eða, hóst, flóttamenn? Eða erum við svo fámenn að við getum látið okkur hverfa í mannhaf þjóðanna? Kvótaeigendur geta svo kannski haldið eyjunni sem verstöð.“
Ljóst er að kvótaeigendur deila örlögum okkar hinna, því fiskurinn myndi synda suður. En Egill segir að þetta sé eitthvað sem við þurfum að hugsa um sem þjóð. Væri mögulega hægt að halda úti byggð, þó kuldinn væri hræðilegur?
„Út frá hreint teoretísku sjónarmiði er mjög forvitnilegt að glíma við það viðfangsefni hvernig samfélag myndi bregðast við svo snöggri kólnun. Hvaða atvinnuvegir myndu þrífast áfram, hvernig myndu neysluhættir breytast? Hver yrðu lífskjörin? Samgöngur? Myndu ekki allir vilja komast burt? Er hægt að halda uppi menningu og æðri menntun í skíkum kulda?,“ spyr Egill.