Íslendingum að kenna að enginn talar íslensku: „Útlendingar læra að það er ekki þess virði“

Það er nokkuð ljóst að margir hafa fengið sig fullsadda af því að geta ekki lengur talað íslensku við afgreiðslufólk á Íslandi. Í það minnsta hefur staða íslenskunnar verið eitt helsta hitamál samfélagsins í sumar. Margar fréttir hafa verið skrifaðar þar sem fræðimenn segja sína skoðun á þessum vanda. En þær eru færri þar sem fólkið sjálft, það er að segja enskutalandi afgreiðslufólkið, segir frá sinni upplifun.

Innan Facebook-hópsins Málspjall birtir Ítalinn Flavio Spadavecchia pistil, á íslensku, þar sem hann fer yfir rót vandans frá hans bæjardyrum. Í stuttu máli þá er þetta Íslendingum að kenna. Í fyrsta lagi eru margir sem vinna þessi störf í hálfgerði verðtíð og ætla sér ekki að ílengjast á Íslandi. Í öðru lagi þá er það allt of algengt að Íslendingar neiti að tala íslensku við þá sem kunna hana ekki reiprennandi.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Flavio í heild sinni.

Varðandi afgreiðslufólk sem talar ekki íslensku

Ég er alls ekki fræðingur og ég tala ekki fyrir hönd allra útlendinga á landi, en ég vildi samt skrifa niður nokkra punkta fyrir þá sem langar að lesa, enda hef ég unnið í ferðaþjónustu út á landi.

Fyrst og fremst vil ég segja að ég er sammála að það er 100% sanngjarnt að vilja tala sitt eigið tungumál á sínu landi. Ég er s.s. Ítali og held að það sé ómögulegt að finna starf sem afgreiðslumaður á Ítalíu án þess að tala og skilja smá ítölsku. EN Ísland er mjög sérstakt land og það er mikilvægt að hafa eftirfarandi í huga :

1. Íslendingar ferðast yfirleitt ekki mikið út á land; þeir vilja frekar fara til Tene og miðað við hvað margir erlendir ferðamenn koma á hverjum degi í sveitina, íslendingar eru bara örfáir og hótel- eða veitingastjórar vita það, augljóslega.

2. Þegar íslendingar koma í sveitina, gista þeir oftast hjá fjölskyldu eða á VR sumarbústaðum (t.d.). Hótelstjórar vita það vel.

3. Ég hef unnið sem móttökuritari á hóteli á Suðurlandi og sá svo allar atvinnuumsóknir sem við fengum. Giskið þið hvað margar voru frá íslendingum? Núll. Við vorum s.s. með íslenskum starfsmönnum á hótelinu en það er erfitt að fá fleiri íslendinga að flytja frá bænum til þorps sem er með 200 eða minna íbúa… En samt, þegar það var Covid-tími fékk hótelstjórar fleiri íslendinga í sumarvinnu, fyrst við vorum með miklu fleiru gesti frá Reykjavík, t.d.

4. Á landsbyggðina koma oftast útlendingar sem langar að vinna bara í 1 eða 2 sumar og fara svo heim. Þeir vinna rosalega mikið og svo er þess ekki virði að læra allt annað tungumál.

Ég skal samt viðurkenna að það er satt að það eru útlendingar sem búa hér í mörg ár og hafa engan áhuga á að læra íslensku og það er bara þannig. En þeir eru minnihluti. Það sem gerist oft (og hef séð það sjálfur) er að fólk er forvitið og langar að byrja að læra, en það er ekki mikið í boði á landsbyggðinni. Það er stundum “íslenska 1 eða 2” ef maður er heppinn, en svo ekkert. Fólk út á landi vinna svo oftast 180-240 klukkutíma á mánuði, um sumrin. Það gefur ekki tíma eða orku eftir til að læra nýtt tungumál… Og það er s.s. ekki ókeypis.

Eitthvað annað sem enginn talar um eru margir margir kennarar út á landi sem þiggja gjarnan peninga frá stéttarfélögum en svo kenna raunverulega ekki neitt. Þeir láta nema lesa bara bókina sjálfir, kannski spila leiki og svo er það búið. Eða þeir eru vanir að kenna íslenskum börnum og halda það að endurtaka “hér er hestur, um hest, frá hesti…” dugi sem íslenskukennsla handa útlendingum. Mér finnst það mjög sorglegt að segja, en það gerist oft líka.

Og hvað gerist svo þegar útlendingur prófar að nota íslensku við gesti án þess að tala framúrskarandi íslensku? Eitthvað svoleiðis:

Móttökuritari: “Góðan daginn. Get ég aðstoðað?”

Gestur: “Heyrðu, þa’ersvomiki’ óve’urúti, erbara’leita’erbeggi”.

Móttökuritari: [með hreim] „Ehm… Gætir þú endurtekið…?“

Gestur: [rúllar upp augunum og er pirraður að hann þurfi að endurtaka] “Ugh, can I just get a room for tonight, please?”

Svo læra útlendingar að þess er ekki virði að prófa að nota íslensku ef þeir skilja ekki allt nú þegar. Og svo auðvitað lærir maður aldrei.

Þegar ég var aðeins með grunnukunnáttu af íslensku, reyndi ég samt að svara síma hótelsins á íslensku og halda áfram samtalið á íslensku en oftast þyrfti ég að skipta yfir í ensku. Það var íslenskur samstarfsmaður við hlíðina á mér sem myndi heyra og sagði svo einu sinni, “You know, when they’re asking “talarðu íslensku?”, they’re really asking if you are Icelandic, so there’s no point in trying”. Það særði mig.

Eða einu sinni, þegar íslenskan mín var allt í lagi, kom íslenskur karlmaður (um fimmtugt) að tékka sig inn sem myndi aðeins svara á ensku þegar ég talaði einungis á íslensku. Mjög skrítið samtal, kannski vildi hann bara æfa sig á ensku…

Sem síðasta örsaga vildi ég nefna að það var samstarfs ungkona sem kunnti ekki íslensku og hún var á móttökunni á meðan ég (t.d.) var í matarhléi. Þegar ég kom til baka var hún grátandi því einhver gestur kvartaði og öskraði við hana að hún kunni ekki íslensku. Já, kannski var hún bara mjög viðkvæm, en það ætti ekki að gerast…

Ég skal ljúka með því að segja að ég veit ekki hver lausnin er. Ferðaþjónustuna vantar útlendinga en það er ekki auðvelt að kenna íslensku strax. Ég held samt að fyrsta skref væri að muna eftir því að það skiptir miklu máli að tala hægt og klárlega. Já, eins og þú værir fréttamaður að tala við börn. Það hljómar kannski yfirlætislegt en það skiptir máli. Það er líka hægt að benda á matseðilinn og nota enföld orð eins og bjór, vatn, kaffi, o.s.frv.

Ég vona að þetta hafi tekist a.m.k. að sanna nokkrum ykkar að þetta sé alls ekki einfalt mál

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí