Konungsfjölskyldan í Sádí Arabíu kaupir sér fótbolta

Karim Benzema fær 100 milljónir evra á ári í þrjú ár fyrir að spila fótbolta fyrir eitt af þessum liðum sem konungsfjölskyldan tók yfir, Al Ittihad í Jeddah, sem gæti kallast Sambandið upp á íslensku. 100 milljónir evra eru 13.444 m.kr. eða um 1.228 m.kr. á mánuði. En konungsfjölskyldan á ríkið svo hún henti inn skattfrelsi inn í samninginn. Þessar 1.228 m.kr. á mánuði eru því eftir skatt. Það jafngildir því að Benzema væri með 2.285 m.kr. á mánuði, miðað við íslenskan tekjuskatt.

Það geta ekki mörg félög í Evrópu keppt við þessi laun. Hæstlaunaði leikmaðurinn í Evrópu er Kylian Mbappe sem fær rúmar 1.435 m.kr. á mánuði fyrir að spila með Paris Saint-Germain. Sem er í eigu furstafjölskyldunnar í Katar. En hún ræður ekki yfir franskri skattheimtu svo Mbappe þarf að borga skatta eins og annað fólk. Fótboltamenn eru reyndar annálaðir fyrir að svíkja undan skatti, en við skulum ekki blanda því í málið.

Benzema er þó aðeins hálfdrættingur á við Christiano Ronaldo sem fær tvöfalt meiri, eða 2.240 m.kr. á mánuði. Ronaldo var ráðinn til að spila fótbolta fyrir Al Nassr, lið í höfuðborginni Riyadh sem kalla mætti Sigur. Það er líka í eigu koningsfjölskyldunnar sem á flest í Sádí Arabíu og í raun landið sjálft. Það er skýrt eftir fjölskyldunni. Svipað og ef Ísland héti Engey og væri persónuleg eign Engeyjarættarinnar, sem ætti líka öll stórfyrirtæki, auðlindir og innviði landsins.

Konungsfjölskyldan tók yfir fjögur félög. Auk Al Nassr tók fjölskyldan yfir Al Hilal í Jeddah og auk Al Ittihad í Riyadh tók fjölskyldan yfir Al Ahli í höfuðborginni. Ef við höldum áfram að þýða nöfnin þá gæti Al Ahli kallast Fjölskyldan og Al Hilal er Hálfmáninn. Þau sem vilja freista gæfunnar í Sádí-arabískum fótbolta munu því keppa við fjögur lið sem eru í eigu fjölskyldu sem sem á ekki bara boltana og völlinn, heldur lögin, lögguna, þingið, herinn og allt sem í Sádí-Arabíu er.

Al Ittihad sem var að ráða Benzema frá Real Madrid en auk þess N’Golo Kante frá Chelsea og Portúgalann Jota frá Chelsea, varð meistari í vor. Al Nassr með Ronaldo innanborðs varð í öðru sæti. Þar spilar einnig Króatinn Marcelo Brozović, svo dæmi sé tekið. Í þriðja sæti varð svo þriðja konungsliðið, Al Hilal. Þar spilar t.d. Portúgalinn Rúben Neves sem síðast lék með Wolverhampton Wanderers og Frakkinn Kalidou Koulibaly, sem síðast lék með Chelsea og þar áður í Napólí.

Fjórða konungsliðið, Al Ahli, vann sér ekki inn þátttökurétt í deildinni í ár, í fyrsta sinn sem deildin var stofnuð. Al Ahli er það lið sem oftast hefur sigrað deildina og bikarinn, er sigursælasta liðið í Sádí-Arabískum fótbolta. Lukkan kann að snúast aftur Al Ahli í vil því koningsfjölskyldan hefur ráðið Brasilíumanninn Roberto Firmino frá Liverpool og Senegalann Édouard Mendy frá Chelsea til að verja markið.

Svo til allir fótboltamenn sem fara til Sádí-Arabíu fara á því sem kallað er frjáls sala. Þá fær fyrra félag ekkert fyrir kaupin, andvirði samninginn rennur allt í vasa fótboltamannanna. Og það eru ekki bara spilandi fótboltamenn sem renna á peningalyktina. Steven Gerrard, goðsögn Liverpool, réð sig í síðustu viku sem þjálfara Al Ettifaq, sem kalla mætti Sáttmálann upp á íslensku. Þegar Gerrard gaf skýringu á þessu sagði hann peningarnir skipu minnstu í ákvörðun hans. Eins og fyrr veldi hann starfsvettvang sem hentaði best framtíðarplönum fjölskyldunnar. Sem virðist hafa sest niður og ákveðið að framtíðin væri í alræðisríki konungsfjölskyldu sem fræg er um allan heim fyrir aftökur, kúgun minnihlutahópa og stuðning við ofsatrúarfólk sem tilbúið er að drepa sjálfan sig og aðra í nafni trúarinnar.

En Gerrard sagðist strax hafa liðið eins og heima hjá sér í Sádí Arabíu, þar hafi allir verið vinalegir við hann og fjölskyldu hans. Og það sama sagði Benzema, sem sagðist ætíð finna fyrir svo miklum hlýhug þegar hann kæmi til landsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí