Andrea Sigurðardóttir, Sjálfstæðiskona og blaðamaður á Morgunblaðinu, botnar ekkert í því hvers vegna orð hennar hafa almennt verið fordæmd og hún varð „vondi kallinn“, líkt og kemst sjálf að orði. Hún virðist ekki búa yfir miklari sjálfsvitund, nú eða sjálfsinnsæi, því í stuttu máli þá neitaði hún að trúa því að flóttamaður sagðist vera betri maður en hann var fyrir sex árum. Það er ekki af ástæðulausu sem að eitt uppáhalds máltiltæki Íslendinga er „batnandi mönnum er best að lifa“.
Í gær skrifaði Andrea á Twitter um Isaac Kwateng, vallarstjóra Þróttar: „Hvers vegna vilja Þróttarar fá yfirlýstan hommahatara aftur í félagið? Af öllum þeim brottvísunarmálum sem ratað hafa í fjölmiðla er þetta skrítnasti slagur góða fólksins – hann sótti um hæli vegna áreitni sem hann varð fyrir við að predika gegn samkynhneigð!“
En margir bentu henni á í athugasemdum að Isaac væri engin hommahatari í dag, sex ár á Íslandi hefðu breytt sýn hans á samkynhneigð. Því neitar Andrea að trúa og skrifar í dag: „Ég er ekki að fara að skipta um skoðun um að maður sem hefur opinberað andúð á samkynhneigðum og predikað gegn samkynhneigð eigi ekki heima í æskulýðsstarfi, jafnvel þótt hann segist breyttur maður í dag. Vonandi sá hann ljósið en hann hefur samt hag af því að segjast breyttur.“
Hún skrifar svo áfram: „ Hreint ótrúlegt að ég sé vondi kallinn og sökuð um fordóma, vegna þess að ég er ekki tilbúin að taka manninn á orðinu um að hann sé breyttur með þessa fortíð og finnast bara hið besta mál að hann starfi innan um börn í hverfisfélaginu.“
Þórður Einarsson, þjálfari hjá Þrótti, lætur hana þó heyra það í athugasemd. „Auðvitað ertu ekki að fara breyta um skoðun þrátt fyrir fyrirliggjandi upplýsingar. Það þarf sjálfstraust andleg þolgæði og manndóm til þess. Flott hjá þér að gefa í skyn að hann sé að ljúga líka. Top class. Svo ætlar þú að verða fórnarlamb líka! ÚFF!“