Leiðtogar Evrópu og Suður-Ameríku ná ekki saman um Úkraínu

Svo virðist sem engin yfirlýsing verði gefin í lok leiðtogafundar Evrópusambandsins og CELAC, Bandalag ríkja Suður-Ameríku og Karíbahafsins, þar sem ekki tókst að berja saman sameiginlega yfirlýsingu um stríðið í Úkraínu. Evrópusambandið vildi ná fram harðri fordæmingu á innrás Rússa en engin samstaða var um það meðal ríkja S-Ameríku og Karíbahafsins. Fundinum mun því líklega ljúka án sameiginlegrar yfirlýsingar.

Fundurinn fjallar að litlu leyti um Úkraínu, heldur mest um mögulega aukin samskipti milli álfanna. Þetta er í fyrsta sinn í átta ár sem þessi samtök halda sameiginlega ráðstefnu. Og Evrópumegin voru nokkrar vonir bundnar við fundinn, ekki síst af hálfu Emmanuel Macron, forseta Frakklands. Macron hefur verið talsmaður þess að Evrópa fagni margpóla heimsmynd sem er að fæðast og stefni að því að Evrópa verði þriðji pólinn, tilheyri hvorki Bandaríkjunum né Kína. Liður í þeirri vegferð væri að Evrópu gæti sjálf staðið undir eigin vörnum og myndi byggja sér upp sjálfstæða stöðu í heimsmálum. Og Suður-Ameríka er mikilvægt svæði að því leyti, að mati Macron.

Það byggir á sögulegum tengslum Evrópu og Suður-Ameríku og Karíbahafsins, en stórir hlutar íbúanna þar eiga ættir að rekja til innflytjenda frá Evrópu. Macron sér fyrir sér að Evrópa gæti opnað fyrir flutninga fjármagns, vara, þjónustu og fólks milli landanna og að því fylgdi minni vandi en vegna innflytjenda frá Afríku og Mið-Austurlöndum til Evrópu.

Leiðtogar Suður-Evrópu vilja einnig efla tengslin við Suður-Ameríku, en taka kannski ekki undir framtíðarsýn Macron. Staða hans í Evrópu er dálítið sérstök. Macron er valdalítill innanlands þar sem hann hefur ekki þingið með sér en er hins vegar nánast einráður í utanríkismálum samkvæmt stjórnarskrá. Og ef hann ætlar að tryggja sér góðan sess í sögunni verður hann að ná þar einhverju fram. Leit hans að slíkum tækifærum hefur valdið því að oft talar hann á skjön við aðra leiðtoga Evrópu, eins og þegar hann fór til Kína fyrr á árinu og ræddi þar opinskátt um mögulega friðarsamninga í Úkraínu.

En þótt Macron sé að mörgu leyti einangraður í hugmynd sinni um Evrópu sem þriðja pólinn, þegar flestir leiðtogar Evrópu eru fullsælir með Evrópu sem áhrifasvæði Bandaríkjanna, þá er ljóst að Evrópu þarf að styrkja stöðu sína í heimsviðskiptum. Kína er nú æ fyrirferðameira í Suður-Ameríku, þótt Belti og brú-verkefnin nái ekki þangað. Hugmyndir Macron um einskonar Belti og brú-verkefni Evrópuríkja hafa því nokkurn hljómgrunn. Evrópa er ekki lengur næst stærsta hagkerfi heims, Kína fór fram úr Evrópu um 2016. Og hagkerfi bæði Kína og Bandaríkjanna vaxa miklu hraðar en Evrópa, sem hefur barist við stöðnun frá því í efnahagskreppunni 2008.

Pendúll stjórnmálanna í Suður-Ameríku virðist sveiflast reglulega frá hægri til vinstri. Hann er nú vinstra megin og þá rís upp vilji innan ríkjanna að draga úr drottnandi áhrifum Bandaríkjanna í álfunni. Aukin samskipti og viðskipti við Kína er merki um þetta. Og mögulega finnst ríkjunum kostur að geta byggt upp aukin viðskipti og samskipti við Evrópu einnig, þótt víðast sé litið á Evrópuríkin sem leppríki Bandaríkjanna.

Mynd: Pedro Sánchez forsætisráðherra Spánar, Charles Michel formanni Evrópuráðsins, Luiz Inácio Lula da Silva forseta Brasilíu og Ursula von der Leyen framkvæmdastjóri Evrópusambandsins kampakát á fundi ESB og CELAC,

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí