Mun góð kjörsókn forða Spáni frá últra hægri ríkisstjórn?

Góð kjörsókn og vísbendingar um vinstri sveiflu síðustu dagana fyrir kosningar hefur fyllt stuðningsfólk Sósíalistaflokksins og vinstrabandalagsins Sumar von um að kannski takist að forða því að mynduð verði últra hægri ríkisstjórn eftir kosningar af Þjóðarflokknum og Vox. Væntingar vinstrafólks eru að þeim hafi tekist að vekja upp andstæðinga Vox, sem er við ysta hægrið í evrópskum stjórnmálum, og hvatt það til að nýta kosningarétt sinn til að forða Spáni frá viðlíka ríkisstjórnum og hafa tekið við á Ítalíu, í Svíþjóð og Finnlandi á undanförnum misserum.

Það er óheimilt að birta skoðanakannanir á Spáni viku fyrir kosningar. Þær eru samt teknar á þessum tíma og hafa sýnt að sókn Þjóðarflokksins hefur heldur gengið til baka og að fylgi Sósíalistaflokksins og Sumar vex. Þetta virðist sýna að það hafi verið afgerandi mistök af Alberto Núnez Feijóo, leiðtoga Þjóðarflokksins, að mæta ekki til kappræðna í sjónvarpi síðastliðið miðvikudagskvöld. Feijóo mat það svo að vegna góðra stöðu síns flokks hefði hann ekkert að vinna en öllu að tapa með því að mæta. En þetta snerist í höndum hans. Santiago Abascal, formaður Vox, var eini talsmaður hægrisins í þessum kappræðum á móti nokkuð samtaka formönnum miðjunnar og vinstrisins, Yolanda Díaz, leiðtoga Sumar og varaforsætisráðherra, og Pedro Sánchez, forsætisráðherra og leiðtoga Sósíalista. Kappræðurnar drógu upp andstæður ysta hægrisins sem rekur pólitík ótta og sundrungar og mið-vinstrisins sem lagði áherslu á samstöðu og uppbyggingu. Þetta voru ekki þeir sem valkostir sem Feijóo hefði viljað skilja eftir hjá kjósendum.

Fyrir viku sýndu kannanir að yfirburðir Þjóðarflokksins væru miklir og fáa aðra kosti í spilunum en samsteypustjórn hans og Vox. Þrátt fyrir að merki um bakslag á síðustu metrunum eru hægri menn vongóðir um sigur, telja að forskotið hafi verið of mikið til að stjórnarflokkarnir hafi geta unnið það upp. Vinstrimenn horfa hins vegar til kosninganna 1993 þegar Sósíalistaflokkur Felipe González sneri taflinu við á síðustu metrunum og stal sigrinum af Þjóðarflokknum.

Feijóo hefur sagt að hann muni segja af sér ef honum takist ekki að skila inn vænum kosningasigri. Hann hefur hins vegar ekkert sagt til um hvað gerist ef flokkurinn sigrar í kosningunum en mistekst að mynda ríkisstjórn. Ef Sósíalistar mynda ekki ríkisstjórn er líklegt að Sánchez hætti. Hann boðaði til kosninga eftir fylkis- og sveitastjórnarkosningar í vor þar sem Sósíalistar misstu víðast völd þótt þeir hafi ekki tapað mörgum atkvæðum. Díaz þarf á sigri að halda til að halda saman hinu nýja bandalagi vinstri flokka. Það er hætt við sundrun þess ef illa gengur. Abascal er hins vegar nokkuð öruggur sem leiðtogi Vox, hefur verið það frá 2014. En það er sá af landsflokkunum sem telja má öruggast að mun tapa þingsætum. Markmið hans er að komast í ríkisstjórn þrátt fyrir veikari stöðu á þingi.

Kjörstöðum lokar klukkan átta á spænskum tíma, eða klukkan sex á íslenskum. Kjörstaðir loka þó klukkutíma seinna á Kanaríeyjum og það er því ekki fyrr en rétt eftir klukkan sjö sem kosningaspár munu birtast.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí