Vladímír Pútin, forseti Rússlands, tekur á móti þjóðarleiðtogum Afríku í Sankti Pétursborg í dag. Um er að ræða annan slíkan fund sem haldinn hefur verið á milli Rússlands og leiðtoga Afríku, en síðasti slíki fundur var haldinn árið 2019.
Óhætt er að segja að staðan nú sé gjörbreytt frá síðasta fundi, sem sést kannski einna helst á því að einungis þjóðarleiðtogar 17 Afríkulanda munu verða viðstaddir fundinn, samanborið við 43 sem mættu á fundinn 2019. Almennt er búist við því að Pútín muni tjalda öllu til þegar kemur að móttökunum, en ekki er hægt að segja að alþjóðlegur stuðningur við Rússland sé í neitt sérstaklega miklum mæli.
Hvað verður rætt?
Efst á baugi verður að sjálfsögðu Úkraínustríðið, en í síðasta mánuði mættu fulltrúar sex Afríkulanda til Rússlands og Úkraínu í þeim tilgangi að reyna að miðla málum og finna leið til að binda endi á stríðið. Hvorugt landið hlustaði þó mikið á fulltrúana, og svo gott sem ekkert kom útúr þeim fundum. Búist er við því að þeir leiðtogar Afríkulanda sem mæta á fundinn nú muni verða mun harðari í pressu sinni á Pútín um að binda endi á stríðið. En Úkraínustríðið hefur haft víðtækar afleiðingar um heim allan, að sjálfsögðu, en hefur komið sérstaklega niður á mörgum Afríkulöndum á ýmsan hátt.
Þess vegna er búist við því að annað helsta atriðið sem rætt verður á fundinum ákvörðun Rússa um að draga sig útúr samstarfi um matarflutninga yfir Svartahaf. Samstöðin hefur áður fjallað um það hér, en yfir helmingurinn af þeim matarflutningum var ætlaður til fátækari ríkja – þ.á.m. margra Afríkulanda. Það var Tyrkland, í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, sem komu þeim samningi í gegn á síðasta ári. Þrátt fyrir að mjög lítill hluti matarins, sem fluttur var í gegnum samstarfið skilaði sér raunverulega til fátækari landa, þá gerðu flutningarnir mikið til þess að halda matarverði niðri. En þetta er eitthvað sem búist er við að leiðtogar Afríkuríkja verði mjög umhugað um á fundinum.
Ekki er hægt að segja að Pútín standi vel að vígi í þeim umræðum, en eftir að stjórn hans tilkynnti að Rússland dregi sig formlega útúr samstarfinu hefur hann bætt um betur og gert árásir á hafnir og korngeymslur í Úkraínu. Utanríkisráðherra Kenýa, Korir Sing’Oei, hefur áður lýst þessari ákvörðun Pútíns sem „hníf í bakið“, svo óhætt er að segja að á brattann er að sækja hjá Pútín í þessum viðræðum.
Pútín er þó búinn að plægja jarðveginn að einhverju leyti, en í leiðara á mánudaginn úthúðaði Pútín Vestrinu fyrir að standa sig ekki í að útvega fátækustu löndum nægt korn, og fullvissaði Afríkulönd um að Rússland gæti hlaupið í skarðið fyrir Úkraínu ókeypis, þar sem búist væri við met uppskeru í ár.
Þar fyrir utan munu hinir ýmsu samningar um samstarf í tækni, menntun og menningu verða ræddir.
Hvað hefur Pútín að bjóða?
Fyrir utan ofantalt, þá er almennt búist við því að Pútín muni reyna að sannfæra þjóðarleiðtoga Afríku um nauðsyn þess að koma á öðru fjármálakerfi – óháð vestrinu og þá sérstaklega Bandaríkjunum.
Hinsvegar, þá er staðan einfaldlega sú að Rússland hefur ekki mikið að bjóða Afríkulöndum. Rússland stendur fyrir einungis 1% af alþjóðlegum fjárfestinum í Afríku. Þar fyrir utan, þá lofaði Pútín að tvöfalda viðskipti sín við Afríkulönd á síðasta fundi, árið 2019. Þau viðskipti áttu að fara uppí fjörtíu milljarða dollara, á fimm árum. Pútín hefur ekki einu sinni komist nálægt því að efna það loforð, en 18 milljarðar er það eina sem Rússland getur státað af – á sama tíma og að á síðasta ári þá flutti Afríka inn átta sinnum meira en Rússland kaupir frá heimsálfunni.
Það verður því, eins og áður segir, virkilega á brattan að sækja hjá Pútín á fundinum um helgina.