Ríkisendurskoðun ætlar að fylgja úttekt sinni á bankasýslunni eftir og kanna hvort eitthvað hafi breyst í starfi stofnunarinnar. Í tilkynningu Ríkisendurskoðunar segir að undanfarið ár hafi Ríkisendurskoðun kynnt þá stefnumörkun fyrir Alþingi að ráðist verði í eftirfylgni með skýrslum embættisins innan fárra mánaða frá birtingu skýrslna. Slík eftirfylgni feli í sér að Ríkisendurskoðun spyrst fyrir um stöðu úrbóta hjá þeim aðilum sem ábendingum hefur verið beint til en almennt er ekki gert ráð fyrir að eftirfylgni á þessu stigi leiði til frekari skýrslugerðar.
Þetta voru helstu niðurstöður úttektar Ríkisendurskoðunar á Bankasýslunni og þau atriði sem stofnunin vill nú fá að vita um hvort færð hafi verið til betri vegar:
- Athugun Ríkisendurskoðunar hefur leitt í ljós að standa hefði þurft betur að undirbúningi og framkvæmd sölunnar 22. mars 2022 Meginmarkmið sölunnar og viðmið varðandi framkvæmd voru á reiki
- Hugtakanotkun og upplýsingagjöf í þeim gögnum sem Bankasýslan og fjármála- og efnahagsráðuneyti lögðu fyrir Alþingi voru ekki til þess fallin að draga upp skýra mynd af tilhögun söluferlisins
- Bankasýsla ríkisins var í söluferlinu öllu afar háð utanaðkomandi ráðgjöf og þekkingu
- Skýr merki eru um að endanlegt söluverð hafi fyrst og fremst ráðist af eftirspurn erlendra fjárfesta
- Ekkert í kynningargögnum Bankasýslunnar eða fjármála- og efnahagsráðuneytis í aðdraganda sölunnar gaf til kynna að aðkoma erlendra fjárfesta að kaupunum myndi hafa slíkt vægi við ákvörðun um endanlegt söluverð
- Greining Ríkisendurskoðunar á stöðu tilboðabókar við ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð sýnir að heildareftirspurn var umtalsverð við hærra verð en 117 kr. á hlut
- Greining Ríkisendurskoðunar á tilboðabók söluferlisins sýnir að tilboð fjárfesta á sölugenginu 117 kr. á hlut námu 282% af framboði hlutabréfa í sölunni. Tilboð bárust í allan eignarhlutinn á dagslokagengi bankans á söludegi, 122 kr. á hlut, eða hærra Um var að ræða tilboð í 540 milljónir hluta eða 120% af endanlegu framboði. Hæsta tilboð sem barst var á genginu 124,1 kr. á hlut en lægsta á 110,2 kr. Tilboð á genginu 118 kr. á hlut eða hærra námu 882 milljónum hluta, rétt tæplega tvöfaldri stærð eignarhlutarins sem seldur var
- Þrátt fyrir ýmsa annmarka á söluferlinu dregur Ríkisendurskoðun ekki í efa að fjárhagsleg niðurstaða söluferlis á hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka þann 22. mars 2022 hafi verið ríkissjóði almennt hagfelld. Það á einnig við um þróun á gengi bréfa í bankanum á eftirmarkaði í kjölfar sölunnar
- Þó er ekki hægt að fullyrða að salan hafi verið ríkissjóði eins hagkvæm og verða mátti