Lýðflokkurinn spænski vann á í kosningunum en ekki nóg tl að geta myndað ríkisstjórn með Vox, flokki á ysta hægrinu. Þingmenn hægri sinnaðra staðbundinna flokka í Baskalandi og Kanaríeyjum duga heldur ekki til svo hægt sé að ná í meirihluta. Samanlagt fylgi þessara flokka er 175 þingmenn af 350, sléttur helmingur. Sem merkir að ríkisstjórn leidd af Sósíalistaflokknum er jafn ólíkleg. Það er því stjórnarkreppa á Spáni.
Samanlagt fylgi Lýðflokksins og Vox er 45,4% en samanlagt fylgi Sósíalista og Sumar, bandalags flokka vinstra megin við sósíaldemókrata er 44,0%. Hægri flokkarnir hafa 169 þingmenn en vinstri flokkarnir 153 þingmenn. Hægrinu vantar 7 þingmenn upp á meirihluta en vinstrinu 13. Og þar sem þessir þingmenn dreifast á staðbundna flokka, einkum í Baskalandi og Katalóníu, geta þeir ráðið úrslitum um hvaða ríkisstjórn verður mynduð. Og þar sem þeir þingmenn koma fremur úr vinstrinu en hægrinu er nánast jafntefli í spænskum stjórnmálum eftir kosningarnar. Og þó að þarna séu hægri flokkar þá er það erfiðara fyrir Lýðflokkinn að semja við flokka með sjálfstæðiskröfur en það er fyrir Sósíalista. Til að mynda stjórn þarf Lýðflokkurinn Vox, sem hins vegar er alfarið á móti öllum tilslökunum í sjálfstæðismálum, lítur á stjórnmálafólk sem vnnur að upplausn Spánar sem föðurlandssvikara.
Hafa ber í huga þegar sigur Lýðflokksins er skoðaður að hægri umbótaflokkurinn Ciudadanos bauð ekki fram nú, en hlaut tæp 7% atkvæða síðast. Það fyllti fylgismenn Lýðflokksins von að Alberto Núnez Feijoo, leiðtoga flokksins, hafði tekist að undanförnu að laða bæði umbótasinnuða kjósendur að flokknum og harðkjarna hægrimenn, ná bæði til sín atkvæðum sem áður fóru til Ciudadanos eða Vox.
Nú eru í raun aðeins þrír kostir. Sá fyrsti er kannski að Pedro Sánchez, forsætisráðherra og formaður Sósíalista, semji við Junta, flokkinn sem Carles Puigdemont stofnaði. Puigdemont er útlægur frá Spán fyrir að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu. Til að þingið samþykki ríkisstjórn þarf meirihluti allra þingmanna, 176 manns, að samþykkja forsætisráðherra. Ef það tekst ekki má kjósa aftur og þá gildir einfaldur meirihluti. Síðast fékk Sánchez sína ríkisstjórn samþykkta þannig, með hjásetu flokka frá Katalóníu, Baskalandi og Galesíu, en ekki Junta. En samningar um hjásetu eru ekki ókeypis og samningur við Junta mun kosta sitt, enda hefur sá flokkur verið í harðri andstöðu við ríkisstjórn Sánchez hingað til.
Aðrir kostir eru að kjósa fljótt aftur í von um að fá skýrari niðurstöðu eða að stóru flokkarnir tveir myndi saman stjórn, sem ekki er hefð fyrir á Spáni. Og er kannski ólíklegri kostur nú en oft áður, þar sem Lýðflokkurinn hefur færst til hægri eftir því sem Vox hefur sótt á.
Niðurstaða kosninganna er að Lýðflokkurinn vann kosningarnar en Sósíalistaflokkurinn vann kosningabaráttuna. Og líklega er helsta ástæða þess að Feijoo, leiðtogi Lýðflokksins, tók þá ákvörðun að skrópa í leiðtogaumræðurnar á miðvikudaginn, teljandi að hann hafi þar haft ekkert að vinna en öllu að tapa.
Myndin er af Alberto Núnez Feijoo að fagna kosningasigri sínum, sem ólíklegt er að komi honum til valda.