Gideon Levy, margverðlaunaður blaðamaður frá Ísrael, kom í viðtal á Samstöðinni þar sem hann ræddi um aðskilnaðarstefnu og fasisma Ísraelsríkis. Hann heldur því fram að hin svokallaða tveggja ríkja laus, sem Bandaríkin og Evrópa hafa talað fyrir, sé með öllu óraunhæf. Ísrael stjórnar nú þegar að öllu leyti allri Palestínu og Ísrael.
Vesturbakkinn er nú þegar undir stjórn Ísraels líka og Gaza sömuleiðis. Gideon segir Gaza vera stærsta fangelsi í heimi, þar sem fólk hefur engan ríkisborgararétt. Hann segir það til skammar að að Ísrael sé enn þá „uppáhald” vestursins og kallar eftir því að alþjóðlega samfélagið fari að beita Ísrael þrýstingi fyrir mannréttindabrot sín og aðskilnaðarstefnu. Gideon segir vestrið gera Ísrael engan greiða með meðvirkni sinni, hann segir núverandi ríkisstjórn Ísraels sé sú hægrisinnaðasta og fasískasta í sögu Ísraels. Nú þurfi vestrið að fara beita Ísrael efnahagsþvingunum, hætta vopnasölum og nota allt annað mögulegt til þess að neyða fram breytingar í Ísrael.
Ísrael getur ekki talist lýðræði
Gideon segir frá því í viðtalinu í síðustu viku að um 30 “pogrom” í Ísrael-Palestínu gagnvart palestínufólki hafi átt sér stað. Pogrom er orð sem er notað um ofbeldisfull morð eða brottvísanir á ákveðnum hópum en undir ríkisstjórn Netanyahus hefur slíkt aukist verulega. Ísraelskir landsnámsmenn fara inn á land, sem var áður partur af Palestínu, og neyða fjölskyldur út úr heimilum sínum, beita þær ofbeldi og í mörgum tilvikum drepa, kveikja svo í húsi þeirra eða hreinlega taka það. Þetta er gert í skjóli hægrisinnuðustu ríkisstjórnar Ísraels frá upphafi. Þetta eru auðvitað glæpir gegn mannkyninu og ólöglegt í alþjóðlegum lögum en eins og Gideon nefnir gerir vestrið ekkert haldbært til þess að stöðva þetta.
Gideon biður okkur að ímynda okkur tvö þorp sem eru hlið við hlið í Ísrael. Eitt þorpanna er nýtt landnámsþorp Ísraels en annað, rétt við hliðina, er eldra og palestínskt. Bæði eru á landsvæði Ísraels en aðeins eitt þorpanna er með innviði sem virka, öruggan aðgang að rafmagni og vatni og íbúar þess hafa öll þau helstu borgararéttindi sem við stærum okkur af í vestrinu. Þau taka þátt í kosningum, hafa tjáningarfrelsi og geta leitað til dómstóla ef brotið er á rétti þeirra. Í hinu þorpinu er raunin allt önnur. Þar er lítill aðgangur að öruggu vatni, rafmagni og öðrum nauðsynjum. Fólkinu þar stendur ekki til boða að taka þátt í kosningum, hefur ekki raunverulegt tjáningarfrelsi og í mjög mörgum tilvikum er það ekki einu sinni með ríkisborgararétt. Þetta segir Gideon ekki geta kallast neitt annað en aðskilnaðarstefna og þar sem Ísrael neitar aröbum og múslímum borgararéttindum og grunn mannréttindum geti Ísrael ekki talist lýðræðisríki.
Talar fyrir raunverulegu lýðræði í Ísrael Palestínu
Gideon segir einu raunhæfu lausnina á ástandinu í dag vera að Ísrael gerist raunverulegt lýðræðisríki. Arabar, múslímar og gyðingar eiga að njóta nákvæmlega sömu réttinda og ganga sameiginlega til kosninga. Margir í Ísrael munu streitast gegn þessari hugmynd þar sem slíkt lýðræði getur ekki verið trúarlegt ríki gyðinga og fjölmenningarlegt lýðræði ýmissa menningar- og trúarhópa á sama tíma. Þetta sé þó skynsamlegasta og mannúðlegasta leiðin áfram fyrir fólkið í Palestínu og Ísrael og kallar Gideon eftir sameiginlegu átaki vesturlanda gegn aðskilnaðarstefnu og mannréttindabrotum Ísraels. Það var hægt að brjóta á bak aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku á sínum tíma og slíkt hið sama er hægt fyrir Ísrael-Palestínu.