Stefnir í ríkisstjórn nýfrjálshyggju og afturhalds

Þegar vika er til þingkosninga á Spáni stefnir flest í góðan sigur Þjóðarflokksins, burðarflokks hægrisins í landinu sem á ættir að rekja til valdaklíkunnar í kringum Franco. Þjóðarflokkurinn leiddi fyrst ríkisstjórn tuttugu árum eftir Francotímann og hefur síðan skipst á að leiða ríkisstjórnir á móti Sósíalíska Verkamannaflokknum, sem hefur verið við völd síðan 2018 í samstarfi við vinstrihreyfinguna Podemos, sem nú heyrir sögunni til.

Ef niðurstöður kosninganna verða í takt við skoðanakannanir mun Þjóðarflokkurinn geta myndað ríkisstjórn með Vox, harðlínuflokki á ysta hægrinu. Alberto Núñez Feijóo, formaður Þjóðarflokksins, gætir sín á að fullyrða ekkert um slíkt, hefur meðal annars gefið því undir fótinn að mynda breiða stjórn með Sósíalistum. Ástæðan er að mörgum kjósendum Þjóðarflokksins blöskrar útlendingaandúð, kvenfordómar og andúð gegn réttindabaráttu hinsegin fólks sem litar stefnu og málflutning Vox. En frambjóðendur Þjóðarflokksins hafa áður gengið lengra og hafnað samstarfi við Vox fyrir kosningar en samt myndað stjórn með flokknum eftir kosningar. Það á við um fylkisstjórnir í Valensíu, Castilla y León og Extremadura auk þess sem Vox ver minnihlutastjórnir Þjóðarflokksins vantrausti víðar gegn því að hafa áhrif á stefnuna.

Það stefnir því í kunnuglega stöðu á Spáni eftir kosningar þar sem gamla hægrið hefur tvo kosti, annars vegar að mynda últra hægri stjórn með ysta hægrinu eða mynda stjórn yfir miðjuna. En að sama skapi eru valkostir gamla vinstrisins fáir aðrir en stjórn með gamla hægrinu. Við höfum séð þetta á Norðurlöndunum á síðustu misserum. Niðurstaðan varð breið stjórn í Danmörku, últra hægristjórn í Finnlandi og stjórn gamla hægrisins varin vantrausti af ysta hægrinu í Svíþjóð.

Sósíalistar hafa unnið nokkuð á í kosningabaráttunni en þurfa mikla sveiflu til að hafa möguleika á að mynda stjórn með Sumar, nýju vinstrabandalagi sem varð til þegar Podemos fjaraði út, og vinstri sinnuðum flokkum frá Katalóníu, Baskalandi og víðar. Eins og staðan er í könnunum nú er tæpt að það takist. Meiri líkur eru á að Þjóðarflokknum dugi stuðn ingur Vox og hann þurfi ekki að leita til svæðisbundinna flokka.

Deigla spænskra stjórnmála

Spænsk stjórnmál hafa verið mikil deigla eftir efnahagshrunið 2008. Það sést t.d. á því að í kosningunum 2000, 2004 og 2008 var samanlagt fylgi Sósíalistaflokksins og Þjóðarflokksins 79-84%. Aðrir flokkar voru fyrst og fremst staðbundnir flokkar í Katalóníu og Baskalandi og svo Vinstribandalagið, sambanda gamla Kommúnistaflokksins og annarra róttækara sósíalískra flokka. Nú mælist samanlagt fylgi Þjóðarflokksins og Sósíalistaflokksins um 48%. Í millitíðinni hafa risið upp hreyfingar á borð við Podemos, Við getum, sem sameinaði inn í sig Vinstribandalagið en laðaði líka að sér stærri kjósendahóp. Og Ciudadanos, Borgarar, sem var hægri sinnuð umbótahreyfing. Þrátt fyrir að hafa haft mikil áhrif á stjórnmálin á eftirhrunsárunum og náð völdum í stórum borgum, hafa þessar hreyfingar fjarað út eða runnið inn í aðrar.

Fyrir utan stofnanaflokkana tvo eru það fyrst og fremst tveir flokkar sem sækja fylgi á landsvísu. Vox, Röddin, sem er flokkur af ysta hægrinu sem Santiago Abascal stofnaði 2014 og leiðir enn. Abascal hefur verið virkur í samstarfi ysta hægrisins í Evrópu og hefur Georgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu og formaður Bræðralags Ítalíu, sent áskorun til Spánverja um að kjósa Vox. Abascal sækir líka til Marine Le Pen og Þjóðfundar hennar í Frakklandi, Viktors Orban í Ungverjalandi og fleiri úr evrópskri hreyfingu létt-fasískra flokka sem upplifir sig í mikilli sókn víðast um álfuna.

Sumar gæti kallast Samstaða. Flokkurinn var stofnaður af Yolöndu Díaz, vinnumarkaðsráðherra og annars vara-forsætisráðherra Spánar. Hún er meðlimur í Kommúnistaflokki Spánar, sem bauð fram með Podemos, sem síðan myndaði núverandi stjórn með Sósíalistaflokknum. Díaz tók við af Pablo Iglesias, stofnanda Podemos, sem vara-forsætisráðherra þegar hann hætti í stjórnmálum og varð leiðtogi hreyfingarinnar en vildi umbreyta henni og myndaði Sumar með konum úr fylkisstjórnum og borgarstjórnum sem komu úr vinstrinu, án þess að hafa tengst Podemos.

Það hafa því orðið til eða styrkt sig flokkar vinstra megin og hægri við stofnanaflokkana tvo, sem ekki hafa jafn yfirgnæfandi stöðu og áður. Og flokkar í einstökum ríkjum, fylkjum eða héröðum hafa líka eflst á undanförnum árum, ekki bara í Katalóníu og Baskalandi heldur á Kanaríeyjum, í Galesíu, Navarra, Cantabríu og meira að segja Teruel-héraði Aragon. Þaðan náði flokkurinn Teruel er til manni á þing í kosningunum 2019 með 0,08% atkvæða. Á Spáni eru 50 kjördæmi með 2 og upp í 37 þingmenn hvert. Staðbundnir flokkar með lítið fylgi á landsvísu hafa því góða möguleika á að ná á þing, ekki síst þar sem pólitíkin í sumum ríkjum er fyrst og fremst um málefni viðkomandi svæðis.

Vinstrið og hægrið lak inn að miðju

En það að stofnanaflokkarnir tveir hafi gefið eftir og aðrir náð fótfestu vinstra og hægra megin við þá segir líka sögu. Þjóðarflokkurinn er arftaki Falangista á Spáni eins og Bræðralag Ítalíu er arftaki fasistana þar og eins og Lýðræðisflokkurinn á Ítalíu er kominn af ítalska kommúnistaflokknum í beinan legg, höfuðandstæðing fasista, þá var Sósíalíski verkamannaflokkurinn andstæðingur Franco eins og Kommúnistaflokkur Spánar, sem sefja má að Sumar sé komin af. Eins og á Ítalíu hafa tekið sviðið arftakar höfuðandstæðingar stjórnmálanna milli stríða.

Á Spáni gerðist það fyrr. Í fyrstu kosningunum eftir Franco-tímann, 1979, fékk Þjóðarbandalagið, forveri Þjóðarflokksins, lítið fylgi, rúm 8%, enda ekki mikil stemming fyrir samstarfsmönnum Franco. Kommúnistaflokkurinn fékk rúm 10% en Sósíalíski flokkurinn rúm 29%. Sigurvegari kosninganna varð Bandalag hinnar lýðræðislegu miðju, sem fékk rúm 34%. Eftir þetta héldu bæði Sósíalistaflokkurinn og Þjóðarflokkurinn inn að miðju, milduðu stefnu sína ef svo má segja og aðlöguðu að breyttum tíma í spænskum stjórnmálum. Og tóku yfir miðjuna, urðu líkari sósíaldemókratískum og kristilega demókratískum flokkum meginlandsins. Það er svo ekki fyrr en þegar sú stefna sem slíkir flokkar leiddu í Evrópu á nýfrjálshyggjuárunum hrynur 2008 að það verða til flokkar vinstra og hægra megin við þessa tvo. Kommúnistaflokkurinn bauð reyndar ætíð fram með einum eða öðrum hætti en náði ekki afgerandi fylgi fyrr en í innan Podemos og svo nú innan Sumar, ef fer sem horfir.

Heitar kosningar

Kosningar hafa ekki farið fram áður á Spáni um hásumar. Áætlað er að um 10 milljónir Spánverja verði í sumarleyfi á kjördag. Og þetta er ekkert venjulegt sumar, heldur sumar þar sem hitamet fjalla. Það er spáð 41°C hita í dag í Madrid og um 37°C á kjördag um næstu helgi. Þá er spáð 42°C hita í Sevilla. Það eru víða viðvaranir vegna gróðurelda og þurrka og loftlagsmál því ofarlega í áherslum allra flokka. Nema Vox, þar sem ekkert er um þau að finna.

En kosningabaráttan hefur líka snúist um réttindi transfólks til að skipta um kyn og kvenna til þungunarrofs. Þær deilur eru drifnar áfram af gagnrýni frá Vox og ótta Þjóðarflokksins við að missa fylgi þangað. Ný nauðgunarlög frá síðasta ári, sem nefnd hafa verið Aðeins já merkir já, hafa líka verið gagnrýnd, en vegna galla í lögunum þurfti að sleppa um þúsund dæmdum nauðgurum úr fangelsi. Pedro Sánchez, forsætiráðherra og formaður Sósíalíska verkamannaflokksins, baðst afsökunar og hraðaði leiðréttingum í gegnum þingið.

Sjálfstæðiskröfur Katalóna og íbúa annarra ríkja eða fylkja eru líka hitamál. Bæði Þjóðarflokkurinn og Vox hafa kallað Sánchez föðurlandssvikara fyrir að hafa gert samkomulag við aðskilnaðarflokka, ekki síst hinn vinstrisinnaða Sameiningarflokk Baska, Bildu, sem leiddur er af Arnaldo Otegi, sem sat í fangelsi á árum áður fyrir aðild sína að Etu, herskárri aðskilnaðarhreyfingu Baska. Ef Sánchez ætlar að halda völdum þarf hann að mynda bandalag við flokka sem eru með það á stefnuskrá sinni að kljúfa ríki út úr ríkjabandalagi Spánar.

En sem fyrr má reikna með að efnahagsmálin ráða miklu um úrslit kosninganna. Verðbólgu er nú aðeins 2% á Spáni, með því lægsta í Evrópa. En þar er hálfgerð stöðnun, aðeins um 0,5% hagvöxtur. Og atvinnuleysi er mikið, langvarandi og djúpstætt. 12.7% vinnufærra eru án vinnu á Spáni, hvergi fleiri í Evrópusambandinu.

Óbreytt tilboð nýfrjálshyggjunnar

Feijóo segist ætla að efla efnahaginn með skattalækkunum, eins og hægrimönnum er tamt að lofa. Hann lofar lækkun tekjuskatts á laun upp að um 2,8 m.kr. á mánuði sé miðað við ólíkt verðlag hér og á Spáni. Og fella niður hvalrekaskatta sem ríkisstjórn Sánchez lagði á þau fyrirtæki sem græddu mest á orkukreppunni, verðbólgunni og annarri óáran sem almenningur leið fyrir. Feijóo lofar líka erlendri fjárfestingu, sem enn er seld kjósendum sem jákvæð lausn. Því er haldið frá kjósendum að þeir sem koma með pening inn í hagkerfið vilja síðan taka út miklu meiri pening síðar meir. Það er eðli kapítalískra fjárfestinga.

Ef að líkum lætur má því búast við ríkisstjórn nýfrjálshyggju og afturhalds á Spáni eftir kosningarnar, ríkisstjórn sem ætlar sér ekki aðeins að draga til baka efnahagslegan ávinning af verkalýðsbaráttu síðustu aldar heldur einnig að skrúfa ofan af sigrum mannréttindabaráttu síðustu áratuga.

Myndin er af auglýsingaspjaldi úr kosningabaráttunni. Á því stendur: Sánchez hefur sett hundruð þessara skrímsla á götuna.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí