Við fyrstu sýn þá myndu flestir telja að sundlaugin í Húsafelli væri nokkuð hefðbundin sveitalaug. En svo er ekki. Hún er „upplifunarlaug“ og því kostar sundferðin 3500 krónur. Ragnar Þór Pétursson, fyrrverandi formaður Kennarasambands Íslands, vekur athygli á þessu á Facebook og segir að gestir upplifi vissulega eitt, græðgi.
„Nú er farið að rukka 3500 krónur ofan í sundlaugina í Húsafelli á þeim forsendum að hún sé „upplifunarlaug“ en ekki almenningslaug. Sem ferðamaður sem kaupir sig ofan í slíkt fyrirbæri ertu líklega að fara að upplifa samveru með öðrum ferðamennum sem eru nægilega auðugir til að láta fáránlegan verðmiða ekki stoppa sig. Farir þú hinsvegar í almenningslaug muntu uplifa mannlífið í landinu, hitta fólk frá öllum heimshornum, rekast á eldri borgara og öryrkja sem hafa frá ýmsu að segja og skoðanir á flestum hlutum. Þú upplifir samfélag, nánd og færð heiðarlega sýn á land og þjóð,“ skrifar Ragnar.
Hann segir að þetta sé að sjálfsögðu ekkert annað en græðgi. „Upplifunarferðamennska er útskúfunarferðamennska. Hún snýst um græðgi fyrst og fremst. Græðginni er pakkað inn í umbúðir sýndarmennsku.“
Ragnar segir að þessi græðgi sé hægt og bítandi að rústa sundlaugamenningu Íslands. „Það er erfitt að sjá að samfélag okkar verði hætishót betra við það að eltast við græðgina eins og við erum upptekin af að gera. Næstum allar náttúrulaugar og manngerðar samfélagslaugar (t.d. ostakarið á Húsavíkurhöfða og gufan við Laugarvatn) eru að verða að sömu ógeðslegu túristaböðunum þar sem flísar og posar hafa leyst af hólmi mannlega samveru og sand á milli tánna. Allt undir formerkjum upplifana – sem á sama tíma verða stöðugt einhæfari og fátæklegri.“