Þó Guðmundur sé ríkur þá eru draumórar hans alveg jafn vitlausir

Gudmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi Kerecis, fór mikinn á Sprengisandi á Bylgjunni í gær en þrátt fyrir að hafa selt fyrirtæki sitt í vikunni þá fór mest fyrir skoðunum hans á samgöngumálum. Guðmundur virðist vera gott dæmi um að þó menn hafi náð að auðgast, þá eru þeir engir allsherjargoðar. Guðmundur virðist trúa á þann draumóra að sjálfkeyrandi bílar séu framtíðin, nokkuð sem hægrimenn hafa haldið að væri handan við hornið síðustu 10 ára. Þrír menn úr mismunandi áttum hafa í dag stungið niður penna og allir slá þessa draumóra Guðmundar af borðinu.

Guðmundur kom inn á samgöngumál í samhengi við að fyrirtæki hans er staðsett á Vestfjörðum, en hann segir samgöngur hafa sett strik í reikningin. Svo fór hann að tala um Borgarlínuna í Reykjavík. „Svo er verið að setja 250 milljarða í Borgarlínu sem er bara gömul tækni. Tími almenningssamgangna er búinn. Nú er þetta sjálfkeyrandi bílar og deilibílar. Í stórborgum út í heimi er eftirspurn eftir almenningssamgöngum að minnka. Hún er að færast yfir í Uber og Lyft. Þessir bílar verða sjálfkeyrandi eftir nokkur ár. Það mun enginn koma til með að eiga bíla eftir nokkur ár, það mun enginn til með að nota almenningssamgöngur,“ sagði Guðmundur.

Líkt og fyrr segir hefur þetta vakið nokkur viðbrögð og flestir segja þetta rangt hjá honum. Björn Teitsson, sérfræðingur hjá Skipulagsstofnun, segir þetta þvælu á Twitter. „Nú veit ég talsvert um þessi mál, er menntaður í þeim og starfa við þau. Ég get sagt ykkur; það verður aldrei einhvers konar kerfi sjálfakandi bíla sem tekur við af öðrum samgöngum. Það mun aldrei gerast. Ástæðurnar eru mjög margar fyrir því, og ekkert endilega að tæknina skorti,“ skrifar Björn og heldur áfram:

„En tökum t.d. bara tvær ástæður. Bílafyrirtæki eru einn öflugasti lobbýismi í heimi, ef ekki sá öflugasti. Bílafyrirtæki vilja selja þér bíla, þau vilja ekki selja heilum borgum e-s konar sósíalískt kerfi sem gagnast „öllum“. Þar fyrir utan myndi engin borg vilja kaupa svo óskilvirkt né kerfi þegar við erum nú þegar með kerfi sem virka, eins og t.d. lestarsamgöngur, metró, tramma, strætisvagna, hjólainnviði og gönguleiðir. Sem eru btw vinsælustu ferðamátar heims og þeir sem gera fólk hamingjusamast.“

Björn nefnir svo aðra ástæðu: „Ástæða nr. 2: Ríkir hvítir karlar, sem tala oft um sjálfakandi bíla, vilja sjálfir eiga og oftar en ekki aka sínum bíl. Og NB, það er ekkert að því! Endilega, keyra bíl ef það er það sem þú vilt. En staðreyndin er sú að fullt af fólki vill það ekki. Vill ekki ferðast í bíl, vill ekki aka bíl. En neyðist til þess. Við eigum, alltaf, að reyna okkar allra besta við að gera fólki kleift að ferðast eins og það helst vill, sérstaklega ef það vill ferðast á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt sem bætir einnig hamingju, efnahag og heilsu. Það eru allar tæknivæddustu, farsælustu og bestu borgir heims að gera. Engin borg er að stefna að e-s konar sósíalísku kerfi sjálfakandi bíla og leggja niður almenningssamgöngur. Engin. Og það verður aldrei. Þessi umræða var löngu búin. Og það er ástæða fyrir því.  Að öðru leyti er ég mjög sammála um að bæta vegi á Vestfjörðum, og um allt land! Mjög sammála því.“

Annar maður segir einnig að það sem Guðmundur fullyrðir sé þvæla og hann verður seint sakaður um að vera vinstri maður. Það er Sjálfstæðismaðurinn Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri opinbera hlutafélagsins Betri samgangna, sem hefur yfirumsjón með framkvæmdum vegna uppbyggingar samgangna. Davíð segir í viðtali við Viðskiptablaðið um hugmyndir Guðmundar: „Ef þú myndir taka hringinn á allar verkfræðistofur í Reykjavík og á Norðurlöndunum og spyrja samgöngusérfræðingana þar um þetta þá veit ég ekki um neinn sem myndi halda þessu fram.“

Að lokum fer svo Stefán Pálsson yfir þessa draumóra Guðmundar í sögulegu samhengi. Hann líkir þessu við „miðlæga eldhúsið“, hugmynd um að enginn þyrfti lengur að hafa eldhús í sínu húsi, heldur myndi nýta sér „miðlægt eldhús“. Sú hugmyndi, augljóslega, varð aldrei að raunveruleika. Hér fyrir neðan má lesa pistil Stefáns í heild sinni.

Hér er fréttamoli upp úr viðtalinu á Sprengisandi við athafnamanninn fyrir vestan sem snögglega er orðinn landsfrægur. Hér ræðir hann um samgöngur framtíðar og vaknar þá gamli tæknisögumaðurinn.

Talið berst að deilibílum: „Þessir bílar verða sjálfkeyrandi eftir nokkur ár. Það mun enginn koma til með að eiga bíla eftir nokkur ár, það mun enginn til með að nota almenningssamgöngur.“

Hér komum við að kunnuglegu stefi varðandi nýja tækni. Henni fylgja oft spádómar um að hún hljóti að verða almenningseign og skapa útópíu innan skamms tíma. Gott dæmi er rafvæðing heimilistækjanna í byrjun tuttugustu aldar. Þá var því spáð að afleiðingin hlyti að verða sameiginleg miðlæg eldhús í nútímalegum fjölbýlishúsum framtíðar. Engin glóra var talin í því að hvert einasta heimili færi að koma sér upp fokdýrum búnaði sem þyrfti ekki að nota nema í skamma stund í hvert sinn. Stærðarhagkvæmni og þægindi myndu gera það að verkum að enginn myndi vilja fórna drjúgum hluta íbúðar sinnar í ófullkomið eldhús sem sífellt þyrfti að þrífa á meðan hægt væri að elda við fullkomnustu aðstæður (annað hvort sjálfur eða láta matráðinn um málið) í kjallaranum og senda fullbúna réttina með matarlyftu í hverja íbúð.

Það má lengi rífast um hvers vegna útópían um miðlægu eldhúsin gekk ekki eftir. Sum myndu einfaldlega segja að hugmyndin hafi verið slöpp af því að það sé þrátt fyrir allt skemmtilegra að eiga sitt eldhús. Við sósíalkonströksjónistarnir (félagsleg smiðastefna virkaði aldrei almennilega sem þýðing) bendum á víxlmótunaráhrif samfélags og tækni. Áhrifin eru aldrei bara í aðra áttina. Menningin getur aldrei tamið tæknina fyllilega og sveigt alfarið undir sinn vilja og á sama hátt eru takmörk fyrir því hvað ný tækni getur teygt samfélagið langt til breytinga. Rótgróin mynstur heimilisrekstrar lognuðust ekki út af þótt General Electric byggi til sniðuga græju.

Marxistarnir eru svo fljótir að benda á efnahagslegu hagsmunina. Samkvæmt þeim var það augljóslega miklu arðbærara fyrir kapítalismann að selja fimmtíu fjölskyldum fimmtíu ófullkomnar eldavélar en þrjár stærri og fullkomnari. Harðsnúnustu marxistarnir kenna meira að segja kapítalismanum um hækkaða skilnaðartíðni síðustu áratuga – þar sem það fjölgi heimiliseiningunum enn frekar og stækki markaðinn!

Hvort heldur sem við notum sósíalkonströksjónalíska sjónarhornið eða Marxismann þá eru amk ástæður til að setja spurningamerki við spádóma um að fullkomnari sjálfkeyrandi bílar hljóti að leiða til þess að við verðum öll jöfn og enginn nenni lengur að eiga bíl. Það fæli í sér mikið vanmat á klækjum kapítalismans.

Allt eins líkleg þróun, ef við tökum tillit til sögunnar og gefum okkur að tæknikerfið sé yfir höfuð raunhæft, væri snjallbílakerfi þar sem mikill og sjáanlegur munur væri á efnahag og stéttarstöðu notendanna. Flottari og þægilegri bílar fyrir þá ríku þar sem best og fínast væri að eiga sinn eigin sjálfkeyrandi bíl og helst marga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí