Á dögunum var fullyrt í flestum fjölmiðlum, þar með talið RÚV, að Bandaríkjamenn hafi aldrei eytt meiri pening á Íslandi en nú. Það er hins vegar ekki rétt, í raun hafa þeir aldrei eytt minna á Íslandi, það er að segja í seinni tíð. Líkt og oft áður þá var þessi frétt byggð á fréttatilkynningu, í þetta skiptið frá Rannsóknarsetri verslunnarinnar. Rannsóknarsetrið, sem er stýrt af bróður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur Sjálfstæðiskonu, Magnúsi Sigurbjörnssyni virðist ekki hafa rannsakað málið nægilega vel.
Túristi.is greinir frá því að rannsóknasetri hafi einungis horft til vaxandi kortaveltu bandarískra ferðamanna í júní en ekki horft á hversu miklu fleiri þeir eru nú en áður. Hlutfallsleg eyðsla bandarískra ferðamanna hefur þannig dregist saman um þriðjung samanborið árið í fyrra. Bandarískir ferðamenn voru í fyrra um 50 þúsund en í ár um 100 þúsund. Þannig var eyðsla á hvern Bandaríkjamann ríflega 200 þúsund í fyrra en einungis 140 þúsund í ár. Túristi greinir einnig frá því að þessi meinti metmánuður rannsóknarsetrisins í ár komi einnig illa út í samanburði við júní á árunum 2016 til 2019.
Þegar RÚV spurði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í gær um hvað gæti útskýrt þessa miklu aukningu, sem er í raun engin, stóð ekki á svörum:
„Bæði er það nú þannig að hlutur Bandaríkjamanna hefur orðið mjög sterkur á síðustu árum í heildinni. Og við erum að sjá það í markaðssetningunni í faraldrinum þá tókst okkur mjög vel upp gagnvart Bandaríkjamarkaði sem hefur skilað sér í það að bandarískir ferðamenn eru að fara víðar um landið og stoppa í fleiri nætur heldur en þeir gerðu áður. Það hefur mikil áhrif á þessar tölur.“