Tíminn sem Rólex-úrið hans Gumma Kíró mælir er tími kapítalismans og andskotans

Í gær hóf Egill Helgason fjölmiðlamaður talsverða umræðu um þegar hann velti því fyrir sér hvaðan aukin efnishyggja kæmi. Hann setti það í samhengi við unga listamenn sem stærðu sig af því að hafa keypt rándýra merkjavöru, svo sem Rólex-úr. Hér má lesa nánar um það. Guðmundur Brynjólfsson, djákni á Selfossi og rithöfundur, segir að þessi efnishyggja komi frá andskotanum, sem í hans huga er samheiti yfir allt það vonda. Í raun má segja að Guðmundur lýti svo á að kapítalismi og andskotinn sé sami hluturinn.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Guðmundar um kapítalista andskotans.

Borgari nokkur, Egill Helgason fjölmiðlamaður til margra ára, spurði hvaðan öll þessi efnishyggja væri komin sem nú tröllríður samfélaginu?

Ég svaraði því til að hún væri komin frá andskotanum. Bætti því við að í hans félagskap vildu svo ótal margir vera. Uppskar svar þetta nokkur viðbrögð. Þar á meðal bros- og hláturkarla.

En mér var ekki hlátur í hug þegar ég skrifaði svar mitt. Þessi skoðun mín er sett fram í fyllstu alvöru. Ég veit ekki hvað veldur því að fólki finnst þetta svar mitt fyndið, kannski er það vegna þess að fólk sér fyrir sér ófreskju með klaufir, horn og hala – telur að ég sé að tala um fjandann í þjóðsögunum. Óvininn sem vildi ná sálinni hans Jóns úr skjóðu kerlingar í kvæði Davíðs Stefánssonar. En svo er auðvitað ekki.

Ég er að tala um illskuna, skeytingarleysið, mannfyrirlitninguna, græðgina, misskiptinguna, hjómið og tilgangsleysið. Andskotinn er ágætur samnefnari fyrir allt þetta – og reyndar meira til.

Efnishyggjan er ekki bara í úrinu hans Gumma kíró, og kannski minnst þar og þá er hún ekki heldur viðamest í sólgleraugunum hans Gústa B. En hún speglast í þeim gleraugum og tíminn sem úrið hans Gumma mælir er tími kapítalismans. Hinn tilgangslausi og verðlausi tími, sem reyndar er alls ekki til, en efnishyggjan skapaði fyrir nokkrum öldum til þess að geta þrælað út fólki samkvæmt nákvæmum mælingum.

Efnishyggjan snýr hjólinu sem við erum stödd í, hvort heldur okkur líkar betur eða verr, og hún kennir okkur að allt sé fallt. Samskipti fólks líka. Þau fara fram í myndum. Í hamingjulandinu sem efnishyggjan boðar. En vitaskuld er hamingjulandið ekki land heldur mynd, mynd sem eykur á allt það slæma sem ég taldi upp hér að ofan. Gústi B. og Gummi kíró eru bara peð á þeirri mynd og í raun merkilegt að þeir rati í umræðuna.

Það var stórt viðtal við Þorstein Víglundsson í Morgunblaðinu á dögunum, og reglulega er spjallað við einhverja álíka mógúla sem ekkert hafa fram að færa annað en arðrán. Kannski ekki með beinum hætti sem vondir menn, heldur sem agentar þess að best sé að stækka áðurnefnda mynd, auka á keppnina sem hún skapar, auka á vanmáttinn sem hún veldur, auka á blekkinguna sem hún sýnir. Auka á samskiptaleysið og firringuna sem birtist í því að ánægjan er aldrei hér og nú heldur ætíð í næstu ferð, í næsta viðburði, í næsta eitthvað-bara-kannski-annað-betra-þar!

Ófullnægjan er nefnilega uppáhald efnishyggjunar, gatið í sálinni sem ætíð þarf að fylla með einhverju „sem er í boði og kostar …“. Efnishyggjan býr ófullnægjuna til, selur inn á hana og selur inn í hana. Selur lausnir við henni, lausnir sem skapa enn frekari ófullnægju – það vill segja gervilausnir.

Og hvaðan kemur hún þá? Að því spurði jú Egill Helgason. Jú, hún kemur úr sjálfri sér, þessu:

Skeytingarleysinu, mannfyrirlitningunni, græðginni, misskiptingunni, hjóminu og tilgangsleysinu. Hún er sköpuð af illskunni sem leggur allt á vog efnislegra verðmæta – þig, mig og sálarheill þjóðar

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí