Á milli 20.000 og 50.000 íbúa Úkraínu hafa misst handlegg eða fótlegg frá því að stríðið hófst, fyrir um 17 mánuðum síðan. Þetta kemur fram í umfjöllun Wall Street Journal á þriðjudag.
Greinin hefst á sögu Ruslönu Danilkinu, 19 ára gömlum hermanni, sem varð fyrir árás nálægt víglínunni í grennd við Zaporizhzhia, í suðaustur-hluta Úkraínu. Sprengjubrot rifu vinstri fótlegg hennar af við hné. Hún greip um lærbeinið og horfði á sjúkraliða bera fótlegginn um borð í bílinn sem flutti hana á sjúkrahús. „Ég hélt á beininu berum höndum“, sagði Ruslana, „og gerði mér grein fyrir að líf mitt yrði aldrei samt aftur.“
Varlega farið með nákvæmar tölur
Talan um fjölda þeirra sem misst hafa útlimi, 20–50 þúsund, er svo gróflega áætluð, að sögn miðilsins, þar sem yfirvöld í Kænugarði vilji ekki deila nákvæmum tölum um mannfall, af ótta við að þær upplýsingar myndu draga þrótt úr íbúum landsins. Að sögn miðilsins gæti talan verið enn hærri, enda séu margir ekki aflimaðir fyrr en vikum eða mánuðum eftir að þau særast, og að því loknu taki að auki nokkurn tíma að færa stöðu sjúklinga til bókar.
Sagt er að framan af stríðinu hafi árásir stórskotaliðs og sprengiflaugar verið helstu orsakir aflimana, en að versta tjónið verði nú ekki síður af völdum jarðsprengja sem liggi nú á víð og dreif eftir hinni þúsund kílómetra löngu víglínu.
Blaðið nefnir til samanburðar að í allri fyrri heimsstyrjöld hafi 67 þúsund Þjóðverjar og 41 þúsund Bretar misst útlimi, þegar fá önnur úrræði voru í boði til að afstýra dauðsfalli af völdum sýkinga. Í innrásarstríðum Bandaríkjanna í Írak og Afganistan segir miðillinn að færri en tvö þúsund bandarískir hermenn hafi misst útlimi. Tölurnar frá Úkraínu varpi ljósi á hið gríðarlega manntjón sem innrás Rússa hafi í för með sér.
Mikilvægi stoðtækja
Í fréttatilkynningu frá íslenska stoðtækjaframleiðandanum Össuri ehf í maí sl., er miðað við lægri mörk þessarar tölu, og áætlað að fjöldi hermanna og óbreyttra borgara sem þurfa á stoðtækjum að halda séu í kringum 20 þúsund. Össur skrifaði þá undir rammasamkomulag um áframhald samstarfs við endurhæfingarspítala í Úkraínu. Fyrirtækið hefur, samkvæmt tilkynningunni, bæði gefið stoðtæki og þjálfað á annan tug úkraínskra sérfræðinga á sviðinu, en með nýja samkomulaginu var áréttaður vilji „beggja aðila að ganga enn lengra í að stofna til viðskiptasambands“ til að þjónusta fleiri sjúklinga með lausnum Össurar. Ekki náðist á talsmenn fyrirtækisins á þessu sviði í síma við vinnslu fréttarinnar, vegna sumarleyfa.
Stærsti gervilimaframleiðandi heims er þýska fyrirtækið Ottobock. Samkvæmt frétt WSJ gera fulltrúar þess ráð fyrir að fjöldi þeirra Úkraínubúa sem þegar eru limlestir standi nær 50.000 og byggja það viðmið á gögnum frá stjórnvöldum og samstarfsaðilum á heilbrigðissviði.