Á fimmtudag birti Viðskiptablaðið viðtal við Jón Guðna Ómarsson, hinn nýja bankastjóra Íslandsbanka, en hann tók við starfinu af Birnu Einarsdóttur í lok júní, eftir að athugun Fjármálaeftirlitsins leiddi í ljós að brotin hefðu verið lög við sölu á hlutabréfum ríkisins í bankanum til handvalinna einkaaðila. Í viðtalinu segir bankastjórinn að stjórnendur bankans láti eins og bankinn sé einkafyrirtæki, þrátt fyrir að ríkið eigi enn yfir 40 prósenta hlut í honum.
Mistök bankans að vanmeta orðsporsáhættu
Í viðtalinu segir hinn nýi bankastjóri að það hafi verið mistök bankans að vanmeta „orðspors- og rekstraráhættu vegna útboðsins“. Nú sé brugðist við því með því að ráðast í „víðtækar og umfangsmiklar úrbætur til að styrkja áhættumenningu af öllu tagi, þvert á svið bankans.“ Aðspurður um hvernig það sé gert segir hann átaksverkefni í gangi þar sem „farið er vel yfir málin“ og „still upp hvernig áhættumenningin skuli styrkt og henni svo viðhaldið til framtíðar.“ Þá komi það í hlut stjórnenda að „passa upp á hana og að hún haldi áfram að styrkjast en ekki öfugt“.
Þannig kemur ekki margt fram í þessu viðtali sem hönd á festir. Eins og blaðamaður Viðskiptablaðsins nefnir er áhættumenning fyrirtækis „heldur illmælanleg, og ljóst að henni verður ekki breytt yfir nótt.“
Ríkisbankinn sem hélt hann væri einkafyrirtæki
Á meðal þeirra óljósu yrðinga sem birtast í viðtalinu er þó ein nokkuð athygliverð fyrir áhugafólk um sögu íslensku viðskiptabankanna. Aðspurður um söluferli bankans og stöðu hans nú, þegar ríkið heldur enn á 42,5% hlut í bankanum og er þarmeð stærsti hluthafi hans, svarar bankastjórinn því til að hann og samstarfsólk hans leiði þá staðreynd að mestu leyti hjá sér og láti eins og bankinn sé einkafyrirtæki:
„Ég held að það sé mjög fátítt að það að við séum í ríkiseigu hafi haft áhrif á ákvarðanir innan bankans. Við höfum kannski fundið minna fyrir því hérna bara vegna þess að það er okkur í blóð borið að vera í einkaeigu og það höfum við almennt verið sögulega séð. Það er bara í menningunni hérna hjá okkur að þetta sé einkafyrirtæki.“
Mikilvægi þess að hunsa óþægilegar staðreyndir
Allt frá efnahagshruninu 2008, þegar viðskiptabankarnir þrír voru snarlega færðir í eigu almennings, hefur sú krafa verið uppi að einn eða fleiri bankanna skyldu þá reknir í þágu samfélagslegra markmiða, en ekki í ágóðaskyni eins og einkafyrirtæki. Þó að brátt verði liðin fimmtán ár frá þessum atburðum, þá leggja stjórnvöld enn áherslu á að viðhalda þeirri ásýnd að eignarhald almennings í gegnum ríkið sé tímabundið ástand sem best sé að horfa framhjá, skekkja sem brátt verði leiðrétt, og þurfi því ekki að taka tillit til í daglegum rekstri eða markmiðum bankanna.
Ummæli bankastjórans sæta því ekki tíðindum nema að því leyti sem þau staðfesta að þessi skilningur ríkir einnig innan bankans: að bönkum í opinberri eigu sé það hollast að ímynda sér að þeir séu einkafyrirtæki. Hvað nákvæmlega leiðir af þeirri ímyndun, í huga bankastjórans og undirmanna hans, hvaða áhrif hann telur að það gæti haft á ákvarðanir við rekstur bankans, að játast þeirri staðreynd að hið opinbera á stærstan hlut í honum, það kemur ekki fram í viðtalinu.