BBC kynnir lausn við dýrtíðinni: Að selja kjötsneið af sjálfum sér

Undir lok júlímánaðar var á dagskrá BBC ný heimildamynd sem bar titilinn: Gregg Wallace: The British Miracle Meat – eða Gregg Wallace: breska kraftaverkakjötið. Wallace, sem er þekktur fyrir að stýra raunveruleikasjónvarpsþáttunum MasterChef, kynnti þar til sögunnar nýja þróun á sviði matartækni: „Þetta er verksmiðjuframleitt mannakjöt,“ sagði hann og sýndi áhorfendum steik. „Það er rétt, prótín úr frumum mannfólks“.

Hann sagði að Good Harvest væri heiti fyrirtækis sem framleiddi sex tonn af mannakjöti á dag. Hann sýndi hvernig kjötið væri ræktað í tönkum fullum af næringu, þar sem 30 kílógrömm yrðu til úr þunnum sneiðum sem manneskjur legðu til gegn greiðslu.

Verðbólga hvetji eldri borgara til að selja af sér sneið

Wallace bauð matreiðslumeistaranum Michel Roux Jr. að bragða á nokkrum steikum með sér. Þeir ræddu um óhugnaðinn sem fylgdi tilhugsuninni, og veltu fyrir sér hvort kjöt sem ræktað væri úr sneiðum af fólki frá norðaustur-Englandi bragðaðist ólíkti kjöti úr sneiðum af fólki frá suðausturhluta landsins.

Þá ræddi Wallace við 67 ára gamla konu sem sagði að verðbólga og aukinn kostnaður við daglegt líf hefði fengið hana til að selja af sér sneið. „Þú veist að það er eitthvað að þegar þú þarft að stökkva um borð í strætó til að láta skera kjötsneið af handleggnum þínum fyrir pening,“ sagði hún.

Loks kom fram að fyrirtækið hygðist bjóða sérstaka úrvalsvöru úr kjöti sem framleitt væri úr „framlögum“ frá börnum. Um það leyti segir í frétt BBC um þáttinn að áhorfendur hafi gert sér grein fyrir að hér væri gabb á ferð. Heimildaþátturinn var svokallað „mockumentary“, þessi afurð er ekki til, í það minnsta ekki á vegum fyrirtækisins, sem er það ekki heldur.

Vildu reita áhorfendur til reiði

Þátturinn sótti að sögn framleiðenda innblástur í esseyju rithöfundarins Jonathan Swift, „A Modest Proposal“ eða Hógvær tillaga, frá árinu 1729. Þar lagði hann til að fátækir íbúar Írlands gætu selt efnaðra fólki börn sín sem fæðu.

Þáttastjórnandinn Tom Kingsley sagði í viðtali við BBC Culture að þættinum hefði verið ætlað að „hæðast að því hvernig dýrtíðin hefði verið tekin í sátt. Við vildum að áhorfendur reiddust því hve ósanngjarnt land okkar er orðið, og hversu hræðilegt það er að við sættum okkur við þá stöðu mála.“

Verðbólga í Bretlandi mældist 7,9 prósent á tólf mánaða tímabilinu frá júní 2022 til júní 2023. Samkvæmt Hagstofunni var verðbólga neysluverðs án húsnæðis á Íslandi á sama tímabili, nákvæmlega sú sama.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí