Betri samgöngum stjórnað af Sjálfstæðisflokknum eins og Sorpa og Strætó

Opinbera hlutafélagið Betri samgöngur sem leggja á Borgarlínu er fyrst og fremst stýrt af fólki úr Sjálfstæðisflokknum. Fyrirtækið er 99,99% í eigu ríkisins, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga þar aðeins örsmáa hluti. Stjórn félagsins er að mestu skipuð fólki úr Sjálfstæðisflokki, þar er t.d. enginn sem tengja má Samfylkingunni, sem hefur kannski verið sá flokkur sem mesta áherslu hefur lagt á lagningu Borgarlínu.

Formaður stjórnar Betri samgangna er Árni M. Mathiesen fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Aðrir stjórnarmenn eru Ásthildur Helgadóttir sem var bæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna í Kópavogi, Eyjólfur Árni Rafnsson formaður Samtaka atvinnulífsins, Guðrún Ögmundsdóttir, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneyti Bjarna Benediktssonar, Páll Björgvin Guðmundsson, fyrrum bæjarstjóri Fjarðarbyggðarþegar Framsókn og Sjálfstæðisflokkur voru í stjórn og Ólöf Örvarsdóttir, sviðstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. Þau sem eru með pólitísk tengsl eru með tengsl við Sjálfstæðisflokkinn.

Og það er því ekki að undra að stjórnin réð Davíð Þorláksson, innvígðan og innmúraðan Sjálfstæðisflokksmann, sem framkvæmdastjóri.

Betri samgöngur eru framkvæmdaaðili um eitt mikilvægasta málefni höfuðborgarsvæðisins, uppbyggingu samgangna. Og framkvæmdin er rekin frá Valhöll.

Það sama má segja um Strætó, þar er Sjálfstæðisflokkurinn með meirihluta í stjórn. Í henni sitja: Magnús Örn Guðmundsson formaður, Sjálfstæðisflokksmaður af Seltjarnarnesi; Alexandra Briem, varaformaður, Pírati úr Reykjavík; Andri Steinn Hilmarsson, Sjálfstæðisflokksmaður úr Kópavogi; Kristín Thoroddsen, Sjálfstæðisflokkskona úr Hafnarfirði; Hrannar Bragi Eyjólfsson, Sjálfstæðisflokksmaður úr Garðabæ og Lovísa Jónsdóttir, Viðreisnarkona úr Mosfellsbæ.

Þarna eru fjögur úr Sjálfstæðisflokknum, ein úr Viðreisn og önnur úr Pírötum, sem fara með rekstur almenningssamgagna á höfuðborgarsvæðinu.

Sorpa er líka framkvæmdaaðili mikilvægrar starfsemi. Þar sitja í stjórn fjórir Framsóknarmenn: Valdimar Víðisson fyrir Hafnarfjörð, Árelía Eydís Guðmundsdóttir fyrir Reykjavík, Aldís Stefánsdóttir fyrir Mosfellsbæ og Orri Vignir Hlöðversson fyrir Kópavog. Og tvo úr Sjálfstæðisflokknum: Guðfinnur Sigurvinsson fyrir Garðabæ og Svana Helen Björnsdóttir fyrir Seltjarnarnes.

Áhrif Sjálfstæðisflokksins eru því mikil á líf borgarbúa þótt flokkurinn hafi ekki fengið gott brautargengi í kosningum síðan einhvern tímann á síðustu öld. Þetta tekst flokknum í kringum 0hf-væðingu opinbers reksturs og útvistun.

Myndin er samsett, sýnir Davíð Þorláksson, Árna M. Mathiesen og Eyjólf Árna Rafnsson fyrir framan sýn listamannsins af mögulegri borgarlínu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí