„Ég held að menn hafi tekið fulldjúpt í árinni og sumum líður virðist vera á stundum eins og öll sund séu lokuð en það er að sjálfsögðu ekki þannig. Það breytir því ekki að þinglokin voru viss vonbrigði fyrir okkur í þingflokki Sjálfstæðismanna og ég held að það eigi við um hina stjórnarflokkana reyndar líka,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Mogga dagsins um kröfur marga Sjálfstæðisflokksmanna um uppstokkun í ríkisstjórninni, meiri áhrif Sjálfstæðisflokksins í stefnu ríkisstjórnarinnar og jafnvel nýjar kosningar.
Bjarni segir stjórnarliða hafa verið opna um að þetta væri óvenjulegt samstarf en þessi spil hafi menn fengið eftir kosningarnar 2017 og 2021. „Sumir hafa sagt að það eigi bara að kasta þeim aftur á borðið og biðja um að það sé gefið upp á nýtt. Ég er ekki sannfærður um að það sé skynsamlegt. Ég held að það sé til mjög mikils vinnandi að halda stöðugleika í stjórnmálum á Íslandi og gefast ekki upp þótt á móti blási.“
Bjarni segist halda að kjósendur kunni á endanum að meta þrautseigju en auðvitað sé það þannig að ekki sé hægt að fórna hverju sem er fyrir stöðugleikann. „Við vitum hvaða mál það eru sem við viljum helst setja á oddinn. Ég mun tala inn í minn hóp fyrir því að standa saman og halda áfram að berjast.“
Þessar yfirlýsingar eru í takt við það sem bræðurnir og blaðamennirnir Gunnar Smári og Sigurjón Magnús Egilsson sögðu í vikulegu spjalli þeirra um pólitíkina fyrir helgi. Að boðskapur Bjarna yrði akkúrat þessi, að völdunum sem flokkurinn hefur núna væri ekki hættandi fyrir óvissa stöðu. Þeir bræður mæta við Rauða borðið aftur í kvöld og munu meta stöðuna í lok skammvinnar stjórnarkreppu um mitt sumar, knúna áfram af villiköttum Sjálfstæðisflokksins sem ættu að sjá nú að forystan tekur lítið sem ekkert mark á.