Bjarni með glærusýningu í aðdraganda flokksráðsfundar Sjálfstæðisflokksins

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur verið harðlega gagnrýndur af eigin flokksfólki fyrir lausatök í ríkisfjármálum, fyrir að reka ríkissjóð með miklum halla í verðbólgu og þenslu. Þessi gagnrýni hefur ekki aðeins komið innan úr flokknum, heldur frá samtökum fyrirtækja og viðskiptablöðunum og frá Seðlabankanum. Og frá vinstri og frá verkalýðshreyfingunni, þar sem gagnrýnt er að lágskattastefna gagnvart fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum grafi undan opinberri þjónustu og millifærslukerfum og skapi halla sem komandi kynslóðir þurfa að borga fyrir með enn lakari opinberri þjónustu.

Bjarni svaraði þessari gagnrýni með glærusýningu rétt fyrir hádegið, sem erfitt er að tengja við annað en flokksráðsfund Sjálfstæðisflokksins sem hefst á morgun. Bjarni var ekki að kynna fjárlög og ekki heldur ríkisreikning, hann var aðeins að draga fram svör við þeirri gagnrýni sem hann hefur setið undir.

Og ekkert nýtt kom fram á fundinum. Það er vitað að þegar þensla og verðbólga er meiri en fjárlög gera ráð fyrir þá aukast tekjurnar hraðar en útgjöldin. Til verður það sem kalla mætti verðbólgufroða í ríkisbókhaldinu. Um skamman tíma virðist sem staðan batni en hún er aðeins að batna vegna þess að tekjurnar af fleiri krónum í hagkerfinu koma fyrr inn en að þörfin skapast fyrir fleiri krónur útgjaldamegin. Þetta skapar það sem kalla mætti falska hugmynd um bætta afkomu.

Á endanum skapast þörf fyrir aukin fjárútlát þar sem launin sem ríkið borgar þurfa að hækka í takt við launin sem ríkið fær meiri tekjuskatt af. Verðbólga sem kemur fram í auknum virðisaukaskatti kallar á aukin útgjöld þar sem verðbólgan birtist líka í vöru og þjónustu sem ríkið kaupir. Og auknar tekjur vegna ofþenslu ferðaþjónustunnar kalla fljótlega á útgjöld vegna styrkingu innviða sem ferðaþjónustan notar og eyðir.

Bjarni ræddi þetta ekki á fundinum í morgun, heldur lét í það skína að minni halla á ríkissjóði mætti rekja til hagstjórnar hans og ríkisstjórnarinnar.

Bjarni boðaði aukið aðhald í ríkisrekstrinum, uppsagnir starfsfólks og almennan sparnað. Það voru flest óútfærðar hugmyndir, aðeins krafa um flatan niðurskurð yfir línuna, nema hvað Bjarni tók fram að svokölluðu framlínufólki yrði hlíft. Það munu ekki sjást útfærðar hugmyndir fyrr en fjárlagafrumvarpið verður kynnt í næstu viku. Kynningin núna var fyrst og fremst beint að flokksráði Sjálfstæðisflokksins og var ætlað að sanna fyrir fólkinu þar að Bjarni stæði sig vel og að allt horfði til betra vegar hjá ríkisstjórninni.

Lesa má tilkynningu Bjarna hér: Forgangsraðað fyrir öflugt samfélag.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí