Ef við drögum stöðugleikaframlög slitabúa bankanna frá þá nemur rekstrarhalli ríkissjóðs í fjármálaráðherratíð Bjarna Benediktssonar um 852 milljörðum króna á núvirði frá því hann kom í fjármálaráðuneytið og til loka þessa árs, miðað við nýbirtar áætlanir ráðuneytisins um afkomu þessa árs. Bjarni er sá fjármálaráðherra sem hefur hlaðið upp mestum halla og þar með skuldum og vaxtagreiðslum sem varpað er inn í framtíðina.
Ef við tökum stöðugleikaframlögin með þá skýst Steingrímur J. Sigfússon upp fyrir Bjarna með 516 milljarða króna halla á núvirði á móti 325 milljörðum króna hjá Bjarna. Ástæða þess að eðlilegt er að taka stöðugleikaframlögin frá er að þau eru eingreiðsla sem ekki er hægt að flokka sem eðlilegar tekjur. Það er skrítinn fjármálaráðherra sem tekur við þeim og eyðir í venjulegan rekstur. Sá skilur þá ríkissjóð eftir með risa gati, ójafnvægi milli tekna og útgjalda sem kemur í ljós um leið og búið er að eyða stöðugleikaframlögunum. Sá ráðherra er reyndar Bjarni. Sem hefur það sér reyndar til afsökunar að hafa farið með ríkissjóð í gegnum cóvid-faraldurinn, en þá jós Bjarni fé á báðar hendur og ekki síst til fjármagns- og fyrirtækjaeigenda.
Og afsökun Steingríms fyrir miklum halla er auðvitað Hrunið sem ekki varð á hans vakt heldur var afleiðing af efnahagsstefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og undir lokin ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.
En listinn yfir halla ríkissjóðs á vakt fjármálaráðherra er annars þessi. Listinn nær aftur til 1980 þegar ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen tók við. Segja má að þetta ártal, 1980, sé árið sem tímaskeið nýfrjálshyggjunnar hófst. Það einkennist af miklum hallarekstri ríkissjóðs sem rekja má að mestu til skattalækkana til hinna ríku, fjármagnseigenda og eigenda allra stærstu fyrirtækjanna.
Fjármálaráðherra | Ráðherratíð | Afgangur/-halli á núvirði |
---|---|---|
Bjarni Benediktsson * | 2013-2023 | -852.807 |
Steingrímur J. Sigfússon | 2009-2011 | -516.217 |
Bjarni Benediktsson ** | 2013-2023 | -325.461 |
Friðrik Sophusson | 1991-1998 | -214.512 |
Ólafur Ragnar Grímsson | 1988-1991 | -129.176 |
Árni Matthiesen | 2005-2009 | -78.723 |
Þorsteinn Pálsson | 1985-1987 | -66.687 |
Oddný Harðardóttir | 2011-2012 | -45.150 |
Jón Baldvin Hannibalsson | 1987-1988 | -28.694 |
Katrín Júlíusdóttir | 2012-2013 | -25.609 |
Albert Guðmundsson | 1983-1985 | -16.077 |
Ragnar Arnalds | 1980-1983 | 33.370 |
Benedikt Jóhannesson | 2017 | 72.681 |
Geir H. Haarde | 1998-2005 | 132.344 |
- Bjarni að frádregnum stöðugleikaframlögum ** Bjarni með stöðugleikaframlögum
Aðferðin sem hér er notuð er einföld. Afgangur ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi er tekinn og deilt á milli ráðherranna, hlutfallslega eftir mánuðum þau ár sem fleiri en einn ráðherra var í ráðuneytinu. Miðað er við áætlanir fjármálaráðuneytisins fyrir yfirstandandi ár.