BRICS-ríkin fimm sögð stefna að nýrri alþjóðamynt til höfuðs Bandaríkjadal

Lula da Silva, forseti Brasilíu, ítrekaði á blaðamannafundi á miðvikudag ákall sitt eftir því að ríki heims hætti að reiða sig á Bandaríkjadal í alþjóðaviðskiptum. „Hvers vegna ættum við að nota dollarinn í viðskiptum við Argentínu eða Kína,“ spurði hann, „þegar við getum átt viðskipti í okkar eigin gjaldeyri. Hvers vegna geta lönd sem tilheyra helmingi mannkyns ekki rætt það sín á milli?“.

Hugsanlega má þýða hugtakið de-dollarization sem afdölun. Hún er nú til umræðu í tengslum við BRICS-hópinn, bandalag Brasilíu, Rússlands, Indlands, Kína og Suður-Afríku, en rætt er um möguleikann á að ríkin fimm stofni til myntar eða myntbandalags sem gæti keppt við Bandaríkjadal á alþjóðamörkuðum. Þann 22. ágúst munu fulltrúar BRICS-ríkjanna mætast á ráðstefnu í Jóhannesarborg í Suður-Afríku til viðræðna, meðal annars um þetta. Í umfjöllun The Interpreter, fréttabréfi áströlsku hugveitunnar Lowy Institute, er sagt að aukins þrýstings gæti um stofnun slíkrar myntar eftir því sem Bandaríkjadal er meira beitt fyrir viðskiptaþvinganir á alþjóðavettvangi.

BRICS-ríkin kaupa gull í stórum stíl

Á ráðstefnu BRICS-ríkjanna á síðasta ári tilkynnti Vladímír Pútín að bandalagið ætlaði sér að stofna til nýrrar myntar til notkunar í viðskiptum milli ríkja. Fyrstu tvo mánði þessa árs keyptu þrjú ríkjanna, Kína, Rússland og Indland, auk Tyrklands og Singapúr, meira af gulli en á nokkru tveggja mánaða tímabili til þessa: frá þeim tæpum þremur tonnum sem Indland keypti til rúmlega 50 tonna gullkaupa Singapúr. Þá keypti Rússland rúm 30 tonn, Kína tæp 40 og Tyrkland yfir 45 tonn. Talið er að þetta geti verið vísbendingar um að fyrirhugað sé að hin nýja mynt yrði á gullfæti.

Yfir 40 prósent jarðarbúa lifa innan BRICS-ríkjanna fimm. Verðmæti sameiginlegrar framleiðslu þeirra nemur tæpum þriðjungi af heimsframleiðslu, eða 31,5 prósenti, hótinu meira en framleiðsla G7-ríkjanna, þ.e. Bandaríkjanna, Kanada, Bretlands Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Japan, sem nemur sameiginlega 30,7 prósentum heimsframleiðslu. Það þykir því ekki óhugsandi að BRICS-ríkin gætu orðið sjálfum sér næg, efnt aðeins eða fyrst og fremst til viðskipta hvert við annað, óháð Bandaríkjunum. Þá er leitt að því líkum í fréttabréfi Lowy Institute að slík áform gætu fallið vel að svonefndri Beltis- og brautaráætlun Kína, um eflingu samgangna, samskipta og viðskipta við fjölda ríkja.

Rætt verður um aðild fleiri ríkja að BRICS

Ef af slíkum áformum yrði, og ríki heims yrðu óháðari Bandaríkjadal en þau hafa verið frá lokum síðar heimsstyrjaldar, má að sögn hugveitunnar gera ráð fyrir óðaverðbólgu, þegar seðlabankar losuðu sig við forða sinn af Bandaríkjadal. Fyrirsjánlegt er, að sögn stofnunarinnar, að verðbólgunni yrði svarað með hækkun stýrivaxta, sem myndi leiða til lækkunar á kaupmætti og verðum eigna, sem loks myndi „hraða hnignun Bandaríkjanna enn frekar“. Óhjákvæmilega, lýkur frásögn miðilsins, yrði tilfærsla í skipulagi heimsins.

Samkvæmt Reuters fréttastofunni er það þó Brasilía sem einna helst heldur aftur af þessum áformum og um leið áformum um fjölgun ríkja innan bandalagsins. Bæði Kína og Rússland eru í frétt Reuters sögð áfram um að fjölga aðildarríkjum. Þar er sagt að hvorki Suður-Afríka né Indland séu því mótfallin. 30 ríki eru talin áhugasöm um aðild og þar af hafa 22 þegar sótt um. Sagt er að Indónesía sé ofarlega á lista mögulegra aðildarríkja, en meiri tregða ríki í garð Venesúela, Íran og Saudi-Arabíu. Talið er að auk hins mögulega myntbandalags verði forsendur fyrir aðild að bandalaginu einnig til umræðu á ráðstefnunni í Jóhannesarborg síðar í mánuðinum.

Á þessum vettvangi hefur áður verið fjallað um mögulegan áhrifamátt BRICS-ríkjanna á sviði loftslagsmála.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí