Fréttir um að Reykjavíkurborg væri ekki að sinna því nægilega vel að hirða sorp úr grenndargámum virðast ekki hafa farið fram hjá Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Á Facebook greinir hann frá því að hann hafi í morgun farið í ferð með þeim sinna sorphirðu í Árbænum.
Dagur virðist þó ekki hafa lesið fréttirnar um sorphirðuvandann nægilega vel, því enginn hefur gagnrýnt hefðbundna sorphirðu. Gagnrýnin hefur nær alfarið snúist um tæmingu grenndargáma en það virðist einkafyrirtækinu Terra um megn að tæma slíka gáma svo sómi sé af.
Dagur skrifar á Facebook: „Þegar ég komst ekki inn í MH á sínum tíma þá sótti ég um hjá Sorphirðu Reykjavíkur. Og vildi vera í Árbæjargenginu. Ég fékk ekki vinnuna. Úr þessu var sannarlega bætt í morgun þegar ég heimsótti sorphirðuna þar sem flokkarnir voru saman komnir á Stórhöfðanum – tókum gott spjall um hvernig gengi – og ég fékk svo að fara með að hirða í Árbænum!“
Hann þakkar kærlega fyrir sig og skrifar: „Ágúst Böðvarsson og gengið hans var frábært og tók vel á móti viðvaningnum. Fyrir tilviljun þá byrjuðum við í stigagangnum þar sem ég ólst upp, Hraunbæ 100. Þetta er ekki auðveld vinna og ég skil betur af hverju æskuhetjurnar mínar í öskunni voru berar að ofan á sumrin. En þetta var mjög skemmtilegur morgun og áhugaverður og gaf innsýn í hinar miklu breytingar sem flokkun og sorphirða í borginni er að ganga í gegnum. Þar þurfum Við borgarbúar öll að taka þátt og starfsfólk sorphirðunar lætur sannarlega ekki sótt eftir liggja, þrátt fyrir einhverja byrjunarörðugleika. Takk innilega fyrir mig – og góðar móttökur.“
Grétar nokkur Ólason er fyrstur til að skrifa athugasemd við færslu Dags. Sú athugasemd er nokkuð stutt og laggóð: „Sýndarmennska“