Fær 144 m.kr. afslátt af útsvari vegna þess að peningarnir vinna fyrir hann

Þegar hátekjulistar koma á haustin skapast tækifæri til að skoða hversu ríkjandi skattastefna fer ólíkt með fólk. Tökum dæmi af Hreggviði Jónssyni, sem er tekjuhæsti maðurinn á hátekjulista Heimildarinnar, sem ekki seldi fyrirtæki á síðasta ári. Segja má að Hreggviður sé tekjuhæstur almennra fjármagns- og fyrirtækjaeigenda, af þeim sem líklegt er að verði á sömu listum næstu árin, öfugt við systkinin sem seldu Vísi í fyrra.

Hreggviður er aðaleigandi og fyrrverandi stjórnarformaður Veritas, sem að stærstu leyti er lyfjainnflutningsfyrirtæki. Hann hefur því einkum auðgast af einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Veritas hagnast af lyfjanotkun landsmanna sem að stóru leyti er greitt fyrir með skattfé. Auk Veritas tengist Hreggviður ýmsum fyrirtækjum öðrum, leitar tækifæra til að láta peningana sína skapa sér meiri auð. En auð Hreggviðs má líka rekja til kaupa hans og bróður hans á Hraðfrystihúsinu á Þórshöfn seint á síðustu öld. Þeir bræður eru því meðal þeirra sem auðguðust mest á kvótakerfinu, keyptu sjávarútvegsfyrirtæki áður en öllum varð ljóst verðmæti kvótans.

Í úttekt Viðskiptablaðsins á ríkustu Íslendingunum var auður Hreggviðs metinn á 20 milljarða króna. Þar kom fram á hann á 87,5% hlut í fjárfestingafélaginu Stormtré á móti 12,5% hlut bróður síns, Jóhanns Arngríms Jónssonar. Stærsta eign félagsins er 90% eignarhlutur í Guðrúnarborg, móðurfélagi Veritas Capital samstæðunnar. Veritas samstæðan inniheldur fyrirtækin Vistor, Distica, Artasan, Medor og Stoð.

Samkvæmt Viðskiptablaðinu á Hreggviður auk þess stóran hlut í nokkrum skráðum félögum í íslensku kauphöllinni í gegnum Stormtré. Er til að mynda stærsti einkafjárfestirinn í Festi með 1,95% hlut. Þar að auki er Stormtré næststærsti hluthafi Controlant með um 6,6% hlut. Verðmæti Controlant margfaldaðist í heimsfaraldrinum eftir stóra samninga við Pfizer og bandaríska ríkið í tengslum við dreifingu bóluefna við Covid-19. Stormtré hefur einnig átt stóran hlut í félögum utan um uppbyggingu fimm stjörnu hótels og lúxusíbúða við Austurhöfn í Reykjavík.

Hreggviður er sem sé dæmigerður íslenskur kapítalisti sem auðgaðist af kvóta og lyfjaverslun, sem hvort tveggja eru verðmæti sem byggja á almannaeignum og -fé, og hefur síðan fjárfest í ýmsum fyrirtækjum og verkefnum.

Hreggviður hafði 1.049 m.kr. í tekjur í fyrra. Það gera 87,5 m.kr. á mánuði, 217-falt það sem verkafólk fær fyrir sína vinnu. Af þessum tekjum voru 1.017 m.kr. fjármagnstekjur sem bera miklu lægri skatt en launatekjur. Samanlagt borgaði Hreggviður í útsvar, tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt tæplega 236 m.kr. í skatt, sem er um 22,5% af tekjum.

Til samanburðar þá greiddi launafólk sem hafði 560 þús. kr. á mánuði í fyrra sama hlutfall tekna sinna í skatt. það fólk átti í stökustu vandræðum með að láta enda ná saman, mátti í raun ekki missa svona stóran hluta tekna sinna í skatt. Launafólk með hærri tekjur borgaði hærra hlutfall til skattsins. Fólk með meðaltekjur, sem voru um 668 þús. kr. í fyrra, greiddi 24,8% tekna sinna í skatt, nokkru meira en Hreggviður með sínar 87,5 m.kr. á mánuði.

Ef við reynum að meta skattaafslátt Hreggviðs er best að leggja skatt á heildartekjur hans eins og þær hefðu verið launatekjur. Þá kemur í ljós að Hreggviður hefði átt að borga tæplega 464 m.kr. í skatt, rúmlega 228 m.kr. meira en hann borgaði. Það er ávinningur hans af skattkerfi nýfrjálshyggjuáranna.

En hverjir tapa? Fyrst og fremst sveitarfélögin, í tilfelli Hreggviðs Reykjavíkurborg. Ef útsvar væri tekið af fjármagnstekjum hefði Hreggviður borgað 149 m.kr. í útsvar til Reykjavíkur en ekki aðeins 4,6 m.kr. Mismunurinn er rúmlega 144 m.kr. Og er þá ekki að undra að sveitarfélögin gangi illa, ef þau eru látin gefa eftir útsvar tekjuhæsta fólksins.

En ríkið tapar líka. Ef tekjur Hreggviðs yrðu skattlagðar sem launatekjur fengi ríkissjóður tæplega 84 m.kr. meira frá Hreggviði.

Þetta dæmi dregur ágætlega fram afleiðingar af skattabreytingum nýfrjálshyggjuáranna. Féð var tekið af sveitarsjóðum og ríkissjóði og fært hinum ríku. Hin ríku urðu ríkari en sveitarfélög og ríki veikara. Ríkið bætti sér síðan upp tekjumissinn og hækkaði skatta á almennu launafólki, einkum fólki með meðaltekjur og lægstu tekjur. Sveitarfélög sitja eftir í vanda.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí