Finnska hægrið sækir að norræna líkaninu

Verkalýðsmál 21. ágú 2023

Ríkisstjórn hægri flokkanna í Finnlandi stefnir að því að þvinga fram gjörbreytingu á finnska vinnumarkaðslíkaninu og þar með hverfa frá því fyrirkomulagi samninga sem einkennt hefur Norðurlönd fram til þessa. Á árlegum fundi norrænna vinnumarkaðssérfræðinga sem fram fór í liðinni viku í  Helsinki komu fram þungar áhyggjur finnsku verkalýðshreyfingarinnar af áformum ríkisstjórnar Petteri Orpo forsætisráðherra.  

Ríkisstjórn hægri flokkanna í Finnlandi tók við völdum að afstöðnum þingkosningum í aprílmánuði. Stjórnina mynda  Íhalds­flokk­ur­inn, Sann­ir Finn­ar, Kristi­leg­ir Demó­krat­ar og Sænski Þjóðarflokk­ur­inn. 

Ríkisstjórnin hefur nú opinberað áætlun um róttækar breytingar á fyrirkomulagi vinnumarkaðsmála sem gengur í öllum meginatriðum gegn stefnu verkalýðshreyfingarinnar. Stjórn Orpos hyggst hverfa frá gerð heildarsamninga stétta, takmarka verkfallsrétt og auðvelda atvinnurekendum að segja upp starfsfólki. Þess í stað er ætlunin að fyrirtækjasamningar verði ráðandi á vinnumarkaði og verður unnt að ljúka þeim án aðkomu stéttarfélaga.  Þá er í tillögum stjórnvalda að finna áform um að unnt verði að sekta jafn félög sem einstaklinga vegna vinnumarkaðsbrota og verður lágmarkið 10.000 evrur (um 1,4 milljónir króna). Dregið verður úr kvöðum á atvinnurekendur vegna greiðslu veikindadaga. 

Að sögn Þóris Gunnarssonar sem sat fundinn í Helsinki fyrir hönd ASÍ lýstu finnskir fulltrúar þungum áhyggjum af þróun mála. „Þróunin í Finnlandi hefur verið frá miðlægum kjarasamningum en breytingin er sú að ríkisstjórnin vinnur nú markvisst að því að hverfa frá þessu líkani. Að auki hyggst ríkisstjórnin lögfesta þegar umsamin réttindi launafólks og þar með draga úr vægi kjarasamninga.”  

Samið á Norðurlöndum  

Að sögn Þóris kom fram á fundinum að nýverið hefur verið lokið kjarasamningagerð á hinum Norðurlöndunum fjórum. Samningarnir kveða allir á um meiri hlutfallshækkanir en að jafnaði og veldur þar mestu lífskjarakreppa, verðbólga og vaxtahækkanir. Kjarabaráttan var enda harðari að þessu sinni en oftast áður og reyndist m.a. nauðsynlegt að boða til verkfalla til að knýja fram kjarasamninga.  

Myndin er af Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands.

Frétt af vef Alþýðusambandsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí